Heima heilasíriti - verkefnislok

2.9.2013

Kvikna ehf hefur í samstarfi við Tækniþróunarsjóð unnið að þróun á hugbúnaði fyrir klínískt heilalínurit. Búnaðurinn frá Kvikna opnar ýmsa nýja möguleika fyrir notendur svo sem notkun tölvuskýs til þess að geyma gögn og til þess að auðvelda fjarvinnslu auk möguleika til þess að taka upp heilarit heima hjá sjúklingum.

Heiti verkefnis: Heima heilasíriti
Verkefnisstjóri: Guðmundur Hauksson, (í upphafi Garðar Þorvarðsson) Kvikna ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2011
Fjárhæð styrks: 17,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 1006101021

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Klínískt heilalínurit er einkum notað við greiningu á flogaveiki. Þá er línurit ásamt stafrænni kvikmynd tekið af sjúklingi í nokkra sólarhringa samfleytt. Við þetta verður til gríðarlegt magn upplýsinga sem þarf að vinna úr og geyma. Kvikna setur á markað í þessum mánuði tölvuskýs lausn sem gerir notendum kleift að senda gögnin beint við upptöku upp á skýið. Þar eru gögnin aðgengileg af internetinu fyrir þá sem hafa aðgangsheimild. Þannig geta nokkrir aðilar komið að greiningarvinnunni óháð staðsetningu. Þetta skiptir verulegu máli, ekki síst þar sem skortur er á sérþekkingu.

Annar kostur við notkun skýsins er að notendur þurfa ekki að koma sér upp tölvubúnaði fyrir geymslu á gögnunum. Þessi lausn höfðar því mjög til einkafyrirtækja sem veita læknisfræðilega þjónustu á þessu sviði þar sem mun minni fjárfestingu þarf til þess að bjóða þjónustuna. Í öðrum hluta verkefnisins hefur verið þróaður búnaður til upptöku á heilalínuriti og stafrænni kvikmynd í heimahúsum þar sem gögnin eru send í rauntíma upp á tölvuskýið þar sem þau eru aðgengileg nær samstundis. Reiknað er með að þessi búnaður komi á markað á fyrsta ársfjórðungi 2014.

Listi yfir afrakstur verkefnisins:

  • Lab Management Software Application
  • Review Software Application
  • Home Recorder Software Application
  • FDA Approval fyrir Review Software Application 








Þetta vefsvæði byggir á Eplica