Markaðssókn á Norðurlöndum - verkefnislok í Tækniþróunarsjóði

8.3.2013

Markaðssókn Dohop á Norðurlöndum.

Íslenska ferðaleitarvélin Dohop ehf. hefur lokið verkefninu "Markaðssókn á Norðurlöndum". Fyrirtækið hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði til eins árs vegna verkefnisins að fjárhæð 5.000.000 kr. í ársbyrjun 2012. 

Markmiðið með verkefninu var að koma Dohop á kortið meðal íbúa Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur og auka fjölda gesta frá þessum löndum þannig að hann standi jafnfætis gestafjölda frá Íslandi í hverjum mánuði. 

Heiti verkefnis: Markaðssókn á Norðurlöndum
Verkefnisstjóri: Davíð Gunnarsson, Dohop ehf.
Tegund styrks: Brúarstyrkur
Styrkár: 2012
Fjárhæð styrks: 5 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 120985-0611

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Verkefnið hófst í október árið 2011 með tilraunamarkaðssetningu í Noregi og eftir að það gaf góða raun var ákveðið að einblína á Noreg fyrst um sinn, en reynsla Dohop af markaðssetningu erlendis gaf til kynna að einbeitt átak væri betra en dreift.

Gestafjöldi jókst mest frá Noregi, en Svíþjóð og Danmörk sýndu líka aukningu enda mjög nálægir og áþekkir markaðir. Þessum aukna gestafjölda fylgir einnig tekjuaukning og er hún sömuleiðis að mestu frá Noregi. 

Styrktímabili Tækniþróunarsjóðs er nú lokið en verkefnið er í raun rétt að byrja. Langan tíma tekur að byggja upp vörumerki á nýjum markaði og hefur verkefnið gengið vel en þó ekki eins hratt og vonir stóðu til. Verkefnið hefur þó skilað Dohop nokkurri tekjuaukningu og augljóst er af fyrstu vikum ársins 2013 að vinna ársins 2012 hefur skapað góðan grunn að áframhaldandi vexti á Norðurlöndum. 

Þann lærdóm má helst draga af verkefninu fram að þessu að kynning á nýju vörumerki erlendis, jafnvel á frekar litlum markaði eins og í Noregi er dýrari og tekur meiri tíma en ástæða var til að ætla í upphafi.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica