Lykiltölur um rannsóknir og nýsköpun

5.6.2014

Rannís hefur gefið út svokallaða Vasabók með yfirliti yfir nýjustu tölfræði um rannsóknir, þróun og nýsköpun á Íslandi síðastliðin ár.

Þar kemur meðal annars fram að Íslendingar vörðu 42,4 milljörðum króna til rannsókna og þróunar árið 2011.  Það samsvarar 2,6% af vergri landsframleiðslu.  Stærstum hluta útgjaldanna var varið til heilbrigðismála og iðnaðar.  Á heimasíðu Rannís má nálgast Vasabókina og einnig enska útgáfu hennar.

Nánari upplýsingar fást hjá starfsmönnum mats- og greiningarsviðs Rannís.

Helstu tölur um rannsóknir og nýsköpun á Íslandi

  • Framlag ríkisins til rannsókna og þróunar í fjárlögum var um 19 milljarðar króna árið 2012 og 20,6 milljarðar króna árið 2013 á verðlagi 2014.  Háskólar taka við um 45% af því fé og opinberar stofnanir um 26%.
  • Árið 2013 nam opinber fjármögnun úr helstu samkeppnissjóðunum á Íslandi til rannsókna og þróunarverkefna rúmlega 3,6 milljörðum króna.  Sama ár nam skattfrádráttur til fyrirtækja sem voru eigendur að rannsókna- og þróunarverkefnum rúmum 1,1 milljarði króna.
  • Á tímabilinu 2007 til 2013 veitti Evrópusambandið íslenskum þátttakendum í 7. rannsókna-áætluninni styrki sem námu alls ríflega tíu milljörðum íslenskra króna. 
  • Árið 2010 var 7,7% vergrar landsframleiðslu varið til menntamála á Íslandi sem er nokkuð yfir meðaltali OECD. Íslendingar verja hlutfallslega minni fjármunum til háskólamenntunar en töluvert meiri fjármunum til grunn- og framhaldsskólamenntunar miðað við samanburðarlönd.
  • 34% Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára eru háskólamenntaðir en að jafnaði eru um 32% íbúa í aðildarríkjum OECD með háskólamenntun.
  • Alls luku 93 Íslendingar doktorsnámi árið 2012 og voru konur í meirihluta útskrifaðra eða 54%.
  • Íslendingar vörðu 42,4 milljörðum króna til rannsókna og þróunar árið 2011. Það samsvarar 2,6% af vergri landsframleiðslu.
  • Ísland er í 10. sæti af ríkjum OECD þegar kemur að útgjöldum til rannsókna og þróunar árið 2011 í hlutfalli við verga landsframleiðslu.
  • Árið 2011 var stærstum hluta útgjalda í málaflokknum varið til heilbrigðismála og iðnaðar.
  • Fyrirtæki á Íslandi fjármögnuðu um 48% af öllum útgjöldum til rannsókna og þróunar árið 2011.  Opinber framlög námu 42% fjármögnunar á rannsókna- og þróunarstarfi.  Um 8% fjármagns kom erlendis frá.
  • Ársverk í rannsóknum og þróun á Íslandi voru 3.244 árið 2011. Um 46% ársverkanna voru unnin hjá fyrirtækjum.
  • 70% ársverka voru unnin af sérfræðingum og karlar unnu meirihluta ársverka.
  • 64% íslenskra fyrirtækja með tíu starfsmenn eða fleiri, sem svöruðu spurningalista um nýsköpun, segjast hafa stundað nýsköpun á tímabilinu 2008 til 2010.  Íslensk fyrirtæki voru með ívið meiri nýsköpunarvirkni en fyrirtæki annarra Evrópulanda að jafnaði.
  • Íslendingar hafa sýnt hlutfallslega mesta fjölgun í birtingu greina í ritrýndum fagritum frá 2000 til 2012 sé tekið mið af frammistöðu annarra Norðurlanda. Um birtingar er að ræða meðal valdra háskóla og háskólasjúkrahúsa.
  • Fjöldi íslenskra einkaleyfaumsókna til Evrópsku einkaleyfastofunnar hefur aukist um 26% á 12 ára tímabili, frá 13,7 umsóknum á hverja hundrað þúsund íbúa árið 2001 í 18,4 umsóknir 2012. 










Þetta vefsvæði byggir á Eplica