Mats- og úthlutunarferlið

Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð Rannsóknasjóðs, sem hvert er skipað allt að sjö einstaklingum (tveimur utan Íslands) með víðtæka reynslu af rannsóknum. Fagsviðin eru eftirfarandi: 

  • Félagsvísindi og menntavísindi
  • Hugvísindi og listir
  • Klínískar rannsóknir og lýðheilsa
  • Lífvísindi
  • Náttúruvísindi og umhverfisvísindi
  • Raunvísindi og stærðfræði
  • Verkfræði og tæknivísindi 

Fagráð leita eftir umsögn a.m.k. tveggja sérfræðinga áður en umsóknir eru teknar til umfjöllunar. Allt ytra mat fer fram erlendis. Fagráð kynna sér allar umsóknir og afgreiða hverja umsókn með rökstuddri, skriflegri greinargerð (umsögn) og forgangsraða umsóknum á grunni hins faglega mats. Þegar úthlutun liggur fyrir fá umsækjendur í hendur mat og flokkun umsóknar. 

Áður en fagráð ganga frá umsögnum til stjórnar Rannsóknasjóðs ræða formenn þeirra á sameiginlegum fundi sérstök álitamál sem kunna að hafa komið upp.

Til viðbótar hinu faglega mati, sem fagráð skila, skal stjórn Rannsóknasjóðs miða umfjöllun sína við úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs sem er samþykkt af vísindanefnd og almennar áherslur Vísinda- og tækniráðs.

Úthlutun er auglýst þegar fjárlagafrumvarp komandi styrkárs hefur verið samþykkt.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica