Námskeið í upplýsingatækni fyrir kennara á leik-, grunn og framhaldsskólastigi

20.11.2014

Rannís auglýsir eftir tilboðum í framkvæmd á fræðslu- og námskeiðshaldi á sviði upplýsingatækni fyrir kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Bakgrunnur

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur í samvinnu við hagsmunaaðila unnið grunn að stefnu í upplýsingatækni fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem felur meðal annars í sér að efla og styrkja kennara í faglegu starfi og kennslu á sviði upplýsingatækni.

Á grundvelli þess hefur ráðuneytið ákveðið að veita 5 m.kr. til framkvæmdar og utanumhalds á námskeiðum fyrir kennara á leik-, grunn og framhaldsskólastigi á sviði upplýsingatækni.

Markmið

Markmiðið með fræðslunni er að virkja kennara til þátttöku í tækniþróun í skólaumhverfinu þannig að þeir beiti skapandi lausnum upplýsingatækninnar í kennslu sinni og verði betur undir það búnir að takast á við örar tæknibreytingar. Ekki er gert ráð fyrir að verkefni feli í sér hefðbundna kennslu í notkun á tilteknum hugbúnaði heldur að lögð sé áhersla á tól, tæki og aðferðir upplýsingatækninnar með ofangreind markmið í huga.

Fræðsla getur verið í formi hefðbundinna námskeiða, fjarnáms, sýndarnáms eða blöndu af þessu leiðum. Námskeiðin ættu að hefjast á vormisseri 2015 og framkvæmd þeirra lokið fyrir árslok 2015. 

Umsóknaraðilar

Einungis verður gerður samningur við einn aðila um framkvæmd verkefnisins þar sem um mjög takmarkaða fjárveitingu er að ræða. Skilyrði fyrir samningi eru að viðkomandi aðili hyggist bjóða fræðslu og námskeið:

  • Fyrir kennara á skólastigunum þremur, þ.e. leik-, grunn og framhaldsskóla
  • Bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni
  • Fyrir byrjendur í notkun upplýsingatækni í námi og lengra komna

Einungis tilboð frá lögaðilum sem hafa reynslu af fræðslu og námskeiðshaldi vera metin. Um getur verið að ræða háskóla sem mennta kennara, viðurkennda fræðsluaðila, fagsamtök og fyrirtæki sem starfa að fræðslumálum.

Tilboð og mat

Tilboðsgjafi skal skila inn tilboðum á frjálsu formi með lýsingu á framkvæmd fyrirhugaðs fræðslu og námskeiðshalds ásamt kostnaðaráætlun. Þar skal m.a. koma fram lýsing á námskeiðum eða annarri fræðslu, fyrirhuguðum kennslustundafjölda, nemendafjölda, kennslutíma og áætlaður kostnaður á helstu verkþætti. Tilboðum skal skilað inn til Rannís í síðasta lagi 10. desember 2014, merktum „Upplýsingatækni 2014 – Tilboð“. Skila má tilboðum með tölvupósti á netfangið gim@rannis.is

Sérfræðingar Rannís sjá um mat á tilboðum. Verður horft sérstaklega til eftirfarandi þátta:

  • Heildarfjölda þeirra sem fræðslan mun ná til;
  • Dreifingar fræðslu á skólastig og landshluta;
  • Reynslu tilboðsgjafa og samstarfsaðila þeirra af skipulagi á fræðslu;
  • Hagkvæmni og kostnaðaráætlun. Við mat á kostnaðaráætlun telst eftirfarandi kostnaðarliðir til eðlilegs kostnaðar:
    1. Undirbúningur og skipulagning á námskeiðum og fræðslu.
    2. Beinn námskeiðskostnaður, s.s. greiðslur til leiðbeinenda, húsnæði og veitingar;
    3. Ferðakostnaður þátttakenda;
    4. Umsýslukostnaður tilboðsgjafa.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið tekur ákvörðun um við hvaða tilboði verður tekið á grundvelli mats sérfræðinga. Í framhaldi af því gerir Rannís samning á grundvelli tilboðs þar sem m.a. kemur fram hvernig verður greitt. Gert er ráð fyrir fyrirframgreiðslu, áfangagreiðslu og lokagreiðslu á grundvelli lokauppgjörs þar sem fram koma upplýsingar um framkvæmd verkefnisins, umfang þátttöku og uppgjör kostnaðar.

Upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Ingi Markússon, Rannís: gim@rannis.is sími 515 5841.







Þetta vefsvæði byggir á Eplica