Samstarfsverkefni á sviði fullorðinsfræðslu

Fyrir hverja?

Fullorðinsfræðsluaðilar, sem og aðrir lögaðilar, s.s. fyrirtæki, aðilar vinnumarkaðar, háskólar og rannsóknastofnanir geta sótt um styrki til að stuðla að nýbreytni og framþróun í fullorðinsfræðslu. 

Til hvers?

Stefnumiðuð samstarfsverkefni veita aðilum sem sinna fullorðinsfræðslu tækifæri til að þróa eða yfirfæra nýjar aðferðir eða leiðir í fullorðinsfræðslu  í samstarfi við aðila í tveimur öðrum þátttökulöndum Erasmus+.  Verkefni geta varað í tvö til þrjú ár og hámarksstyrkur er 150.000€ á ári. Samstarfsverkefni þurfa að taka mið af stefnumörkun ESB í fullorðinsfræðslu en geta m.a. snúið að því að auka gæði í fullorðinsfræðslu, þróun nýrra námskráa eða sameiginlegra námsleiða og þróun nýrra kennsluaðferða.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til 21. mars 2019, kl 11:00 að morgni. 

*Athugið að umsóknareyðublöðin eru vef-eyðublöð og það þarf EU Login aðgang til að nálgast þau. Umsóknareyðublaðið fyrir þennan verkefnaflokk er aðgengilegt undir "Opportunities" og síðan "Adult Education" og þar undir "Strategic Partnerships".  

Erasmus+ í fullorðinsfræðslu 

Erasmus+ áætlunin veitir aðilum í fullorðinsfræðslu, fyrirtækjum, opinberum aðilum og öðrum mögulegum samstarfsaðilum tækifæri til að vinna saman tveggja til þriggja ára stefnumiðuð verkefni með aðilum í tveimur eða fleiri Evrópulöndum í því skyni að auka aðgengi að og gæði í fullorðinsfræðslu, nútímavæða  stofnanir og efla Evrópusamstarf innan fullorðinsfræðslu. Verkefni geta snúið að yfirfærslu aðferða eða lausna til annarra landa eða þróun nýrra aðferða við fullorðinsfræðslu, nýjar námsleiðir eða þróun hæfni og færni þeirra sem starfa í fullorðinsfræðslu s.s. með þróun samstarfs í kennslu milli landa og sameiginlegra námskeiða nemenda og kennara. 

Hvert er markmiðið?

Samstarfsverkefnum er ætlað að styðja við nútímavæðingu evrópsks menntakerfis, innleiða stefnu um nám alla ævi og auka atvinnuþátttöku til að tryggja efnahagslegan vöxt í Evrópu ( sjá nánar Europe 2020 og Education & Training 2020).

Verkefnum sem styrkt verða er sérstaklega ætlað að styðja við áherslur og forgangsatriði Evrópusambandsins í fullorðinsfræðslu (S European Adult Education Agenda ). Þannig geta verkefni m.a. snúið að því að:

 • tryggja aðgengi allra hópa að fullorðinsfræðslu, s.s. með sveigjanlegum námsleiðum eða námi á vinnustað.
 • stuðla að samstarfi opinberra aðila, atvinnulífs og fullorðinsfræðslustofnana við að innleiða stefnu um nám alla ævi og auka menntunarstig þeirra sem eru með lægsta menntunarstigið (lifelong learning).
 • innleiða/þróa nýjar aðferðir eða leiðir í kennslu fullorðinna, sérstaklega með markvissri notkun tölvutækni, til að ná til fleiri og bæta árangur.
 • efla færni og hæfni þeirra sem sinna fullorðinsfræðslukennslu, s.s. með bættri grunnmenntun.
 • auka aðgengi að og þróun náms- og starfsráðgjafar í samræmi við stefnu um nám alla ævi.
 • innleiða/þróa nýjar námsleiðir eða námskrár í fullorðinsfræðslu, með sérstakri áherslu á grunnfærni (lestur, talnalæsi og tölvulæsi).
 • innleiða/þróa aðferðir við raunfærnimat (validation of non-formal/informal learning) og hæfniviðmið.

Nánar upplýsingar um viðmið um mat á umsóknum (award criteria) má finna á bls. 114 - 116 í Erasmus+ handbókinni (Programme Guide).

Forgangsatriði 2019

Bæta og auka framboð hágæða námstækifæra sem eru sniðin að þörfum fullorðinna með litla formlega menntun til að efla læsi almennt, talnalæsi, tölvulæsi og grunnfærni. Einnig að nýta raunfærnimat til að meta hæfni sem viðkomandi hefur aflað sér, m.a. með óformlegri eða formlausri menntun, til að fólk færist á hærra menntunarstig.

Auðvelda fólki að sækja sér aukna hæfni með því að bjóða námsmat og námsráðgjöf, námsleiðir sérsniðnar að þörfum sérhvers einstaklings og með því að meta færni sem fengist hefur með óformlegri og formlausri menntun

Auka eftirspurn eftir fullorðinsfræðslu með náms- og starfsráðgjöf og með sérstakri hvatningu til þeirra sem hafa litla formlega hæfni, til þess að bæta stöðu þeirra hvað varðar læsi, talnalæsi og tölvulæsi auk annarrar færni svo þeir geti færst á hærra menntunarstig.

Efla og þróa nýjar aðferðir eða leiðir til að efla færni kennara og annars starfsfólks í fullorðinsfræðslu, sérstaklega varðandi kennslu í læsi, talnalæsi og tölvulæsi þeirra sem hafa litla formlega hæfni, með markvissri notkun tölvutækni til að bæta námsupplifun.

Þróa leiðir til að meta áhrif stefnumörkunar í fullorðinsfræðslu svo unnt sé að fylgjast með framförum nemenda. 

Hverjir geta sótt um?

Einungis lögaðilar geta sótt um styrki til að vinna stefnumiðuð samstarfsverkefni.

Aðilar/stofnanir sem sinna fullorðinsfræðslu geta m.a. verið:

 • Fullorðinsfræðslustofnanir sem sinna ólíkum markhópum, s.s. fötluðum einstaklingum.
 • Háskólar sem sinna endur- og símenntun.
 • Lítil og meðalstór fyrirtæki.
 • Aðilar vinnumarkaðar, s.s. samtök aðila iðnaðar, atvinnulífs og launþega.
 • Opinberir aðilar, s.s. á sveitarstjórnarstigi.
 • Rannsóknarstofnanir.
 • Stofnanir sem eru ekki reknar í ábataskyni, s.s. félagasamtök.
 • Bókasöfn og menningarstofnanir.
 • Stofnanir sem sinna náms- og starfsráðgjöf.

Hvað er styrkt?

Hægt er að sækja um styrki til að vinna verkefni með samstarfsaðilum í að minnsta kosti tveimur öðrum þátttökulöndum Erasmus+ (a.m.k. eitt af samstarfslöndunum þarf að vera Evrópusambandsland).  Fleiri en einn samstarfsaðili frá hverju landi getur tekið þátt í samstarfinu.

Sá aðili sem leiðir verkefnið sækir um fyrir hönd allra samstarfsaðila. Sótt er um til landskrifstofu í landi umsækjanda. Verkefnin eru að fullu dreifstýrð þannig að landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi ber ábyrgð á mati, úthlutun og umsjón samninga fyrir öll verkefni sem styrkt eru á Íslandi.

Nánari upplýsingar um skilyrði umsóknar má finna í Erasmus+ handbókinni  (Programme Guide).

Verkefni geta varað í tvö til þrjú ár og er hámarksstyrkur 150.000€  á ári á hvert verkefni. Fjárstyrkur er á formi fastra upphæða (unit cost) en ekki raunkostnaðar.  Þannig er hægt að sækja um fastar mánaðarlegar upphæðir til að sinna utanumhaldi verkefnis og greiða starfsmannakostnað (þar sem við á), ferðastyrk til að sækja verkefnisfundi og senda nemendur/kennara á vinnustofur eða í nám erlendis.  Sömuleiðis er hægt að sækja um styrk vegna annars tilfallandi kostnaðar.

Sjá nánar um fjármál samstarfsverkefna í Erasmus+ handbókinni (Programme Guide).

Hvernig er hægt að finna samstarfsaðila?

Umsækjendur verða sjálfir að finna sér samstarfsaðila. Hægt er að leita að samstarfsaðilum á EPALE, vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu . Landskrifstofur Erasmus+ í þátttökulöndunum birta í mörgum tilfellum beiðnir frá aðilum um þátttöku í verkefnum ( sjá lista yfir netföng landskrifstofa Erasmus+).

Skilyrði úthlutunar

Áður en sótt  er um styrk í Erasmus+ þarf að skrá stofnunina/lögaðilann inn á vegátt Framkvæmdastjórnar ESB sem kallast European Commission Authentication Service  eða ECAS. ECAS aðgangur er síðan notaður til að skrá skólann/lögaðilann inn í Unique Registration Facility eða URF til að sækja svokallaðan PIC-kóða, sem er sérlegur einkenniskóði fyrir hverja stofnun/lögaðila. 

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út handbók um hvernig staðið er að þessari skráningu og nánari leiðbeiningar er að finna hér.

Til að leiða verkefni þurfa aðilar að hafa fjárhagslega burði til að leiða stór verkefni. Þetta er yfirleitt ekki vandamál varðandi opinbera aðila en einkaaðilar og frjáls félagasamtök þurfa að ganga í gegnum fjárhagslegt mat áður en skrifað er undir samninga. Í einhverjum tilvikum þurfa viðkomandi aðilar að leggja fram bankatryggingu.

Þátttökulönd

Lögaðilar í þátttökulöndunum 33 í Erasmus+ áætluninni geta tekið þátt. Þetta eru Evrópusambandslöndin 28, EFTA löndin Ísland, Liechtenstein og Noregur auk Tyrklands, Makedóníu og Serbíu.

Í fyrsta sinn frá upphafi menntaáætlunar ESB geta þátttökulönd sem eru ekki aðilar að Evrópusambandinu sótt um tvíhliða verkefni, s.s. Ísland og Noregur eða Ísland og Tyrkland.

Einnig er hægt að vinna með aðilum í löndum utan Evrópu en þeir aðilar þurfa þá að vera með skýrt skilgreint hlutverk og hafa ákveðna sérþekkingu sem samstarfsaðilar í þátttökulöndunum hafa ekki.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica