Auglýst eftir umsóknum í Erasmus+ 2022

25.11.2021

Senn líður að lokum þessa viðburðaríka árs hjá Erasmus+ og nýtt ár er handan við hornið. Nú hefur Evrópusambandið tilkynnt um umsóknarfresti sem verða í boði árið 2022 og munu færa íslensku mennta- og æskulýðssamfélagi fjölmörg tækifæri til samstarfs utan landsteinanna. 

  • Pexels-monstera-7412073
  • Næsti umsóknarfrestur í Erasmus+ nám og þjálfun er 23. febrúar kl. 11:00.
  • Næsti umsóknarfrestur samstarfsverkefna er 23. mars kl. 11:00 og fyrir smærri samstarfsverkefni 4. október kl. 10:00.

Eins og flestum er í fersku minni hófst nýtt tímabil í Erasmus+ nú á árinu 2021 og mun það standa til 2027. Á tímabilinu verður veitt tvöfalt meira fjármagni en á því fyrra og einkennist það af aukinni áherslu á inngildingu, sjálfbærni, stafræna þróun og virka þátttöku í samfélaginu. Árið 2022 hefur mikla merkingu fyrir Erasmus+ um alla Evrópu:

„Next year Erasmus+ will be celebrating 35 years of successfully providing opportunities for people to study, learn and get training experience abroad. All participants say that it is a life-changing experience, one that marked their personal and professional paths and left lasting memories of what it means to live in the European Union. We want to give the opportunity to a greater number of people to take part and benefit from what Erasmus+ has to offer. We will also celebrate in 2022 the European Year of Youth and Erasmus+ will play a central role.“ Mariya Gabriel, framkvæmdastjóri nýsköpunar, menningar, menntunar og æskulýðsmála hjá Framkvæmdastjórn ESB

Stefnt er að því að breyta sem fæstu milli ára til að umsækjendur finni fyrir stöðugleika innan tímabilsins. Þó eru nokkrar nýjungar væntanlegar á komandi ári sem vert er að veita athygli.

  • Stúdenta- og starfsmannaskipti milli Íslands og landa utan Evrópu. Þessi möguleiki fyrir háskóla er nú í boði eftir eins árs hlé og þar með í fyrsta skipti á nýju tímabili. Umsóknarferlið hefur verið einfaldað til muna og sveigjanleiki aukinn fyrir háskóla til að nýta fjármagn. Sérstök áhersla er lögð á Asíu, Kyrrahafslöndin, lönd sunnan Sahara og Suður - Ameríku. Hægt verður að fara í hefðbundin skipti sem og blönduð, þar sem dvöl á staðnum er tengd við stafræna þátttöku.
  • Einfaldað styrkjakerfi stærri samstarfsverkefna (KA220). Í stað þess að sækja um styrk fyrir einingum munu umsækjendur sækja um heildarkostnað, eða svokallað lump-sum. Þessi nýjung var kynnt til sögunnar í smærri verkefnunum árið 2021 en mun nú taka gildi í öllum samstarfsverkefnum styrkt af landskrifstofum.
  • Frá árinu 2022 verður Discover EU verkefnið hluti af Erasmus+ og íslensk ungmenni geta í fyrsta sinn tekið þátt. Verkefnið hefur það að markmiði að veita ungu fólki á 18. aldursári tækifæri til að læra um Evrópu með því að ferðast um álfuna og njóta þannig góðs af þeim hreyfanleika sem Evrópusamstarf færir okkur. Í leiðinni fá þau að kynnast öðru ungu fólki, ólíkri menningu og nýjum tungumálum. Sótt er um í DiscoverEU tvisvar á ári. Öll ungmenni búsett á Íslandi geta tekið þátt en þau þurfa að svara stuttri könnun til að eiga möguleika á að vera dregin út. Þau ungmenni sem dregin eru út fá ferðapassa til að ferðast um Evrópu, sem þau geta nýtt innan næstu 12 mánaða frá útdrætti.

Íslenska Landskrifstofan hefur um 8,6 milljónir evra í menntahluta Erasmus+ til úthlutunar, sem er 7,5% aukning frá fyrra ári, og 2,8 milljónir evra í æskulýðshlutanum, sem er 12% aukning. Auk þess mun um hálf milljón evra renna til stúdenta- og starfsmannaskipta á háskólastigi til og frá löndum utan Evrópu.

Starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi hvetur umsækjendur hér á landi til að kynna sér vel þá styrkmöguleika sem í boði eru. Þau sem hafa spurningar um umsóknarferlið eru eindregið hvött til að hringja eða skrifa tölvupóst til viðkomandi verkefnastjóra. Í upphafi nýs árs má reikna með ýmsum kynningarviðburðum af hálfu Landskrifstofu. Þeir verða nánar auglýstir hér á síðunni og í fréttabréfi okkar, sem við mælum með að allt áhugasamt fólk um Evrópusamstarf gerist áskrifendur að.

Umsóknareyðublöð verða gerð aðgengileg fljótlega á Erasmus+ torginu.

Nánari upplýsingar

· Erasmus+ handbókin 2022

· Auglýsing ESB um Erasmus+ umsóknir 2022

· Vinnuáætlun ESB fyrir Erasmus+ 2022

· Fréttatilkynning









Þetta vefsvæði byggir á Eplica