Nám og þjálfun á háskólastigi: Stúdentar

Fyrir hverja?

Stúdenta á öllum stigum háskólanáms og fyrir nýútskrifaða allt að ári eftir útskrift. Grunn- og framhaldsskólar sem vilja fá til sín aðstoðarkennara og fyrirtæki og stofnanir sem hafa áhuga á að taka stúdenta í starfsþjálfun geta einnig tekið þátt.   

Til hvers?

Stúdentar geta farið í 3-12 mánuði í skiptinám eða 2-12 mánuði í starfsþjálfun sem hluta af námi, t.d. sem aðstoðarkennarar á meðan þeir eru í námi eða að því loknu. Skólar geta fengið til sín aðstoðarkennara og fyrirtæki og stofnanir geta tekið stúdenta í starfsþjálfun.

Stúdentar fá upplýsingar um umsóknarfresti hjá sínum heimaskóla og skila umsóknum þangað. Skólum, stofnunum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á að taka háskólastúdent í starfsþjálfun er bent á leiðbeiningar um móttöku þeirra á vinnustað. 

Hvers vegna?

Kannanir og úttektir hafa leitt í ljós að tímabundið nám í ókunnu landi getur stuðlað að persónulegri og félagslegri þróun og er sömuleiðis námslega gefandi. Niðurstöður sýna að kynni  af öðru landi en heimalandi gerir ungt fólk færara um að aðlagast ólíkum aðstæðum, eykur hæfni til að eiga samskipti við fólk af ólíkum menningarbakgrunni, stuðlar að bættri tungumálakunnáttu, aukinni faglegri breidd í námi  og veitir innsæi í og þekkingu á málefnum Evrópu. Atvinnulífið lítur sömuleiðis mjög jákvæðum augum að nýútskrifaðir einstaklingar hafi reynslu af námi og dvöl erlendis.

Erlendir aðstoðarkennarar veita leik- og grunnskólum tækifæri til að bjóða nemendum sínum upp á fjölbreyttar nálganir í kennslu og fá inn alþjóðalega tengingu í skólastarfið.

Fyrirtæki og stofnanir geta stuðlað að því að stúdentar séu hæfari til að sinna störfum að námi loknu með því að veita þeim tækifæri til þjálfunar á vinnustað.  Markmið starfsþjálfunar er að bæði stúdent og viðtakandi njóti góðs af náminu.

Hvert er markmiðið?

Markmiðið með stúdentaskiptum og starfsþjálfun á háskólastigi er þríþætt:

 • Að auka hæfni og færni þeirra einstaklinga sem taka þátt og styrkja möguleika þeirra á vinnumarkaði að námi loknu.

 • Að auka gæði háskólanáms og bjóða upp á fjölbreyttari námsmöguleika.

 • Að efla tengsl háskóla og atvinnulífs til að tryggja að útskrifaðir búi yfir þeirri færni, hæfni og þekkingu sem atvinnulífið þarfnast á hverjum tíma.

Hverjir geta sótt um? / Styrkupphæðir

Háskólar sem hafa hlotið vottun hjá Evrópusambandinu (Erasmus Higher Education Charter) geta sótt um styrk til að senda stúdenta sína í skipti- og starfsþjálfun.

Stúdentar sækja um um styrk beint til síns heimaskóla. 

Hvað er styrkt:

 • Skiptinám sem hluta af námi í 3-12 mánuði í senn.

 • Starfsþjálfun sem hluta af námi í 2-12 mánuði í senn.

 • Starfsþjálfun að lokinni útskrift í 2-12 mánuði en sækja þarf um styrkinn fyrir útskrift.  

Stúdent getur fengið styrk oftar en einu sinni á meðan á háskólanámi stendur.  Þannig getur stúdent fengið styrk í allt að 12 mánuði á hverju námsstigi (12 mánuði í grunnámi, 12 mánuði í meistaranámi og 12 mánuði í doktorsnámi). Starfsþjálfun að lokinni útskrift telst með því námsstigi sem  útskrifast var af.

Styrkupphæðir (frá og með 2018 úthlutun):

 • 670€, 720€ eða 770€ eftir áfangastað á mánuði fyrir + ferðastyrkur.*

*Ferðastyrkur er á bilinu 275€ til 1.100€ eftir áfangastað.

Hægt er að sækja um viðbótarstyrk vegna fötlunar eða heilsufars.

Sjá; styrkupphæðir eftir áfangastöðum í Evrópu (2018 úthlutun, frá hausti/vetri 2018)
Sjá;  styrkupphæðir eftir áfangastöðum í Evrópu  (2019 úthlutun, frá hausti 2019). 
Sjá;  styrkupphæðir eftir áfangastöðum utan Evrópu  (2019 úthlutun). 

Skilyrði úthlutunar

Skiptinám

 • Stúdent þarf að hafa lokið einu ári í háskólanámi (60 ECTS einingar í grunnnámi).

 • Samstarfssamningur þarf að vera í gildi á milli heima- og gestaskóla.

 • Heimaskóli og stúdenta verða að hafa undirritað námssamning áður en farið er erlendis(sjá eyðublað). Æskilegt er að gestaskóli undirriti námssamning áður en skiptinám hefst en annars eins fljótt og auðið er eftir að stúdent er kominn út.  

Starfsþjálfun

 • Heimaskóli, stúdent og móttökustofnun verða að hafa undirritað starfsþjálfunarsamning áður en starfsþjálfun hefst (sjá eyðublað).

Starfsþjálfun að lokinni útskrift

 • Sækja þarf um styrk fyrir útskrift og dvöl þarf að vera lokið 12 mánuðum eftir útskrift.

 • Heimaskóli þarf að votta að starfsþjálfunin efli þekkingu, hæfni og leikni stúdentsins í því fagi sem hann er að útskrifast úr.

 • Nota verður Europass færnipassa til að staðfesta dvölina.

Vottun

Með námssamningi skuldbindur heimaskóli sig til að meta að fullu þau námskeið sem stúdent tekur í skiptináminu. Mikilvægt er að samningurinn sé uppfærður ef stúdent gerir breytingar á  námskeiðum og staðfesta við heimaskóla.

Með starfsþjálfunarsamningi skuldbindur heimaskóli sig til að meta starfsþjálfunina sem hluta af námi stúdents við skólann. Æskilegt er að starfsþjálfun sé metin til eininga en ef það reynist ekki hægt skal tilgreina hana með texta í skírteinisviðauka (Diploma Supplement) sem stúdent fær við útskrift.

Með Europass færnipassa er starfsþjálfun að lokinni útskrift vottað með formlegum hætti af heimaskóla.

Þátttökulönd

Hægt er að fara í skipti- og starfsþjálfun til allra þátttökulanda í Erasmus+. Þessi lönd eru Evrópusambandslöndin 28, EFTA löndin Ísland, Liechtenstein og Noregur auk Serbíu, Tyrklands og Makedóníu.

Stúdentar, sérstaklega í doktorsnámi, geta sótt um styrki til landa utan Evrópu. Mjög takmarkaður fjöldi styrkja er í boði fyrir stúdenta í grunn- og meistaranámi. Háskólar geta einnig úthlutað styrkjum til skiptistúdenta sem eru að koma til Íslands frá löndum utan Evrópu, á öllum námsstigum. Sjá hér nánari upplýsingar.

Umsóknir og eyðublöð

Stúdent sækir um til síns heimaskóla (sjá umsóknir og eyðublöð).  
Þetta vefsvæði byggir á Eplica