Meinvaldar samfélagslungnabólgu á Landspítala: framsýn rannsókn - verkefnislok

18.3.2014

Rannsóknin fjallaði um lungnabólgu meðal fullorðinna sem þurftu að leggjast inn á Landspítala á 12 mánaða tímabili árin 2008-2009. Markmið með rannsókninni voru þríþætt: 1) Að kanna einkenni, alvarleika og afdrif fullorðinna sjúklinga sem þurftu að leggjast inn vegna lungnabólgu á Landspítala. 2) Að bera saman helstu einkenni, orsakir, meðferð og afdrif þeirra sem fengu slíkar sýkingar, eftir því hvort um var að ræða samfélagssýkingar eða sýkingar tengdar heilbrigðisþjónustu. 3) Að beita afar næmum aðferðum sem byggja á kjarnsýrumögnun til að greina orsakir sýkinganna. Þriðji þáttur verkefnisins var unninn í samvinnu við veirufræðideild Háskólans í Gautaborg.

small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Meinvaldar samfélagslungnabólgu á Landspítala: framsýn rannsókn
Verkefnisstjóri: Magnús Gottfreðsson

Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2011
Styrkfjárhæð: 8,877 millj. kr. alls

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi: Af 511 sjúklingum sem boðið var að taka þátt höfnuðu 15 (2%) þátttöku og 123 einstaklingar sem gáfu samþykki sitt (24%) voru síðar útilokaðir þar eð útilokunarskilmerki voru til staðar. Lokahópurinn taldi því 373 einstaklinga. Meinvaldandi sýklar greindust í 49% af þessum sjúklingum (152) og reyndist Streptococcucs pneumoniae vera algengasta bakterían, en þar á eftir fylgdu Mycoplasma pneumoniae og Inflúenza A - veira. Fjölmargar aðrar veirur greindust, þar á meðal RSV, Rhinoveirur, Coronaveirur, Metapneumoveira og Bocaveira. Sýklafræðilegar orsakir lungnabólgu voru svipaðar meðal þeirra sem smituðust úti í samfélaginu og hjá þeim sem höfðu tengsl við heilbrigðisþjónustu, með þeirri undantekningu að M. pneumoniae var algengari meinvaldur í samfélagssýkingum og gram-neikvæðar bakteríur voru algengari meðal þeirra sem höfðu tengsl við heilbrigðisþjónustu. Engar fjölónæmar bakteríur greindust meðal sjúklinganna. Alvarleikastig sýkingarinnar var talið lægra hjá þeim sem greindust með inflúensu, en þrátt fyrir það var þörf á yfirgripsmeiri og dýrari meðferð í þeim hópi og því vakna spurningar um gagnsemi slíks stigunarkerfis við aðstæður eins og þær sem ríktu hér haustið 2009 þegar heimsfaraldur inflúensu var í fullum gangi.

Ávinningur og áhrif: Gagnasöfnun og greiningu í þessari stóru framvirku rannsókn á lungnabólgu er lokið. Með því að styðast við gögn sem fengust úr rannsókninni hefur skapast sterkur fræðilegur grunnur sem unnt er að byggja á þegar meðferð með sýklalyfjum er valin. Einnig hefur rannsóknin varpað ljósi á algengi víðtæks sýklalyfjaónæmis hér á landi, en það reyndist vera lægra en búast mátti við. Þá hefur rannsóknin varpað ljósi á dánartíðni sjúklinga sem greinast með lungnabólgu hér á landi. Rannsóknin hefur verið kynnt á vísindaráðstefnum hér á landi, en einnig á ráðstefnum á Norðurlöndunum og vísindaþingum bandarískra smitsjúkdómalækna. Hún hefur þegar leitt til einnar birtingar í viðurkenndu vísindariti, en gert er ráð fyrir birtingu a.m.k. tveggja annarra vísindagreina með niðurstöðum hennar á næstu mánuðum. Þá er gert ráð fyrir að verkefnið verði uppistaðan í einni doktorsritgerð.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica