Erasmus fyrir nýja frumkvöðla

Erasmus for Young Entrepreneurs

Fyrir hverja?

Nýja frumkvöðla (new entrepreneur) sem eru með viðskipahugmynd eða hafa verið að reka eigin fyrirtæki í minna en 3 ár. Nýir frumkvöðlar mega vera á öllum aldri.

Reynda frumkvöðla (host entrepreneur) sem hafa verið í eigin rekstri lengur en 3 ár og vilja taka á móti nýjum frumkvöðli í starfsdvöl. 

Til hvers?

Að gefa nýjum frumkvöðlum tækifæri til að dvelja hjá og læra af reyndum frumkvöðlum frá öðru Evrópulandi í svipuðum geira í 1-6 mánuði. Um er að ræða samstarf milli tveggja einstaklinga sem vinna saman á jafningjagrundvelli. Fyrir báða aðila er þetta tækifæri til að stækka tengslanetið og fá innsýn á nýja markaði fyrir vörur sínar. Nýir frumkvöðlar geta tekið þátt í vöruþróun, markaðssetningu eða öðrum verkefnum sem snúa að rekstri fyrirtækisins sem þeir dvelja hjá. 

Umsóknarfrestur

Það er alltaf opið fyrir umsóknir og sótt er um á vef verkefnisins.  Athugið að nýir frumkvöðlar þurfa að skila inn ferlisskrá (CV) og viðskiptaáætlun með umsókn sinni. 

Hvert er markmiðið?

Að efla samvinnu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Evrópu. Að auka þekkingu og innsýn nýrra frumkvöðla og gefa reyndum frumkvöðlum tækifæri til að auka þekkingu sína á mörkuðum Evrópu ásamt því að fá ferska sýn á rekstur sinn. 

Hverjir geta sótt um?

Nýir frumkvöðlar sem hafa í hyggju að stofna fyrirtæki og eru með tilbúna viðskipaáætlun og frumkvöðlar sem rekið hafa eigin fyrirtæki í minna þrjú ár þegar dvöl hefst. Frumkvöðlum sem hafa áhuga á að stofna félagasamtök eða samfélagsleg fyrirtæki (social enterprise) stendur einnig til boða að taka þátt. Einstaklingar sem vilja fara til Evrópu sem nýjir frumkvöðlar á vegum Rannís þurfa að hafa verið búsettir á Íslandi í minnst á hálft ár á síðustu 12 mánuðum.

Reyndir frumkvöðlar sem hafa meira en 3 ára reynslu af rekstri og/eða stjórnun lítilla eða meðalstórra fyrirtækja (félagasamtaka). Viðkomandi aðilar þurfa að vera eigendur/stofnendur eða framkvæmdastjórar umræddra fyrirtækja.

Hvernig sækir þú um?

Á vef verkefnisins þarf að smella á hnappinn „Apply now“ og skrá sig inn með EU login aðgangi. Þar eru nokkrar spurningar sem þarf að svara. Bæði nýir frumkvöðlar (new entrepreneur) og reyndir frumkvöðlar (host entrepreneur) þurfa að láta ferlisskrá fylgja með umsókn sinni. Nýir frumkvöðlar þurfa einnig að láta fylgja með greinagóða viðskipaáætlun. Athugið að viðskiptaáætlunin er meðhöndluð sem trúnaðarmál og er aðeins aðgengileg fyrir starfsmenn Rannís sem bera ábyrgð á framkvæmd verkefnisins á Íslandi. 

Hvernig finnur þú samstarfsaðila?

Hægt er að finna samstarfsaðila á vef verkefnisins. 

Þegar frumkvöðull hefur skráð sig inn í kerfið hefur hann aðgang að leitavél þar sem þeir geta séð alla einstaklinga sem hafa skráð sig inn inn í kerfið. Þannig sér nýr frumkvöðull alla þá sem vilja taka á móti frumkvöðlum í öðrum Evrópulöndum og reyndari frumkvöðull sem skráir sig í kerfið getur séð alla nýja frumkvöðla sem hafa áhuga á að vinna með frumkvöðli í öðru landi. 

Þannig geta frumkvöðlar sjálfir átt frumkvæði að því að finna hvern annan og mynda tengsl sem síðan geta leitt af sér að frumkvöðlarnir komi sér saman um markmið dvalarinnar og aðferðir til að ná fram þeim markmiðum. 

Hvað er styrkt?

Nýir frumkvöðlar fá mánaðarlegan styrk sem greiddur er við upphaf hvers mánaðar nema síðasta mánaðar en styrkur fyrir þann mánuð er greiddur þegar lokaskýrslu hefur verið skilað inn í umsýslukerfinu. 

Mánaðarlegur styrkur eru frá € 530 - € 1.100 eftir því í hvaða landi er dvalið.  

Upplýsingar um mánaðarlegar styrkupphæðir eftir löndum

Verkefni geta varað í 1-6 mánuði. Athugið að hægt er að skipa dvöl niður í fleiri en eitt tímabil innan eins árs. T.d. gæti 6 mánaða heildardvöl falið í sér að dvelja í 6x1 mánuð alltaf með 1 mánuð á milli. Þetta er gert samkvæmt samkomulagi við Host frumkvöðul. Athugið þó að þetta myndi hafa í för með sér hærri ferðakostnað og ekki er greiddur sérstakur ferðastyrkur. 

Stuðningur við sérþarfir

Fatlaðir frumkvöðlar eiga rétt á að fá hæsta mánaðarlega styrk (€1.100) óháð því landi sem þeir dvelja í. 

Hlutverk Rannís

Rannís gegnir hlutverki milligönguaðila (Intermediary organisation) sem styður við þá sem vilja taka þátt í verkefninu. Sá stuðningur felst í aðstoð við þá sem vilja gerast nýir frumkvöðlar með skráningu í kerfið, að fara yfir umsóknir þeirra og gera við þá samning um mánaðarlega greiðslur þegar þeir hafa fundið frumkvöðul til að dvelja hjá. Rannís aðstoðar einnig reyndari frumkvöðla sem hyggjast taka á móti frumkvöðli frá Evrópu. Auk þess er eitt af hlutverkum Rannís að tengja saman nýja og reyndari frumkvöðla sem sótt hafa um og skráð sig inn í kerfið.

Dæmi um verkefni

Kynningarmyndband
Þetta vefsvæði byggir á Eplica