VisuaLice - lok Eurostars-verkefnis í Tækniþróunarsjóði

24.4.2013

Vaki fiskeldiskerfi vinnur að þróun tækni til að greina laxalús

Í laxeldi í löndum eins og Noregi, Skotlandi og Chile er laxalús vandamál sem fiskeldismenn þurfa að glíma við. Við ákveðin skilyrði getur blossað upp lúsafaraldur sem getur haft slæm áhrif á heilsu og viðgang fisksins í eldiskvíunum. Því er nauðsynlegt að fylgjast vel með stöðunni öllum stundum. Í þeim tilgangi eru tekin sýni úr kvíunum, þ.e. það eru háfaðir fiskar og þeir skoðaðir og talinn fjöldi lúsa, ef þær sjást. Þetta er bæði tímafrek og erfið vinna auk þess að til þess þarf vel þjálfað starfsfólk. Vaki fiskeldiskerfi og Silsoe Research í Bretlandi hófu samstarf fyrir meira en 3 árum síðan um þróun tækni og búnaðar til sjálfvirkrar greiningar á laxalús. Tæknin byggir á rafeindarbúnaði og myndvinnslutækni sem gerir það kleift að sjá og greina lús sjálfvirkt sem annars við eðlilegar aðstæður er nánast ósýnileg þar sem hún er gagnsæ og smá.

Heiti verkefnis: VisuaLice Eurostars
Verkefnisstjóri: Þorvaldur Pétursson, Vaka fiskeldiskerfi hf.
Styrkár: 2009-2011
Tegund styrks: Eurostars-verkefnisstyrkur
Fjárhæð styrks: 23,96 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: RAN090709-1660

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Vaki og Silsoe efndu til samstarfs við fiskeldisfyrirtækið Marine Harvest í Skotlandi og University of Prince Edvard Island um rannsóknir og þróun á búnaði til greiningar á laxalús. Verkefnið hlaut samþykki evrópska Eureka-verkefnarammans EuroStars fyrir milligöngu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, en því fylgir 25% fjármögnun frá Evrópusambandinu sem er beint í gegnum Tækniþróunarsjóð / Rannís. Umfang verkefnsins var 400.000 evrur (68 m.kr.) í heildina, auk vinnuframlags samstarfsaðila (MHS og UPEI).

Við úrvinnslu verkefnisins síðastliðin þrjú ár voru unnar þrjár kynslóðir frumgerðar sem voru prófaðar við rannsóknarstöð í Skotlandi sem sérhæfir sig í rannsóknum á laxalús. Niðurstöður verkefnisins hafa leitt í ljós að aðferðin sem hefur verið þróuð er fýsileg til að gera laxalús sýnilega, greina hana og telja. Búnaðurinn sem var hannaður og smíðaður af Vaka reynist vel til verkefnisins og mun frekari útfærsla við þróun hans leiða til nýrrar markaðsvöru hjá Vaka á næstu árum. Tækið virkar þannig að fiskinum er rennt í gegnum rennu eða stokk þar sem hann er lýstur upp með ljósi af ákveðinni bylgjulengd sem veldur því að lúsin ljómar með sýnilegu bláu ljósi. Myndavél nemur þetta ljós og tekur upp myndir af fiskinum sem eru síðan greindar með sérþróuðum myndvinnslubúnaði. Greiningin dregur fram lýsnar og telur upp heildarfjölda.

Niðurstöður verkefnisins munu leiða til þess að Vaki mun geta boðið tæki til greiningar og talningar á laxalús á fiski við eldiskvíar. Þetta mun auðvelda vinnuna við lúsatalningu veruleg auk þess að gera mönnum kleift að taka mun stærri sýni en áður. Þetta mun leiða til meiri áreiðanleika, lækka kostnað og minnka umhverfisáhrif þar sem auðveldara verður að halda lús í skefjum.

Lúsateljarinn verður góð og eðlileg viðbót við vöruframboð Vaka, en Vaki sérhæfir sig í hátæknibúnaði fyrir fiskeldið. Vaki þróar, hannar og selur m.a. fiskiteljara fyrir lifandi fisk af öllum stærðum og gerðum, lífmassamæla, flokkara, dælur, fóðurkerfi og hugbúnað til framleiðslustýringar í fiskeldi. Hjá fyrirtækinu starfa 23 á Íslandi, 10 í Chile og 3 í Noregi. Veltan í samstæðunni árið 2012 var yfir 1 miljarði króna.

Afrakstur verkefnisins liggur fyrir sem tæki sem getur myndað og greint laxalýs á fiski og mun útfært í notandavænu formi til notkunar í fiskeldisstöðvum









Þetta vefsvæði byggir á Eplica