Um 100 milljónum króna úthlutað úr Menntaáætlun Evrópusambandsins til yfirfærsluverkefna á sviði starfsmenntunar

24.9.2013

Í dag voru undirritaðir við Háskólann á Bifröst, Starfsafl og Vinnumálastofnun samningar um styrki úr Leonardo hluta Menntaáætlunar Evrópusambandsins. Úthlutunarnefnd ákvað að undangengnu mati sérfræðinga að styrkja þrjú verkefni en að þessu sinni bárust níu umsóknir. Heildarkostnaður vegna verkefnanna nemur um 130 milljónum króna en þar af styrkir Menntaáætlun ESB verkefnin um tæplega 100 milljónir.
 Verkefnin sem um ræðir eru svokölluð yfirfærsluverkefni en þau hafa það að markmiði að auka gæði og aðdráttarafl evrópska starfsmenntakerfisins með aðlögun og innleiðingu nýjunga á sviði starfsmenntunar til nýrra markhópa og starfsgreina innan starfsmenntakerfa í 35 Evrópulöndum. Verkefnin sem hljóta styrk eru:

 

Háskólinn á Bifröst með verkefnið RETRAIN: 
RETRAIN er nafn á tveggja ára evrópsku verkefni um eflingu starfsþjálfunar í verslunum sem Rannsóknasetur verslunarinnar stýrir. Markmið þess er að koma á fót námi fyrir starfsþjálfa í verslunum. Þannig er stefnt að því að  til verði sérhæfðir starfsmenn í verslunum sem geti tekið að sér þjálfun og verklega kennslu nýrra starfsmanna. 
Beitt verður viðurkenndum aðferðum sem hafa reynst vel í öðrum starfsgreinum og í öðrum Evrópulöndum. Segja má að þetta sé liður í að koma á eins konar meistarakerfi í verslunum líkt og þekkist í mörgum iðngreinum.  Verkefnið er liður í að bæta fagmennsku í verslunarstörfum og um leið hvatningu til þeirra sem starfa í verslun að sækja sér áframhaldandi menntunar, því margir þeirra sem starfa við almenn verslunarstörf hafa ekki lokið formlegri framhaldsmenntun.
Erlendir þátttakendur í verkefninu eru frá Austurríki og TESCO verslunarkeðjan á Írlandi. Námið sem verður þróað verður prófað í verslunarkeðjum í hverju þátttökulandanna. Hér verður það gert í Samkaupum, á Írlandi í TESCO verslunarkeðjunni og í Austurríki í verslunarkeðjunni Merkur. Auk Rannsóknaseturs verslunarinnar tekur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins  þátt í verkefninu hér á landi. 
 
STARFSAFL með verkefnið NORDGREEN EQF:
 Markmið verkefnisins er að:

Endurskoða og yfirfæra þekkingu sem er fólgin í fyrri vinnu nokkurra samstarfsaðila verkefnisins í námskrá í skrúðgarðyrkjufögum sem byggist á EQF rammanum sem kenna má bæði í formlega og óformlega skólakerfinu.
Þróa sjálfbærar lausnir sem taka mið af hnattrænum breyting og sem kenna má skrúðgarðyrkju
Semja stutta kennslubók um efnið ætlaða til kennslu í skrúðgarðyrkju, bæði í formlega og óformlega skólakerfinu
 
Starfsafl fræðslusjóður stýrir verkefninu og erlendir samstarfsaðilar eru  Gjennestad Vidaregaaende skola í Noregi, Hvilan Utbildning í Svíþjóð, Samtök skrúðgarðyrkjumeistara í Noregi (Norske anleggsgartnere), Samtök skrúðgarðyrkjumeistara í Svíþjóð (Sveriges traedgaardsanlaeggnings forbund),  Jens Thejsen a/s ráðgjöf í Danmörku og Samtök skrúðgarðyrkjumeistara í Finnlandi (Viheraluerakentajat ry).
 
Vinnumálastofnun með verkefnið FEMALE: 
 Verkefnið snýst um að auka færni og hæfni frumkvöðlakvenna sem nýlega hafa stofnað fyrirtæki.  Markmið verkefnisins er að auka hæfni og færni þessa hóps og gera þær hæfari til að reka sín fyrirtæki og skapa fleiri störf.   
Sett verður upp fræðsla fyrir frumkvöðlakonur sem fléttar saman námsþætti eins og stefnumótun, fjármál, skatta- og bókhald, vöruþróun, markaðsmál, útflutning og samfélagsmiðla við sjálfseflingu og markmiðasetningu.   
Aðferðin hefur verið notuð í Bretlandi með góðum árangri en mun nú verða yfirfærð til Íslands, Spánar og Litháen.  Útkoma verkefnisins verður námskeið fyrir frumkvöðlakonur (6 námsþættir) en á milli námsþátta verður ýmis fræðsla í boði sem tengist sjálfseflingu og markmiðasetningu.  Hluti af verkefninu er gerð hagnýtrar handbókar og þróun vefumhverfis fyrir konur til að víkka tengslanet sitt og deila reynslu með öðrum frumkvöðlakonum í Evrópu.  
Vinnumálastofnun stýrir verkefninu en samstarfsaðilar eru ráðgjafafyrirtækið Inova í Bretlandi, ATAEM félag fyrir konur í atvinnurekstri, avinnuþróunarfélagið KRIC í Litháen, netlausna og netnámsfyrirtækið VITECO á Ítaliu og Viðskipaháskólinn á Bifröst.
 

Ísland hefur verið þátttakandi í Leonardó starfsmenntaáætluninni frá 1995 í gegnum EES samninginn. Árið 2007 rann Leonardó inn í nýja Menntaáætlun Evrópusambandsins. Leonardó starfsmenntahlutanum er ætlað að ýta undir ný viðhorf og geta af sér nýjungar í starfsmenntun, jafnt fyrir atvinnulíf og menntakerfi Evrópu. Helstu áherslur í þessari þróun eru að koma upp sameiginlegum ramma fyrir mat á getu og starfsfærni einstaklinga, innleiða aðferðir sem tryggja gegnsæi prófskírteina og hæfnisvottorða, auka hreyfanleika vinnuafls milli landa og skapa betri tækifæri til símenntunar í starfsmenntun.  
 
Á næsta ári tekur ný menntaáætlun, ERASMUS +, við hlutverki núverandi áætlunar. Stefnt er að því að auka töluvert fjármagn til þessara áætlunar og hafa Íslendingar fullan aðgang að þessum styrkjum. Upplýsingar á heimasíðu Framkvæmdastjórnar ESB um Erasmus+: http://ec.europa.eu/education/erasmus-for-all/








Þetta vefsvæði byggir á Eplica