Stefnumót hönnuða og bænda - verkefnislok

2.9.2013

Verkefnið Stefnumót hönnuða og bænda stóð yfir í fjögur ár, frá 2007 – 2011. Á þessum tíma var námskeiðið (hluti af BA-námi í vöruhönnun) kennt þrisvar sinnum þar sem 30 nemendur og 11 býli víðs vegar af landinu tóku þátt. Árið 2008 fékk verkefnið styrk úr Tækniþróunarsjóði og Framleiðnisjóði landbúnaðarins til að hefja rannsóknarhluta Stefnumóts hönnuða og bænda. Rannsóknarhlutinn var þverfagleg samvinna þar sem Matís var formlegur samstarfsaðili. Þetta gerði það kleift að fjórar hugmyndir úr námskeiðinu urðu að fullþróuðum afurðum.

Heiti verkefnis: Stefnumót hönnuða og bænda
Verkefnisstjóri: Sigríður Sigurjónsdóttir, Spark Design Space og Listaháskóla Íslands
Tegund styrks: Brúarstyrkur
Styrkár: 2011
Fjárhæð styrks: 3,75 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 110646-0611

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Við litum á býlin sem lítil fyrirtæki út um land allt og sáum ótal tækifæri. Við sáum tækifæri til að skapa nýjar hefðir og vildum sjá matarafurðir byggðar á sérstöðu og góðri hönnun. Okkur leiddist óöryggið og eftirlíkingarnar sem voru ríkjandi á markaði. Hér var þörf á hönnuðum og við höfðum trú á því að við gætum sýnt fram á ný tækifæri í matvælaframleiðslu með aðkomu hönnunar. Það er vegna þessa sem Stefnumót hönnuða og bænda varð til. (S.S., G.M.M og B.P.)

Stefnumót hönnuða og bænda var hugsað sem gjöf til bændasamfélagsins í þeirri von að það gæti verið fordæmisgefandi og skapað margföldunaráhrif út í samfélagið. Markmiðið með heimasíðunni, sýningunni á HönnunarMars 2012, vídeóunum og bókinni er að miðla þessu umfangsmikla verkefni svo að aðrir geti nýtt sér þá reynslu og þekkingu sem varð til á tímabilinu.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica