Tólf íslenskir þátttakendur á ráðstefnu um norðurslóðir í Shanghai

29.5.2013

Ráðstefna um samstarf Norðurlandanna og Kína á sviði rannsókna á norðurslóðum, 1st China - Nordic Arctic Cooperation Symposium, fer fram í Shanghai dagana 4. - 7. júní nk. Heimskautastofnunin í Kína, Polar Research Institute of China, stendur fyrir ráðstefnunni í samvinnu við Rannís á Íslandi samkvæmt samningi þar um, sem undirritaður var á síðasta ári í tengslum við heimsókn kínverska ísbrjótsins Snædrekans hingað til lands.

Þátttakendur ráðstefnunnar koma frá Kína og Norðurlöndunum, þar af verða 12 íslenskir þátttakendur, m.a. frá utanríkisráðuneytinu, Rannís, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík, Hafrannsóknastofnun og Norðurslóðaneti Íslands.

Á ráðstefnunni verða þrjú meginefni til kynningar og umræðu: siglingar á norðurslóðum og auðlindaleit, stefnumótun og stjórnarhættir og loks loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á þróun mannlífs.

Í tengslum við ráðstefnuna verður rætt um væntanlega samstarfsstofnun Kína og Norðurlandanna, China - Nordic Arctic Research Center, sem Heimskautastofnun Kína hyggst koma á fót í Shanghai í samstarfi við Rannís og rannsóknaaðila á hinum Norðurlöndunum. Gert er ráð fyrir að þessi stofnun myndi sérhæfa sig á sviði félagsvísinda á norðurslóðum.

Ferð íslensku vísindamannanna á ráðstefnuna er m.a. styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, Rannís, Climate Research Fund, Eimskip og Hafréttarstofnun.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica