Víðtæk greining á stórsameindum í fléttusamlífi - verkefni lokið í Rannsóknasjóði

8.5.2013

Fléttur og skófir eru áberandi og útbreiddar á Íslandi og hafa mikla þýðingu í mörgum vistkerfum auk þess að vera sérlega áhugaverðar þróunarfræðilega. Fléttur hafa löngum vakið forvitni sem dæmigert og stöðugt samlífi þar sem árangur heildarinnar byggir á verkaskiptingu og samstarfi tveggja lífvera, annars vegar asksvepps og hins vegar ljóstillífandi grænþörungs og/eða blágrænbakteríu.

small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Víðtæk greining á stórsameindum í flétusamlífi
Verkefnisstjóri: Ólafur S. Andrésson, Líffræðistofnun HÍ
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 17,409 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100201

Við höfum nú ákvarðað erfðamengi himnuskófar (Peltigera membranacea) og jafnframt greint tjáningu gena í þrenns konar vefjum fléttunnar við mismunandi aðstæður.  Ákvörðun á umritunarmengi svepphlutans gerir okkur einnig kleift að skilgreina prótíngerðir og skyldleika þeirra við sambærileg prótín í öðrum lífverum. Jafnframt höfum við skilgreint gen og prótín í sambýlisbakteríunni, sem er blágrænbaktería af ættkvíslinni Nostoc. Birtar hafa verið tvær greinar sem byggja á þessari vinnu, og a.m.k. ein í viðbót mun birtast á þessu ári. Fyrirliggjandi upplýsingar verða notaðar til að koma skilgreindu (glósuðu) erfðamengi fléttunnar fyrir í genabanka og til að útfæra kerfislíkan af efnaskiptum í sambýlinu. Í heild munu þessar upplýsingar veita djúpan og margbrotinn skilning á fléttusamlífi, hvað knýr það áfram og hvernig það þróast, auk þess að leggja grunn að frekari rannsóknum svo sem greiningu á efnaskiptamengi og efnaflæði.

 Greinar birtar

Expression of lec-1, a mycobiont gene encoding a galectin-like protein in the lichen Peltigeramembranacea. Vivian P. W. Miao & Sheeba S. Manoharan & Vésteinn Snæbjarnarson & Ólafur S. Andrésson. Symbiosis (2012) 57:23-31.

LEC-2, a highly variable lectin in the lichen Peltigera membranacea. Manoharan SS, Miao VP, Andrésson OS. Symbiosis  (2012) 58: 91-98.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica