Íslenskir vísindamenn standa sig vel í birtingum vísindagreina

15.10.2014

Niðurstöður alþjóðlegrar ráðstefnu um birtingar og mikilvægi þeirra í stefnumótun í rannsóknum og nýsköpun.

Mælingar á birtingum vísindagreina í ritrýndum tímaritum og tilvitnunum í þær, spila stórt hlutverk þegar kemur að stefnumótun í rannsóknum og nýsköpun, en þetta var einmitt efni alþjóðlegrar ráðstefnu, The 19th Nordic Workshop on Bibliometrics and Research Policy, sem haldin var hér á landi í september þar sem sérfræðingar frá fjórtán löndum báru saman bækur sínar um virkni og áhrif vísindasamfélagsins.

Á ráðstefnunni voru til umræðu viðfangsefni eins og mælingar á árangri, áhrif samfélagsmiðla á vísindastarf og alþjóðasamstarf, auk þess sem rætt var um aðferðir við mat á árangri vísinda og hvernig hægt er að aðlaga fjárframlög til einstakra vísindamanna eftir árangri. Aðalfyrirlesari var Dr. Sybille Hinze, aðstoðarforstjóri Stofnunar um rannsóknir og gæði í Berlín.

Einn mikilvægasti mælikvarði á árangur þjóða í vísindum er virkni vísindasamfélagsins við að birta vísindagreinar í ritrýndum tímaritum og þar standa íslenskir vísindamenn mjög framarlega á mörgum sviðum. Einnig kemur í ljós að íslenskir vísindamenn eru einkar ötulir við að vinna rannsóknaverkefni sín í samstarfi við vísindamenn frá öðrum löndum.

Það sem einkennir virkni íslenskra vísindamanna er að vöxtur í fjölda vísindagreina er talsvert hærri en í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við. Má sem dæmi nefna meðaltalsaukningu í fjölda vísindagreina frá árinu 2000 sem er um 49% fyrir Ísland á meðan Noregur er með 35% og önnur Norðurlönd með lægra en 15%.

Háskóli Íslands og Landspítalinn eru þær stofnanir sem virkastar eru í birtingu vísindagreina. Hjá Háskóla Íslands dreifist birting milli margra fræðigreina en þó standa birtingar í heilbrigðisvísindum upp úr, en þær eru næstum þriðjungur af birtum greinum. Minni breidd er eðlilega í greinaskrifum Landspítalans þar sem áherslan er á líf- og heilbrigðisvísindi. Það kemur heim og saman við áherslur annarra háskólasjúkrahúsa á Norðurlöndum.

Hvað varðar tilvísanir í greinar íslenskra vísindamanna er ljóst að Ísland er meðal fremstu þjóða samkvæmt skýrslunni Biblometric Research Performance Indicators for the Nordic Countries.  Í þeirri skýrslu kemur í ljós að Ísland er í 5. sæti hvað varðar tilvísanir. Á undan Íslandi eru Sviss, Bandaríkin, Holland og Danmörk. Í sama riti er Ísland með gildið 1,6 fyrir hlutfallslegan fjölda tilvísana á meðan önnur Norðurlönd eru með á bilinu 1,3 til 1,5). Þetta gefur til kynna að Ísland hefur sterkan vísindalegan grunn.

Upplýsingar og efni frá ráðstefnunni má nálgast á heimasíðu hennar hér: The 19th Nordic Workshop on Bibliometrics and Research Policy.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica