Umsýsla og skýrsluskil

Framvinda og lokaskýrsla

Frestur til að skila lokaskýrslu til sjóðsins er til og með 25. september 2020. Ef skýrslu er skilað eftir þessa dagsetningu kemur verkefnið ekki til álita við veitingu Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands.

Sjóðurinn fylgist með framvindu verkefna yfir sumarið og umsjónarmaður ber ábyrgð á því að verkefni sé unnið samviskusamlega og lokaskýrslu skilað í lok sumars. Skili umsjónarmaður ekki skýrslu kemur hann ekki til greina við úthlutanir síðar. 

Styrkur er veittur að hámarki í 3 mánuði til nemanda og er einungis greitt fyrir vinnu í júní, júlí og ágúst. Styrkir eru greiddir út í byrjun júlí, ágúst og september. Einungis er greiddur út helmingur af síðasta mánuði styrksins þar til lokaskýrsla hefur verið móttekin. Styrkurinn er skattskyldur en ekki þarf að skila skattkorti til sjóðsins, styrkurinn kemur fram á skattframtali styrkþega ári eftir styrkveitingu.

Styrkþegar skulu skila inn tæknilegri lokaskýrslu og ritgerð/rannsóknarskýrslu þegar verkefninu lýkur og þá er greiddur út seinni helmingur síðasta styrkmánaðarins. Umsjónarmenn þurfa að skrifa undir samninga og lokaskýrslur. Þær skýrslur sem skilað er inn fyrir lokafrest koma til greina við tilnefningu Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands.

Leiðbeiningar um uppsetningu:

Skila skal tæknilegri lokaskýrslu (eyðublað til hægri), ásamt ritgerð/rannsóknarskýrslu á netfangið nsn@rannis.is
Það er mat þeirra er standa að verkefninu hvort valið er að skila ritgerð eða rannsóknarskýrslu og skal það fara eftir því verkefni sem unnið var.

Almennar leiðbeiningar (á við um bæði ritgerð og rannsóknarskýrslu)

 • Skilgreina efni og hugtök – hvaða spurningum á að svara – af hverju varð þetta efni fyrir valinu? Hvert er nýsköpunargildi þess?
 • Rökstyðja mál sitt, skýra réttmæti raka sinna og staðfesta sannleiksgildi þeirra.
 • Velta fyrir sér mótrökum.
 • Vísa í heimildir þar sem við á.

A) Ritgerð:

 1. Útdráttur : Um 100 orð þar sem efni ritgerðarinnar er tíundað.
 2. Inngangur: Efnið kynnt, hvers vegna þetta efnisval, hvað komi fram í meginmáli.
 3. Meginmál: Hugmyndir og kenningar útlistaðar og ræddar. Setja efni í fræðilegt/faglegt samhengi.
 4. Niðurstöður: Aðalatriðin dregin saman og niðurstaða útskýrð.
 5. Heimildaskrá.

B) Rannsóknarskýrsla:

 1. Útdráttur: Um 150 orð þar sem helstu upplýsingar um rannsóknina koma fram.
 2. Inngangur: Segja frá öðrum rannsóknum sem tengjast efninu og hvernig þessi muni varpa nýju ljósi á hlutina, tilgátur settar fram og útskýrðar.
 3. Aðferðafræði: Skýra nákvæmlega frá því hvernig rannsóknin var gerð, skipt í undirkafla eftir því sem við á: Þátttakendur, efni og áhöld/áreiti, tæki, rannsóknarsnið, framkvæmd.
 4. Niðurstöður: Gerð grein fyrir niðurstöðum með myndum, gröfum, skýringarmyndum og/eða tölfræðinni sem notuð var og þá út frá tilgátunum.
 5. Umræða: Stóðust tilgáturnar? Kom eitthvað áhugavert í ljós sem ekki tengdist tilgátunum? Hvaða ályktanir er hægt að draga af niðurstöðunum? Passar þetta við niðurstöður úr fyrri rannsóknum? Fór eitthvað úrskeiðis? Hvernig væri hægt að sanna eða afsanna þínar niðurstöður með öðrum aðferðum? Kynnið kosti/galla aðferðar sem notuð var.
 6. Heimildaskrá.Þetta vefsvæði byggir á Eplica