Norðurljósarannsóknarstöð að Kárhóli í Reykjadal

4.6.2014

Fyrsta skóflustungan að Norðurljósarannsóknarstöð á Kárhóli í Reykjadal var tekin 2. júní sl. en uppbygging stöðvarinnar er liður í samkomulagi milli Rannís og Heimskautastofnunar Kína Í Shanghæ (Polar Research Institute of China – PRIC).

Íslensk sjálfseignarstofnun, Aurora Observatory, sem stofnuð var á síðasta ári, mun annast uppbyggingu og rekstur allrar aðstöðu á Kárhóli en stofnaðilar eru atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Atvinnuefling Þingeyjarsveitar, Kjarni ehf og Arctic Portal.

Byggð verður rúmlega 700 m2 bygging sem hýsa mun rannsóknartæki og vinnuaðstöðu fyrir vísindamenn auk gestastofu fyrir ferðamenn með sýningarrými og litlum ráðstefnusal til kynningar á norðurljósunum og öðrum háloftafyrirbærum. Rannsóknarstarfsemi hófst haustið 2013 en starfsemi stöðvarinnar útvíkkar frekar þær mælingar sem þegar eru stundaðar hér á landi þar sem fyrirhuguð tæki og búnaður geta gefið ítarlegri upplýsingar um eiginleika norðurljósa en núverandi búnaður.

Ýmsar stofnanir munu geta tekið þátt í rannsóknum stöðvarinnar, m.a. Veðurstofa Íslands, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri, Norðurslóðanet Íslands og Heimskautastofnunin, stofnun um jarðvísindi í Kína (CAS), vísinda- og tækniháskóli Kína auk annarra þarlendra stofnana.

Í framhaldi af skóflustungu að stöðinni var haldið tveggja daga málþing á Akureyri, þar sem vísinda- og fræðimenn frá Norðurlöndunum og Kína, auk fulltrúa ríkja Norðurskautsráðsins fjölluðu um málefni Norðurslóða, m.a. alþjóðasamvinnu, efnahagslíf og alþjóðavæðingu.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica