Námsstílar í InfoMentor - verkefnislok í Tækniþróunarsjóði

5.3.2013

Námsstílar er ný eining í upplýsingakerfið InfoMentor sem þróað var með styrk frá Tækniþróunarsjóði. Einingin styrkir kerfið alþjóðlega og gefur Mentor enn frekara samkeppnisforskot í Evrópu. Búið var til "app" sem er til sölu í App store sem einstaklingar geta keypt til að greina sinn eigin námsstíl. Sökum áherslu á einstaklingsmiðun um alla Evrópu hefur skapast þörf fyrir tæknilegar úrlausnir sem gera kennurum kleift að laga kennslu sína að þörfum hvers einstaklings. Mentor vann Námsstíla í samvinnu við dr. Lenu Boström í Svíþjóð og Svend Erik Schmidt í Danmörku sem bæði eru sérfræðingar í námsstílum og þekktir fyrirlesarar og fræðimenn á Norðurlöndum.

Heiti verkefnis: Námsstílar í InfoMentor
Verkefnisstjóri: Vaka Óttarsdóttir, Mentor ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011
Fjárhæð styrks: 7,2 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 110599

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Með því að greina námsstíl nemenda og aðlaga kennsluna að honum eykst árangur nemenda. Námsstíll er margþætt fyrirbæri sem styður við alhliða nám og þroska einstaklingsins. Námsstíl hvers og eins ætti að viðurkenna og virða. Námsstíll erfist að einhverjum hluta, felur í sér styrkleika og veikleika og þróast og breytist með árunum. Námsstíll er samsettur úr tilfinningalegum, vitsmunalegum, umhverfis‐ og lífeðlisfræðilegum þáttum sem einkenna hverja persónu. Einingin Námsstílar er mikilvægt verkfæri fyrir kennara til þess að stjórna og halda utan um hvern einstakling. Með því að þekkja námsstíl nemenda og geta á einfaldan hátt séð hvaða leið hentar hverjum nemanda best geta þeir betur lagað kennsluna að hverjum nemanda.

Nemendur, sama hvort sem er á grunn‐, framhalds‐ eða háskólastigi geta nýtt sér að þekkja betur sinn námsstíl og aukið þannig árangur sinn. Skólar og heimili þurfa að aðlagast nýrri þjóðfélagsmynd, börn eru í mörgum tilvikum tæknilega færari en foreldrar þeirra og kennarar. Börnin þurfa að fá að vera meiri þátttakendur í sínu námi, þau þurfa að fá að vera virk og hefðbundin kennsla er í mörgum tilvikum óspennandi fyrir þau. Þessu þurfum við að mæta, gefa þeim sveigjanleika, því ef börnum líður vel þá læra þau betur. Með auknum aðgangi að upplýsingum um námsstíla getum við brúað kynslóðabilið, nálgast nemendur á annan hátt og um leið aukið árangur og vellíðan nemenda.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica