Vottun klasastjórnunar á Íslandi

16.5.2012

Á dögunum hélt ESCA, European Secretariat for Cluster Analysis, þjálfunarbúðir gagngert til að þjálfa alþjóðlegt teymi í vottun klasastjórnunar. Þorvaldur Finnbjörnsson, sviðsstjóri greiningarsviðs hjá Rannís og Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sóttu þjálfunarbúðirnar og teljast nú fullgildir vottunaraðilar á Íslandi.

Á grundvelli vottunar fá klasar bronsviðurkenningu sem fyrirmyndarklasar, en slík vottun veitir þeim meðal annars tækifæri til frekari viðurkenninga á grundvelli góðra starfshátta. Úttektirnar eru unnar með aðferðum hagnýtra viðmiða (e.benchmarking) sem byggð eru á upplýsingum og reynslu frá 250 evrópskum klösum. Hagnýtu viðmiðin fylgja stöðluðu ferli og er úttekt framkvæmd af vottuðum sérfræðingi frá ESCA. Vottun fer fram á starfstöð klasans í öllum tilvikum þar sem viðtal er tekið við stjórnanda viðeigandi klasa. Viðtalið samanstendur af 40 spurningum sem taka á fjölbreyttum atriðum í starfsemi klasans. Niðurstöðuskýrsla er gefin út í lok ferils, í síðasta lagi mánuði eftir viðtal. Þessi skýrsla inniheldur samanburðargröf sem tengjast sambærilegum klösum, mat á tækifærum klasans og tillögur að umbótum í starfsemi hans. Allt ferlið er framkvæmt í nánu samstarfi við klasastjóra og/eða stjórn hans.

Fyrirmyndarstjórnun klasa er leiðarljós fyrir klasastjóra og þeirra sem móta stefnur og áherslur í þessum málaflokki. Þá staðreynd má meðal annars sjá endurspeglast í frumkvæði The European Cluster Excellence og í tilmælum sem European Cluster Policy Group veitir.

Nánari upplýsingar veitir Karl Friðriksson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í síma 522-9000 og Þorvaldur Finnbjörnsson hjá Rannís í síma: 515-5800









Þetta vefsvæði byggir á Eplica