Úttekt á gæðum náms við Listaháskóla Íslands

15.1.2015

Gæðaráð íslenskra háskóla, sem starfar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Rannís hefur umsjón með, hefur lokið viðamikilli úttekt á gæðum náms við Listaháskóla Íslands.

Hér er hægt að nálgast úttektarskýrsluna um gæði náms við Listaháskóla Íslands.

Úttektin er liður í skipulegu eftirliti Gæðaráðs með gæðum náms við íslenska háskóla og er Listaháskóli Íslands fimmti háskólinn sem gengst undir slíkt ferli. Gæðastarf íslenskra háskóla er samræmt og umbótamiðað og leggur áherslu á námsumhverfi og nemendur.

Úttektin var að venju framkvæmd af fjórum erlendum sérfræðingum auk nemendafulltrúa. Í henni fólst að meðal annars var gerð úttekt á stöðu skólans ásamt því að fundað var með fulltrúum nemenda, starfsmanna, stjórnenda, stjórn skólans, brautskráðra nemenda og fulltrúum samstarfsaðila. Listaháskóli Íslands fékk fyrstu niðurstöður úr úttektinni strax að henni lokinni og þar segir að Gæðaráðið beri traust (confidence) til háskólans, bæði hvað varðar akademískt starf og námsumhverfi nemenda. Það er besta einkunn sem háskóli getur fengið við fyrstu úttekt samkvæmt núverandi kerfi en í þessari úttektahrinu sem Gæðaráð framkvæmir fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis er ekki gert ráð fyrir því að neinn skóli geti fengið hæstu einkunn, sem er „full confidence.“

Meðal helstu niðurstaðna úttektarinnar má telja að Listaháskóla Íslands er hrósað fyrir  góða starfshætti, t.d. varðandi fjölbreytt framboð í listnámi, framsýna stjórnun, sveigjanleika við að leita nýrra lausna, fagmennsku starfsfólks við þróun skólans, stuðning við þátttöku nemenda til að hafa áhrif innan skólans,  hæfni varðandi sjálfsmat og áherslu á þróun rannsókna. Úttektarnefndin gerir aftur á móti athugasemdir við þætti er lúta að markaðssetningu skólans, skilgreiningum á þverfaglegu hlutverki hans, skipulagi stjórnkerfis, stefnumótun einstakra deilda, stefnumótun um tengsl við almenning, starfsþróun fyrir kennara og annað starfsfólk og  undirbúning nemenda fyrir störf að námi loknu svo dæmi séu tekin.

Þorsteinn Gunnarsson veitir allar upplýsingar um Gæðaráð háskóla og starf þess, fyrir hönd Rannís.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica