Leiðbeiningar vegna umsókna

Umsóknarfrestir og umsóknarkerfi Rannís

Umsóknarfrestur er tvisvar á ári, í maí og nóvember og er sótt um í gegnum umsóknarkerfi Rannís (sjá leiðbeiningar). Sjá upplýsingar um næsta umsóknarfrest hér.


Almennt um umsóknina

  • Í umsóknareyðublaðinu skal gera greinargóða lýsingu á aðstandendum verksins, verkinu sjálfu og kostnaðaráætlun fyrir verkið (sjá leiðbeiningar hér fyrir neðan). Ef um einstakling er að ræða þá fylgi upplýsingar um starfsferil, faglegan og listrænan bakgrunn hans.
  • Í verkáætlun skal gera grein fyrir til dæmis æfingum, tónleikahaldi, tilhögun tónleikaferðar, og tónleikastöðum. Í tímaáætlun á að setja upp tímaás hvenær verkhlutar verða framkvæmdir.
  • Ef umsækjandi hefur áður verið veittur styrkur úr Tónlistarsjóði þarf lokaskýrsla fyrir veittan styrk að hafa borist Rannís. Undantekningar frá þessu er að ef umræddur styrkur var veittur í síðustu úthlutun sjóðsins eða að sérstaklega hafi verið samið um seinkun á skil á lokaskýrslu við Rannís.
  • Umsókn skal fyllt út og skilað í umsóknarkerfi Rannís (sjá leiðbeiningar).
  • Umsóknir og fylgigögn sem berast eftir að umsóknarfrestur er liðinn eru ógildar og ekki teknar til umfjöllunar í sjóðnum.
  • Sýniseintak af umsókn

Hvað er styrkt?

  • Tónlistarsjóður styrkir ýmis verkefni á sviði tónlistar og tónleikahalds, bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni. Til dæmis eru veittir styrkir til stakra einstaklingsverkefna, samstarfsverkefna og fastrar starfsemi viðurkenndra tónlistarhópa, tónlistarhátíða og tónleikahalds af ýmsum toga.
  • Mikilvægt er að vandað sé til umsókna og að þeim fylgi skýr og ítarleg lýsing verkefnis og ferilsskrár þátttakenda. Sé sótt um styrk til tónleikahalds þarf að fylgja umsókninni efnisskrá tónleika og staðfestir tónleikastaðir/dagsetningar tónleika. Sé sótt um styrk til tónlistarhátíðar eða tónleikaraðar þurfa sömuleiðis að liggja fyrir drög að heildardagskrá og efnisskrám einstakra tónleika, með nöfnum þátttakenda.
  • Tónlistarsjóður styrkir almenna tónlistarstarfsemi skv 1. gr. laga um tónlistarsjóð og kynningar og markaðsstarf tónlistar og  tónlistarmanna hér á landi og erlendis.
  • Styrktímabil. Styrkir úr tónlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna og að jafnaði ekki lengur en til eins árs í senn. Menntamálaráðherra getur ákveðið, skv. tillögu tónlistarráðs að veita styrki eða vilyrði fyrir áframhaldandi styrkveitingum til verkefna sem taka til lengri tíma en eins árs.

Hvað er ekki styrkt?

  • Tónlistarsjóður styrkir almennt ekki verkefni sem teljast til tónsköpunar. Fyrir viðameiri verkefni er hægt að sækja um styrki úr Tónskáldasjóði RÚV og STEFs auk þess sem tónskáld geta sótt um Starfslaun listamanna sem úthlutað er árlega. Tónskáldasjóður Bylgjunnar & Stöðvar 2 og Tónmenntasjóður kirkjunnar styðja einnig sköpun á nýrri íslenskri tónlist.
  • Tónlistarsjóður styrkir almennt ekki hljóðritanir á nýrri, frumsamdri tónlist. Umsækjendum er bent á Hljóðritasjóð sem úthlutað er úr tvisvar á ári, sem og Upptökusjóð STEFs. Tónlistarsjóður styrkir aftur á móti hljóðritanir á eldri tónlist sem fellur ekki undir svið Hljóðritasjóðs.
  • Tónlistarsjóður styrkir almennt ekki tónleikaferðir hljómsveita, hljóðfærahópa eða einleikara til útlanda. Umsækjendum er bent á Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar og Ferðasjóð STEFs.
  • Tónlistarsjóður styrkir almennt ekki útgáfu tónlistar á nótum. Umsækjendum er bent á Nótnasjóð STEFs.
  • Tónlistarsjóður styrkir almennt ekki heimasíðugerð eða tölvusetningu nótna. Hægt er að sækja um styrk til tölvusetningar nótna og útsetninga til Nótnasjóðs STEFs.
  • Tónlistarsjóður styrkir almennt ekki bókaútgáfu. Umsækjendum er bent á Miðstöð íslenskra bókmennta.
  • Tónlistarsjóður styrkir almennt ekki verkefni á vegum lista- og menningarstofnana sem þegar njóta fastra framlaga ríkis og borgar, t.d. Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar, o.s.frv.
  • Tónlistarsjóður veitir ekki styrki til tónlistarnáms.

Tónleikahald í Hörpu

Þeim sem hyggjast sækja um styrk til tónleikahalds í Hörpu er bent á að Ýlir og Styrktarsjóður Samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns veita styrki til tónleikahalds í Hörpu.

Leiðbeiningar við gerð kostnaðaráætlunar 

Mikilvægt er að hafa í huga að við gerð fjárhagsáætlunar í eyðublaði að átt er við heildarkostnað verksins. Tilgreina þarf fjármögnun á móti styrknum sem sótt er um til Tónlistarsjóðs. Ef sótt er um styrk eða framlög til annarra sjóða en Tónlistarsjóðs fyrir verkinu skal tilgreina það í umsókn, jafnvel þó niðurstaða úr þeim umsóknum liggi ekki fyrir.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica