Úthlutun Evrópumerkisins á Íslandi frá árinu 1999

Verðlaunaverkefni 2021: „Telecollaboration“

Veiting Evrópumerkis á Íslandi árið 2021

Evrópumerkið í tungumálum (European Language Label) var afhent 15. desember við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum, en það er veitt annað hver ár á Íslandi fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu. Viðurkenninguna að þessu sinni hlaut verkefnið Telecollaboration sem er samstarfsverkefni milli spænskudeildar Háskóla Íslands og Háskólans í Barcelona í umsjón Pilar Concheiro, stundakennara við HÍ.

Dómnefnd bárust tíu tillögur að þessu sinni og var niðurstaðan sú að verkefnið uppfylli öll markmið viðurkenningarinnar, en auk hennar fær það 300 þúsund kr. styrk til frekari þróunar.

Telecollaboration verkefnið gefur spænskunemum við Háskóla Íslands tækifæri til að læra spænsku undir handleiðslu kennaranema í Háskólanum í Barcelona auk þess sem tækifæri gefst til að þjálfa fjölmenningarleg samskipti. Samvinnunám af þessu tagi kallast rafrænt tandem-nám þar sem gert er ráð fyrir að nemar þrói og hanni tungumálanámið á eigin forsendum undir leiðsögn kennara og þannig fá nemendur raunverulega og þroskandi sýn á tungumálanám sitt. Slíkt nám má einnig flokka sem jafningjanám sem byggir á gagnkvæmum samfélagslegum, menningarlegum og listrænum hugmyndum. Þannig gefst þátttakendum tækifæri til að deila áhugamálum sínum á skapandi hátt milli landa.

Eitt aðalmarkmið verkefnisins er að nemar við HÍ fái tækifæri til að þjálfa færni sína í spænsku á áhrifaríkan hátt og í raunverulegum samskiptum við nema í Barcelona. Á móti kynnast spænskir nemar aðstæðum og lífsháttum á Íslandi. Svona samskipti gera nemum kleift að mynda sterkara sameiginlegt námsumhverfi. Markmið verkefnisins er einnig að þróa hæfni nema til að taka þátt í fjölmenningarlegum samskiptum og þróa rafræna hæfni sína. Þeir nemar sem dómnefndin ræddi við segja m.a. að þeir telji að samvinnan hafi haft veruleg áhrif á hvatningu þeirra til námsins og byggi og þrói sterkt sameiginlegt námsumhverfi sem gerir námið einstakt. Ljóst er að hér er um að ræða afar metnaðarfullt verkefni og dómnefndin telur að auðveldlega megi aðlaga verkefnið kennslu annarra tungumála á háskólastigi og jafnvel á öðrum skólastigum.

Rannís hefur umsjón með Evrópumerkinu á Íslandi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis, en viðurkenningin er hluti af Erasmus+ samstarfsáætlun ESB og er henni ætlað að beina athygli að nýstárlegum og árangursríkum verkefnum í kennslu og námi evrópskra tungumála og hvetja til þess að aðferðir sem þar er beitt nýtist sem flestum. Lögð er áhersla á að verkefnin feli í sér nýbreytni sem aðrir geti lært af.

Skoða verðlaunaverkefni 2021 - Telecollaboration

Veiting Evrópumerkis á Íslandi árið 2019

Evrópumerkið var veitt þann 11. október 2019 á ráðstefnu um jöfn tækifæri sem Erasmus+ hélt sem hluta af dagskrá á Erasmus-dögum. Ráðstefnan fjallaði um þann stuðning sem er fyrir hendi til að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku í Erasmus+. Forgangsatriði Evrópumerkis 2019 var að Þróa (betri leiðir að) skóla án aðgreiningar og styðja kennara og skólastjóra í að fagna fjölbreytileika í skólanum/skólastarfi - Developing better and more inclusive schools and supporting teachers and school leaders to embrace diversity. Dómnefnd bárust 6 umsóknir að þessu sinni. Eftir nána skoðun varð niðurstaða dómnefndar sú að verkefnið Stígum saman í áttina að öflugra samfélagi í verkefnastjórn Nichole Leigh Mosty skyldi hljóta Evrópumerkið í ár.

Dómnefnd Evrópumerkisins skipa í ár Eyjólfur Már Sigurðsson, tilnefndur af Hugvísindasviði HÍ og formaður nefndarinnar, Þórhildur Oddsdóttir, tilnefnd af Samtökum tungumálakennara á Íslandi, og Michael Dal, tilnefndur af Menntavísindasviði HÍ.

Markmið verkefnisins er að styrkja íslenskukunnáttu starfsfólks af erlendum uppruna á leikskólum og bjóða upp á starfstengt íslenskunámskeið þar sem markmiðið er að efla þekkingu þeirra og færni í starfinu, veita upplýsingar um réttindi og skyldur og vinna með sjálfstyrkingu og frumkvæði.

Námið fer fram á vinnutíma og er áhersla lögð á að samþætta starf leikskólans við íslenskukennsluna, styrkja nemandann í samskiptum við börnin, samstarfsmenn og foreldra, efla frumkvæði, gleði og starfsvitund. Á hverjum leikskóla eru svo leiðbeinendur (mentorar) sem veita nemendum stuðning og leiðbeina þeim á vinnustað.

Það er ljóst að hér er um afar metnaðarfullt verkefni að ræða þar sem erlendu starfsfólki á leikskólum borgarinnar er gefinn kostur á að bæta íslenskukunnáttu sína og efla starfsþekkingu sína í leiðinni. Samkvæmt könnun sem lögð var fyrir þátttakendur tóku bæði mentorar og leikskólastjórar eftir auknu sjálfsöryggi nemenda og töldu þá vera duglegri að spyrja spurninga um tungumálið og starfið. Einnig að þeir töluðu meiri íslensku og enskan væri á undanhaldi sem samskiptamál eftir því sem leið á námskeiðið.

Þátttakendur töldu einnig að námskeiðið væri jákvætt fyrir fjölmenningu á leikskólunum og að starfsfólk leikskólans kynntist nemendum betur, menningu þeirra og persónulegum högum.

Dómnefndin telur að auðveldlega megi aðlaga verkefnið erlendu starfsfólki á öðrum skólastigum og einnig á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum á vegum borgarinnar.

Verkefnið er því fyrirmyndarverkefni og fellur vel að þeim forgangsatriðum sem höfð eru til hliðsjónar við veitingu Evrópumerkisins 2019 en það er þróun skóla án aðgreiningar og stuðningur við kennara og skólastjóra í að fagna fjölbreytileika í skólastarfi.

Eyjólfur Már Sigurðsson

Formaður dómnefndar.

Skoða verðlaunaverkefni 2019 - Stígum saman að öflugra samfélagi.

Veiting Evrópumerkis á Íslandi árið 2017

Evrópumerkið var veitt þann 8. nóvember á 30 ára afmæli Erasmus+ áætlunarinnar sem haldið var í Hörpu. Forgangsatriði Evrópumerkis 2017 voru Fjöltyngdir skólar og bekkir – fjölbreytilegt skólastarf (Multilingual Schools and Classrooms: Embracing Diversity in Schools) og  Tungumálaáhersla í samfélaginu – óformlegt tungumálanám (Language-friendly society – informal language learning). Dómnefnd bárust 4 verkefni að þessu sinni. Við nánari skoðun varð niðurstaða dómnefndar sú að verkefnið Menningarmót – Fljúgandi teppi í verkefnastjórn Kristínar R. Vilhjálmsdóttur skyldi hljóta Evrópumerkið í ár.

Dómnefnd Evrópumerkisins skipa í ár Eyjólfur Már Sigurðsson, tilnefndur af Hugvísindasviði HÍ og formaður nefndarinnar, Þórhildur Oddsdóttir, tilnefnd af Samtökum tungumálakennara á Íslandi, og Michael Dal, tilnefndur af Menntavísindasviði HÍ.

Markmið verkefnisins Menningarmót – Fljúgandi teppi er bæði metnaðarfullt og fjölþætt og nær til breiðs hóps því markhópurinn er nemendur, kennarar og foreldrar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi Meginmarkmiðið er að virkja nemendur og varpa ljósi á styrkleika, fjölbreytta tungumálaþekkingu og menningu þeirra.

Verkefnið byggir á þverfaglegri aðferð í starfi með börnum og fullorðnum, sem ætluð er til þess að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima þátttakenda. Á menningarmótum fá þátttakendur tækifæri til að hittast og kynna sína menningu, ekki endilega þjóðmenningu eða upprunamenningu einstaklinga heldur er markmiðið að hver og einn varpi ljósi á það sem skiptir hann mestu máli eða vekur áhuga hans. Um er að ræða ferli í þremur þrepum:

  • Kynning á verkefninu með þátttöku nemenda
  • Vinna með menningu og miðlunarleiðir í viðkomandi skóla á forsendum nemenda
  • Menningarmót: foreldrum og öðrum nemendum er boðið að fá innsýn í fjölbreytta menningarheima og áhugamál þátttakenda

Lykilatriði við útfærslu Menningarmóts er að litið er á hugtakið fjölmenningu í víðum skilningi – nokkuð sem varðar alla í samfélaginu, ekki einungis ákveðna hópa.

Ávinningurinn er einkum sá að þegar skólar vinna markvisst að því að hafa tungumál og fjölbreytta menningu sýnilega í skólastarfinu, er skapað tækifæri fyrir alla nemendur og starfsfólk til að auka fjölmenningarlega færni sína. Það eykur sjálfstraust fjöltyngdra nemenda þegar stuðlað er að jákvæðari sýn á hæfileikann til að nota og tjá sig á ólíkum tungumálum.

Verkefnið hefur þegar verið yfirfært erlendis, bæði í Danmörku og í Tékklandi með góðum árangri. Það er ljóst að hér er um afar metnaðarfullt verkefni að ræða þar sem leitast er við að efla sjálfsvitund fjöltyngdra barna. Verkefnið er því fyrirmyndarverkefni og uppfyllir vel þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar Evrópumerkisins 2017.

Eyjólfur Már Sigurðsson

Formaður dómnefndar.

Skoða verðlaunaverkefni 2017: Menningarmót-fljúgandi teppi

Veiting Evrópumerkis á Íslandi árið 2015

Evrópumerkið var veitt þann 26. september 2015 á degi evrópskra tungumála. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum stóð fyrir afhendingunni. Forgangsatriði Evrópumerkis 2015 voru Tungumál og margbreytilega samfélagið (Languages for social inclusion) og Tungumál og íþróttir.  Dómnefnd bárust 10 verkefni og augljóst er að víða er verið að vinna mikið og gott starf á sviði tungumálanáms - og kennslu. Við nánari skoðun varð niðurstaða dómnefndar sú að verkefnið Velkomin -  Úrræði fyrir móttöku og samskipti frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í verkefnastjórn Huldu Karenar Daníelsdóttur og Þorbjargar Þorsteinsdóttur skyldi hljóta Evrópumerkið í ár.

Dómnefnd Evrópumerkisins skipa: Jórunn Tómasdóttir, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og formaður nefndarinnar, Þórhildur Oddsdóttir, tilnefnd af Samtökum tungumálakennara á Íslandi, Eyjólfur Már Sigurðsson, tilnefndur af Hugvísindasviði HÍ og Michael Dal, tilnefndur af Menntavísindasviði HÍ.

Markmið verkefnisins Velkomin er bæði metnaðarfullt og fjölþætt og markhópurinn er allt skólasamfélagið, nemendur, kennarar, stjórnendur og foreldrar. Meginmarkmiðið er að auðvelda aðlögun og samskipti við nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku og foreldra þeirra hvar á landinu sem þeir búa, bjóða þau þannig velkomin og styðja markvisst við félagslega aðild þeirra að samfélaginu.

Verkefnið er samskiptatæki bæði til að kenna íslensku sem annað tungumál og til að auðvelda skólum móttöku, aðlögun og samskipti við erlenda nemendur og foreldra þeirra. Efnið er margvíslegt og skiptist í þrettán flokka á sex tungumálum. Verkefnið byggir á margvíslegri opinberri stefnumótun og styður við fjölmenningarlegt skólastarf. Nýbreytnin felst einkum í því að strax við komuna til Íslands geta nemendur sem ekki eiga íslensku að móðurmáli og foreldrar þeirra haft auðveldari samskipti við skólasamfélagið gegnum samskiptatækni sem verkefnið býður upp á. Verkefnið er aðgengilegt á vef Tungumálatorgs HÍ þar sem unnt er að kynnast því náið á grundvelli skýrra leiðbeininga. http://tungumalatorg.is/velkomin/

Ávinningurinn felst einkum í auðvelduðum samskiptum erlendu nemendanna og foreldra þeirra við skólasamfélagið sem einnig mun létta þeim aðlögun og aðgengi að íslensku samfélagi. Þannig verða möguleikar þeirra meiri og betri til að verða virkir þegnar í samfélaginu. Með hljóðsetningu erlendu tungumálanna fimm, litháísku, pólsku, ensku, spænsku og arabísku og íslensku á vefnum geta allir nemendur orðið meðvitaðir um hvernig tungumálin hljóma, hvernig ritháttur þeirra er og þeir geta fengið tækifæri til að læra dálítið í þessum tungumálum. Verkefnið getur gert skólasamfélagið meðvitaðra um kennslu og nám í tungumálum jafnframt því sem sýnileiki tungumálanna ætti að styrkja við félagsleg tengsl innan nemendahópsins.

Yfirfærslugildi verkefnisins felst í því að unnt er að bæta við fleiri tungumálum og fleiri efnisflokkum. Sveitarfélög, stofnanir og aðrir aðilar geta unnið sambærilega vefi til að þjónusta betur íbúa sem ekki eiga íslensku að móðurmáli.

Það er ljóst að hér er um afar metnaðarfullt verkefni að ræða sem leitast við að aðstoða nemendur sem ekki eiga íslensku að móðurmáli og foreldra þeirra til að eiga merkingarbær samskipti við skólasamfélagið strax í upphafi og hjálpa þeim þannig til að aðlagast betur og fljótar íslensku samfélagi. Í verkefninu er lögð áhersla á sýnileika tungumálanna og á þann hátt að gera skólasamfélagið meðvitaðra um margbreytileika hins fjölmenningarlega  íslenska samfélags. Styrkur verkefnisins liggur ekki hvað síst í því hve aðgengilegt það er á vefnum sem auðveldar nýbúum að komast í félagsleg tengsl við innfædda gegnum skólasamfélagið jafnframt því sem það auðveldar skólanum að taka vel á móti nýju fólki sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Verkefnið er því fyrirmyndarverkefni og uppfyllir vel þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar Evrópumerkisins 2015.

Jórunn Tómasdóttir

Formaður nefndar um European Label.

Veiting Evrópumerkis á Íslandi árið 2013

Evrópumerkið var veitt í 9. sinn á Uppskeruhátíð Rannís, sem haldin var í Hafnarhúsinu þann 22. nóvember 2013. Jan Truszczynski, frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, afhenti viðurkenninguna.

Að þessu sinni hlaut viðurkenninguna verkefnið Íslenskuþorpið; leið til þátttöku í daglegum samskiptum á íslensku. Umsjón með Íslenskuþorpinu hefur Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir. Háskóli Íslands stýrir verkefninu sem er þverfaglegt nýsköpunarverkefni en að því standa fjórir háskólar: HÍ, Listaháskóli Íslands, Syddansk Universitet í Danmörku og Interaktiv Institute í Svíþjóð. Þeir tveir síðastnefndu munu setja upp samskonar tungumálaþorp í sínum löndum þegar tilraunatíma Íslenskuþorpsins lýkur. Nemendur Listaháskóla Íslands sjá um alla hönnun þorpsins.

Markmið Íslenskuþorpsins, sem er þróunar – og nýsköpunarverkefni í kennslu og þjálfun íslensku fyrir erlenda nemendur á vegum Háskóla Íslands, er að skapa aðstæður fyrir þá sem eru að læra íslensku sem annað mál til að nota nýja málið við daglegar aðstæður. Verkefnið byggir á nýjustu rannsóknum á sviði annarsmálsfræða sem sýna m.a. að virk málnotkun er forsenda þess að fólk læri tungumál. Sett hefur verið upp smækkuð mynd af þorpi, Íslenskuþorpinu, í Reykjavík þar sem nemendur fá tækifæri til að nýta nýja tungumálið í daglegu lífi. Raunveruleg fyrirtæki og starfsfólk þeirra eru þátttakendur í verkefninu. Íslenskuþorpið er hugsað sem millistig milli þess að tala íslensku í kennslustofunni og úti í samfélaginu. Nemendur vinna mismunandi verkefni í þátttökufyrirtækjunum, í kennslustofunni, heima, á Facebook og á Uglu.

Nýbreytnin felst einkum í því að nemendur verða virkir þátttakendur í tungumálanáminu. Þeir fara út í samfélagið og sækja tungumálið eftir ýmsum leiðum. Um leið og þeir sinna erindum sínum úti í samfélaginu læra nemendur íslensku í raunverulegum aðstæðum. Stór þáttur tungumálanámsins er að taka upp samskiptin í Íslenskuþorpinu og vinna verkefni í tengslum við hljóðupptökurnar. Nemendur deila reynslu, mynd- og hljóðupptökum í kennslustofunni, á Facebook og á Uglu. Verið er að vinna að Íslenskuþorps-appi þar sem nemendur geta hlustað á orðaforða og framburð í snjallsíma. Íslenskuþorpið er líka með ítarlega heimasíðu.

Ávinningurinn felst einkum í auknum samskiptum erlendu nemendanna við innfædda á íslensku og þannig fá þeir tækifæri til að auka færni sína í nýja málinu því það er ljóst að erlendir íslenskunemar fá almennt ekki mörg tækifæri til að eiga samskipti á íslensku í samfélaginu þar sem flestir geta gert sig skiljanlega á ensku. Ávinningur felst einnig í því að stofnaður hefur verið gagnabanki Íslenskuþorpsins þar sem finna má hljóð- og myndupptökur af samskiptum nemenda í þorpinu. Með gagnabankanum bjóðast tækifæri til frekari rannsókna á íslensku sem öðru máli.

Yfirfærslugildi verkefnisins felst augljóslega í því að unnt er að búa til tungumálaþorp í líkingu við Íslenskuþorpið í hvaða tungumáli sem er, hvar sem er. Rannsóknir á máltileinkun, gerð námsefnis og uppsetningu tungumálaþorpa geta komið að gagni í öllum tungumálum.

Um tvöhundruð erlendir nemendur í HÍ hafa stundað íslenskunám í Íslenskuþorpinu síðastliðið ár. Niðurstöður kannana sýna að um 90% þeirra telja Íslenskuþorpið gagnlegt í tungumálanáminu. Háskólinn á Akureyri, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Símenntunarmiðstöð Suðurnesja hafa sýnt áhuga á og óskað eftir samstarfi við Íslenskuþorpið.

Það er ljóst að hér er um afar metnaðarfullt verkefni að ræða sem byggir á doktorsrannsókn Guðrúnar Theodórsdóttur frá 2010 um máltileinkun íslensku sem annars máls við raunverulegar aðstæður utan kennslustofunnar. Í verkefninu er lögð áhersla á að tengja formlegt málanám við félagslegar athafnir og lifandi tjáskipti. Styrkur verkefnisins liggur ekki hvað síst í því að þátttakendum gefst tækifæri til að auka færni sína í íslenskunni við eðlilegar aðstæður utan kennslustofunnar og um leið komast í félagsleg tengsl við innfædda. Verkefnið er því fyrirmyndarverkefni og uppfyllir vel þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar Evrópumerkisins 2013.

 - Jórunn Tómasdóttir, formaður nefndar um Evrópumerki.

Veiting Evrópumerkis á Íslandi árið 2011

Evrópumerkið var veitt þann 26. september 2011 í Hátíðasal Háskóla Íslands, á degi evrópskra tungumála. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum stóð fyrir afhendingunni. Forgangsatriði Evrópumerkis 2011 voru tungumál í samfélaginu og tungumálakunnátta og atvinnumöguleikar. Dómnefnd bárust 8 verkefni og augljóst er að víða er verið að vinna mikið og gott starf á sviði tungumálanáms - og kennslu.

Verkefnið Yrkja á vegum Eflingar hlaut Evrópumerkið 2011. Umsjón með verkefninu höfðu Atli Lýðsson, fyrir hönd Eflingar stéttarfélags og Vala S. Valdimarsdóttir fyrir hönd Mímis - símenntunar.

Verkefnið felst í að þróa og kenna 200 stunda nám fyrir erlenda félagsmenn Eflingar stéttarfélags sem eru í atvinnuleit. Samþætting efnisþátta úr námskrám sem hafa verið gefnar út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og menntamálaráðuneytinu var lögð til grundvallar. Einnig var stuðst við reynslu af þróunarverkefninu Kjölur og átaksverkefninu Ungt fólk til athafna, fyrir ungt erlent fólk sem kom til framkvæmda hjá Mími – símenntun á vorönn 2010. Námskeiðið var haldið á tímabilinu frá 4. október til 10. desember á síðasta ári og voru þátttakendur 16 talsins. Áhersla var lögð á að námsþættirnir snertu persónulega og félagslega færni auk starfsfærni. Þættir námsins voru íslenska (60 klst.), framburður og tal (6 klst.), samfélagsfræðsla (24 klst.), tölvur (32 klst.), enska (20 klst.), sjálfstyrking (12 klst.), myndlist (8 klst.), næringarfræði (4 klst.), færnimappa (8 klst.), námsráðgjöf (8 klst.), fjármál (4 klst.), hreyfing í líkamsræktarstöð (4 klst.) og dagsferð með fulltrúa frá Hjálparsveit skáta á Reykjanes.

Markmið verkefnisins var að virkja þátttakendur, sem voru að þessu sinni pólskar konur sem höfðu litla sem enga íslenskukunnáttu og voru búnar að vera atvinnulausar lengur en í 12 mánuði, til íslenskunáms og aukinnar þátttöku í íslensku samfélagi. Yfirmarkmiðið var að auka hæfni þeirra og möguleika á íslenskum vinnumarkaði.

Nýbreytnin felst einkum í því að tvinna saman tungumálanám og félagsfærni. Einnig má telja til nýbreytni að hópurinn var einsleitur, bara pólskar konur,  þær komu sjálfviljugar á námskeiðið og  að margar námsgreinarnar voru kenndar á móðurmáli kvennanna, pólsku sem auðveldar þeim aðgengi að námsefninu. Námið var líka verulega fjölbreytt sem og kennsluaðferðir og reynt var að hafa þær sem mest einstaklingsmiðaðar.

Ávinningurinn felst einkum í ánægju og þakklæti nemenda á námskeiðinu. Einn þátttakandinn komst svo að orði í viðtali við fréttablað Eflingar  að námskeiðið hafi verið æðislegt og það hafi verið frábært að fá að hitta skemmtilegt fólk og gera eitthvað saman.

Þessi kona segist ætla að taka íslenskuna föstum tökum og fara á íslenskunámskeið í haust. Það sem henni þótti þó best við námskeiðið var að hitta fólk í sömu sporum og hún sjálf og hafa eitthvað fyrir stafni í atvinnuleysinu. Margar kvennanna héldu áfram í námi í íslensku  hjá Mími – símenntun eða Landnemaskólanum og einhverjar hafa þegar fengið vinnu. Ávinningurinn virðist því töluverður.

Yfirfærslugildi verkefnisins felst í því að unnt er að vinna slík námskeið með hvaða tungumálahópum sem er.

Það er ljóst að hér er um afar metnaðarfullt verkefni að ræða sem byggir á langri reynslu og mikilli fagmennsku. Á bak við verkefnið liggur heilmikil hugmyndafræði og kennslufræðileg ígrundun. Verkefnið er grundað á ítarlegri greiningu á markhópnum sem er minnihlutahópur sem nauðsynlegt er að virkja þannig að hann geti orðið virkur í samfélaginu. Í verkefninu er lögð áhersla á að tengja formlegt málanám við félagslegar athafnir og lifandi tjáskipti. Styrkur verkefnisins liggur ekki hvað síst í því að þátttakendum gefst tækifæri til að rjúfa félagslega einangrun sína og styrkja þannig sjálfsmynd sína og öðlast meira sjálfstraust. Verkefnið er því fyrirmyndarverkefni og uppfyllir vel þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar Evrópumerkisins 2011.

- Jórunn Tómasdóttir, formaður nefndar um Evrópumerki.

Veiting Evrópumerkis á Íslandi árið 2009

Evrópumerkið var afhent í 7. sinn þann 25. september 2009 á hátíðardagskrá í Neskirkju í samvinnu við stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, en það er veitt annað hvort ár. Að þessu sinni voru forgangsatriði frá Evrópusambandinu tungumál og fjölmenning og tungumál og viðskipti. Fjórtán umsóknir bárust. Dómnefnd skipuð af menntamálaráðuneytinu komst að þeirri niðurstöðu að verkefnið Íslenskuspilið skyldi hljóta Evrópumerkið árið 2009.

Íslenskuspilið er unnið af Selmu Kristjánsdóttur kennara á vegum Þekkingarseturs Þingeyinga. Spilið á að þjálfa fullorðna útlendinga í alhliða tjáningu á íslensku. Notkun spilsins á að auðvelda þátttakendum að kynnast og þar með aðlagast íslensku samfélagi. Spilið er einkum þróað með fullorðna, útlenda nemendur í huga en það nýtist líka ágætlega við kennslu í grunn- og framhaldsskólum.

Í umsögn dómnefndar segir m.a.: Íslenskuspilið er margnota námsefni, notkunarmöguleikar þess eru fjölbreyttir. Með því má æfa marga þætti málsins svo sem tjáningu, munnlega og skriflega, hlustun og lestur. Málfræði og setningarfræði er samofin efninu og lögð er áhersla á að nemendur geti beitt málinu rétt. Spilið reynir því á marga færniþætti.

Veiting Evrópumerkisins á Íslandi árið 2007

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, afhenti Evrópumerkið við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu, þann 26. september 2007.

Evrópumerkið hlaut ferðamálakjörsvið Menntaskólans á Akureyri fyrir verkefni sitt á sviði nýjunga í tungumálanámi og tungumálakennslu. Umsjónarmaður verkefnisins er Margrét Kristín Jónsdóttir. Auk þess hlaut verkefnið Tungumálakennarinn sem rannsakandi sem þrír framhaldsskólar unnu á vegum Endurmenntunar Háskólans sérstök verðlaun. Umsjónarmaður verkefnisins er Anna Sjöfn Sigurðardóttir.

Auk Evrópumerkisins, sem framkvæmdastjórn ESB og menntamálaráðuneyti veitir, voru vegleg bókaverðlaun veitt.

Veiting Evrópumerkisins á Íslandi árið 2005

Verzlunarskólinn hlaut Evrópumerkið við hátíðalega athöfn í Þjóðmenningarhúsi þann 26. september 2005. Hilda Torres umsjónarmaður verkefnis: Samstarfsverkefni í spænsku og tölvu og upplýsingatækni. Samþætting námsgreina og þverfagleg vinna sem leiðir til aukinnar fjölbreytni í tungumálanámi með áhugavekjandi námsefni og framsetningu þess.

Veiting Evrópumerkisins á Íslandi árið 2003

Á evrópskum tungumáladegi 26. september 2003 var Evrópumerkið veitt í fjórða sinn á Íslandi. Tvær umsóknir bárust um viðurkenninguna og hlaut önnur þeirra Evrópumerkið. Frú Vigdís Finnbogadóttir veitti viðurkenninguna við athöfn í Háskóla Íslands sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum stóð fyrir í tilefni af tungumáladeginum.

Evrópumerkið 2003 hlaut verkefnið: Framfaramöppur í tungumálanámi

Umsjón: Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Laugalækjarskóla.

Framfaramöppur í tungumálanámi eru í fysta lagi kennsluaðferð þar sem áhersla er lögð á námsferlið, viðfangsefni nemandans á hverjum tíma, tilgang námsins og hvað nemandinn telur sig læra af því sem unnið er við.

Í öðru lagi eru framfaramöppurnar matstæki sem byggir á áþreifanlegum sönnunargögnum sem sýna vinnuframlag, árangur og framfarir nemandans á tilteknu tímabili. Matið miðar að því að kanna í hvaða mæli nemandanum hefur tekist að ná tilteknum markmiðum. Matið byggir á viðmiðum og/eða samanburði við fyrri verkefni af sama eða svipuðum toga. Um getur verið að ræða ritverk, bókrýni, kannanir og mat nemanda á þeim, upplestur, ýmsar upptökur, dæmi um hópvinnu o.s.frv. Markmið einstakra verkefna og vinna við þau eru sett í samhengi við langtímamarkmið eða markmið aðalnámskrár.

Í þriðja lagi eru námsmöppurnar öflugt samskiptatæki í samskiptum nemanda og kennara og nemanda, kennara og foreldra. Mappan verður grundvöllur umræðna um framfarir og stöðu nemandans. Áherslan flyst frá einkunnum og umsögnum til mats á hvort og í hvaða mæli nemandinn hefur staðist markmið og kröfur hvers verkefnis.

Veiting Evrópumerkisins á Íslandi árið 2001

Evrópumerkið var veitt í þriðja sinn á Íslandi 23. nóvember 2001. Athöfnin fór fram í Þjóðmenningarhúsi og veitti Björn Bjarnason menntamálaráðherra viðurkenninguna. Alls bárust 4 umsóknir og hlaut ein þeirra Evrópumerkið 2001.

Evrópumerkið árið 2001 hlaut verkefnið: Tölvustudd danska á almennri braut II í framhaldsskóla/ Menntaskólanum í Kópavogi.

Umsjón: Þórdís Magnúsdóttir og Þórhildur Oddsdóttir, kennarar við Menntaskólann í Kópavogi.

Verkefnið er sniðið fyrir nemendur í áfanganum DAN 393 á almennri braut II í Menntaskólanum í Kópavogi, en það getur einnig nýst einstaklingum sem liður í símenntun. Námsefnið er unnið út frá markmiðssetningu aðalnámskrár með tilliti til upplýsingatækni og áhersla á tungumálanám sem nýtist í daglegu lífi. Námsefnið er hugsað sem grunnefni í dönsku á almennri braut framhaldsskóla. Uppbyggingu og innihaldi námsáfangans er ætlað að stuðla að því að að nemendur nálgist námsgreinina út frá nýju sjónarhorni. Námsefnið er vefefni sem að hluta til er opið almenningi og að hluta til tengt aðgangsorði.

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur verði sér meðvitaðir um hvernig þeir læra tungumál og tileinki sér tækni sem auðveldar þeim námið. Áhersla er lögð á að auka ábyrgð nemenda á eigin námi og auka sjálfstraust þeirra gangvart upplýsingatækni og nýjum miðlum. Áfanginn er bókarlaus, -allt efni er sótt á margmiðlunardiska og á Veraldarvefinn. Verkefni í lestri, hlustun og ritun byggja á notkun rafrænna miðla. Helstu viðfangsefni eru menning, heilsa, matur, samskipti og ferðalög. Einstakir efnisþættir eru í stöðugri endurnýjun sem stuðlar að því að námsefnið sé ávallt nýtt og í takt við samtímann. Unnið er með ólíkar gerðir texta og eingöngu notaðir rauntextar, þ.e. textar sem ekki hafa verið umorðaðir eða styttir. Talþjálfun fer m.a. fram í litlum hópum með kennara og í svokölluðum dönskubúðum, en þá vinna nemendur og kennari saman í einn sólarhring og öll samskipti og samvinna fara fram á dönsku.

Veiting Evrópumerkisins á Íslandi árið 2000

Evrópumerkið var veitt í annað sinn á Íslandi 25. október 2000. Athöfnin fór fram Þjóðmenningarhúsi og veitti Björn Bjarnason menntamálaráðherra viðurkenninguna. Fjórar umsóknir bárust og hlaut ein þeirra Evrópumerkið. Evrópumerkið hlaut verkefnið: Tungumálanám á Neti. Umsjón: Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Gry Ek Gunnarsson, Ingegerd Narby og Þorvaldur Pálmason. Verkefnið var unnið vegum á Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Verkefnið tekur til nemenda í sænsku í 9. bekk grunnskóla og nemenda í norsku í 9. og 10. bekk grunnskóla. Markmið með verkefninu er m.a. að skapa námsumhverfi á Netinu fyrir fyrrgreinda nemendur, óháð búsetu þeirra.

Um er að ræða kennsluvef með samskiptasetri og upplýsingavef. Kennsluvefurinn byggir á gagnvirkum vefverkefnum, stýrðum vefleiðöngrum, samskiptasetri og stuðningsverkefnum. Vefurinn er þannig úr garði gerður að nemendur geta tengst raunefni sem er í sífelldri endurskoðun á vefjum í Svíþjóð og Noregi. Námsefninu er skipt upp í þemu. Hvert þeirra er tveggja til þriggja vikna vinna. Miðað er við að nemendur geti sinnt náminu í nettengdri tölvu í sínum heimaskóla. Á upplýsingavefnum er að finna námslýsingar og þar er gerð grein fyrir tiltæku ítarefni og samstarfsaðilum. Einnig er þar að finna upplýsingar fyrir foreldra.

Veiting Evrópumerkisins árið 1999


Evrópumerkið var veitt hér á landi í fyrsta sinn þann 4. júní 1999. Alls bárust 12 umsóknir um viðurkenninguna.

Eftirtalin verkefni hlutu Evrópumerkið 1999:

  1. Stýrt sjálfsnám í tungumálum. Umsjón: Eyjólfur Már Sigurðsson, Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands. Verkefnið nær til dönsku, frönsku, þýsku og spænsku. Um er að ræða einstaklingsmiðað tungumálanám fyrir alla nemendur Háskóla Íslands þar sem áhersla er lögð á sjálfstæði í námi og notkun nýrra miðla. Jafnframt eru aðstæður til skapandi málnotkunar undir leiðsögn kennara, s.s. með samtalstímum sem byggja á fjölmiðlaefni, ferlisritun með notkun tölva og gagnvirkri ritun í tölvupósti og á spjallrásum.
  2. Tungumál iðngreina í Hótel og matvælaskólanum. Umsjón: Samuel Lefever, Valfríður Gísladóttir, Þórdís Magnúsdóttir og Þórhildur Oddsdóttir, Menntaskólanum í Kópavogi.
    Verkefnið nær til dönsku, ensku og frönsku. Um er að ræða starfstengt tungumálanám til að auka færni nemenda í starfi á innlendum og erlendum vettvangi. Áhersla er m.a. lögð á virka talþjálfun við raunverulegar faglegar aðstæður. Nemendur og kennarar vinna m.a. með efni af Internetinu, margmiðlunardiskum og kynningarmyndböndum.
  3. Danska fyrir þátttakendur í norrænu samstarfi og viðskiptum. Umsjón: Ágústa P. Ásgeirsdóttir, Bertha Sigurðardóttir og Brynhildur Ragnarsdóttir, Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Norrænu tungumálaráðgjöfinni. Verkefnið tekur til 8 vikna námskeiðs fyrir starfsmenn í stjórnsýslu, einkafyrirtækjum og félagasamtökum. Áhersla er lögð á þjáfun munnlegrar færni þátttakenda til að þeir geti orðið virkir í samskiptum við norrænar þjóðir með sérstöku tillliti til þátttöku á fundum. Notað er m.a. efni af Internetinu, blaðagreinar og fréttaefni af hljóð- og myndböndum







Þetta vefsvæði byggir á Eplica