Eldi og vinnsla á japönskum sæbjúgum - verkefnislok

17.2.2014

Markmið verkefnisins var að koma á fót nýrri atvinnugrein, eldi á japönskum sæbjúgum, sem er mikils metin matvara í Kína. Sæbjúgun sem rækta á,  Stichopus Japonicus eru lang dýrustu sæbjúgun sem seld eru í Kína, þurrkuð kosta þau 1.500,- $/kg í A-flokki. Til samanburðar hefur verð á íslenskum sæbjúgum verið 4-8 dollar fyrir óþurrkuð sem gefur þurrkað verð 100 -200 $/kg. Verðið er því tífalt á við þau íslensku.

Heiti verkefnis: Eldi og vinnsla á japönskum sæbjúgum
Verkefnisstjóri: Ragnar Jóhannsson, Matís ohf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 27 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100610084

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Eftirspurn eftir japönskum sæbjúgum í Kína hefur farið ört vaxtandi. Til að anna eftirspurn hafa kínverskir aðilar þróað eldisaðferðir á sæbjúgunum í svokölluðu tjarnareldi en í eldi sem þessu er of mikill hiti mikið vandamál í Kína þar sem eldismenn þurfa að kljást við of hátt hitastig af völdum sólarinnar á sumrin og of lágt hitastig af völdum sólarleysis á veturna. Þar er því einungis um 6 til 7 mánuði að ræða þar sem hægt er að tala um kjörhitastig. Kínversku eldisstöðvarnar þurfa jafnframt að glíma við mikla mengun í eldisvatninu. Nauðsynlegt reynist að blanda komplexbindurum  í eldisvatnið til að binda þungmálma svo lirfur sæbjúgnanna geti lifað í því. Í þessu sama eldisvatni eru síðan sæbjúgun alin í markaðsstærð.  Fjárfestingarkostnaður vegna eldisins í Kína hefur verið að hækka undanfarin áratug og er þar helst um að kenna að landrými er orðið mjög dýrt þar sem mikil samkeppni er um það. Ekki er talið að eldi í Kína geti vaxið svo neinu nemi vegna skorts á landrými og vegna mengunar.

Ísland bíður á margan hátt upp á tilvalið umhverfi til að framleiða sæbjúgu í eldiskerfum þar sem annars vegar eru fyrir hendi mikil þekking á framleiðslu á sjávarafurðum sem og öll  nauðsynleg aðföng til framleiðslunnar þ.e. hreinn sjór, ódýrt rafmagn og samkeppnishæft fóðurverð. Til að slík ræktun sé möguleg þarf að hanna lokað kerfi sem hægt er að ala dýrin í á landi en sem uppfyllir þau skilyrði að rekstarkosnaður sé ekki meiri en svo að afurðarverð verði samkeppnishæft á markaði.

Búnaðurinn og aðferðafræðin sem þróa á í þessu verkefni, er við köllum SustainCycle™ eldiskerfið  er í raun afrakstur 20 ára reynslu og tilraunastarfsemi við ræktun sæeyrna í landeldi. Unnið var að fullhönnun kerfisins og það aðlagað að eldi á Japönskum sæeyurum. Í sem skemmstu máli var SustainCycle eldiskerfið fullhannað fyrir öll þrjú stig eldisferilsins og sett upp kerfi sem annað getur framleiðslu á um 3 tonnum af  dýrum á ári i fyrsta þrepi. Unnin var einkaleyfisumsókn fyrir hluta kerfisins sem er sambyggt lífhreinsi og súrefnisbætingarkerfi. 

SustainCycle™ kerfið sem hannað hefur virkað með ágætum og er hægt að nota það við ræktun ýmissa annarra tegunda af botnlægum hryggleysingum. Er nú verið að vinna samhliða með að prófa kerfið fyrir aðra hryggleysingja.  Verið er að prófa kerfið fyrir japönsk sæeyru (Haliotis Discus Hannai) og til stendur að prófa ræktun á íslenskum ígulkerum. 

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.:

  1. Farming of invertibrates in Sustain Cycle system  Matís Report 5th February 2013
  2. STACKED MICROBEAD FILTER  Einkaleyfisumsókn
Þetta vefsvæði byggir á Eplica