Ísbrjóturinn Snædrekinn kemur til Íslands í gegnum Norður-Íshafið

5.7.2012

Kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn (Xuě Lóng) lagði af stað þann 2. júlí sl. frá Qingdao í Kína í fimmta vísinda- og rannsóknarleiðangur Kínverja á norðurslóðir, CHINARE 5.

Í leiðangrinum mun Snædrekinn fara svonefnda norðausturleið meðfram Rússlandi og Noregi og hafa viðkomu á Íslandi í ágúst í boði íslenskra stjórnvalda. Mun þessi ferð til Íslands styrkja enn frekar rannsóknasamstarf landanna tveggja á sviði norðurslóðarannsókna. Í heimsókn Snædrekans mun almenningi á Íslandi, bæði í Reykjavík og á Akureyri, gefast kostur á að skoða þennan stærsta ísbrjót heims sem ekki er kjarnorkuknúinn.

Margvíslegar rannsóknir munu fara fram í þessari tímamótasiglingu en þetta er fyrsti kínverski rannsóknarleiðangurinn sem fer Norðausturleiðina. Um borð er 120 manna áhöfn og meðal þess sem rannsakað verður eru áhrif loftlagsbreytinga á norðurheimskautsísinn og vistfræðilegt ástand svæðisins. Innanborðs eru 60 vísindamenn frá hinum ýmsu stofnunum og háskólum og koma fimm þeirra utan meginlands Kína. Rannsóknasvið þeirra skiptast í fjögur meginsvið: 1. hafeðlisfræði (þ.m.t. hafís og sjávarveðurfræði), 2. sjávarjarðfræði, 3. efnafræði sjávar og andrúmslofts og 4. sjávarlíffræði og vistkerfi sjávar. Aðrir þátttakendur í leiðangrinum eru umsjónaraðilar, fréttafólk og almennir áhafnarmeðlimir.

Aukið vísindasamstarf Íslands og Kína

Leiðangur Snædrekans til Íslands endurspeglar m.a. aukna samvinnu landanna í málefnum norðurslóða hin síðari ár sem nú síðast má sjá í undirritun samkomulags um samstarf í vísindum og tækni á sviði haffræði og heimsskautsfræða milli ríkjanna tveggja. Koma Snædrekans til Íslands mun enn frekar styrkja samstarf þjóðanna og greiða fyrir mikilvægum rannsóknum og þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á svæðinu.

Íslendingar um borð

Tveir Íslendingar munu taka þátt í leiðangri Snædrekans. Í siglingu ísbrjótsins frá Kína til Íslands, mun Egill Þór Níelsson, gistifræðimaður hjá Heimaskautastofnun Kína, vera með í för þar sem hann mun vinna að verkefni í tengslum við norðurslóðasiglingar en Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, mun taka þátt í síðari hluta leiðangursins og rannsaka hörfun og ástand hafíss á norðurslóðum.  Arctic Portal á Akureyri (www.arcticportal.org) mun halda úti sérstöku vefsvæði um leiðangurinn og birta upplýsingar um ferðina eins reglulega og aðstæður um borð leyfa hverju sinni.

Snædrekinn og skipulagning leiðangursins

Snædrekinn er 167 m að lengd og 23 m að breidd, ísþol hans er skráð sem B1 og hann getur farið í gegnum ís sem er a.m.k. 1,1 m. þykkur. Um borð eru þrír rannsóknabátar og þyrla.  Aðstaða fyrir vísindamenn er mjög góð með gagnamiðstöð og sjö rannsóknastofum.

Í Kína hefur Stofnun kínverska ríkisins um málefni hafsvæða (e. State Oceanic Administration - SOA) í Peking yfirumsjón með málefnum er lúta að heimskautasvæðinu en innan hennar starfar ráðgjafanefnd skipuð aðilum frá 13 ráðuneytum og ríkisstofnunum. Undir SOA fellur einnig Stofnun kínverska ríkisins um málefni Norður- og Suðurheimsskautsins (e. Chinese Arctic and Antarctic Administration - CAA) sem einnig er staðsett í Peking. Sú stofnun skipuleggur rannsóknaleiðangra Kínverja á norðurslóðum með þátttöku rannsóknastofnana og háskóla, og hefur umsjón með norðurslóðamálefnum fyrir SOA. Samstarfsstofnun hennar í Sjanghæ, Heimskautastofnun Kína (e. Polar Research Institute of China - PRI), veitir margvíslega aðstoð fyrir rannsóknaleiðangra ásamt því að vera þungamiðja norðurslóðarannsókna. Stofnunin hefur áður staðið fyrir fjórum rannsóknaleiðöngrum á norðurslóðum og starfrækir auk þess rannsóknastöð á Svalbarða. Farnir hafa verið 28 rannsóknaleiðangrar til Suðurskautsins en þar rekur Heimaskautastofnunin þrjár rannsóknastöðvar. Meginrannsóknasvið stofnunarinnar á heimaskautasvæðunum eru haffræði, háloftaeðlisfræði, sjávarveðurfræði og -jarðfræði, jökla- og hafísfræði, sjávarlíffræði og vistfræði sjávar, auk félagsvísinda á borð við lög-, hag- og stjórnmálafræði.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica