Matsferli nýrra umsókna

Skipun fagráðs, meðhöndlun umsókna og úthlutunarferli

Skipun fagráða

Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð Rannsóknasjóðs. Hvert fagráð er skipað allt að sjö einstaklingum með dósentshæfi og víðtæka reynslu af rannsóknum. Að minnsta kosti tveir fagráðsmenn í hverju fagráði skulu vera starfandi utan Íslands. Við skipun fagráða er gætt að faglegri breidd og að því að kynjahlutfall sé sem jafnast.

Vísindanefnd skipar formann fagráðs úr röðum fagráðsmanna. Formaður ber ábyrgð á, með hjálp umsjónarmanns fagráðs, að samræma vinnu fagráðsins og að fagráðið vinni samkvæmt stefnu og hlutverki Rannsóknasjóðs og almennum siðareglum. Eftir að fagráðin hafa verið skipuð eru nöfn fagráðsmanna birt á heimasíðu Rannís.

Meðhöndlun umsókna


Eftir að umsókn hefur verið send inn í gegnum rafrænt umsóknarkerfi Rannís er hún meðhöndluð á eftirfarandi hátt (mynd 2): 

Forskoðun

Umsóknirnar eru forskoðaðar af umsjónarmönnum fagráða. Ófullgerðum umsóknum og umsóknum þar sem ekki hefur verið farið eftir reglum sjóðsins er vísað frá án frekara mats og er umsækjanda tilkynnt um slíkt.

Mynd2.1.jpg

Mynd 2. Meðhöndlun umsókna frá því umsókn berst Rannís og þar til tilkynnt er um úthlutun úr Rannsóknasjóði.

Faglegt mat á umsóknum

Allar umsóknir eru metnar af viðeigandi fagráði sem leitar álits hjá tveimur eða fleiri ytri matsmönnum fyrir umsóknir um verkefna- öndvegis- og rannsóknastöðustyrki. Doktorsnemaumsóknir eru metnar innan fagráðs. Fagráðið afgreiðir hverja umsókn með rökstuddri, skriflegri greinargerð og forgangsraðar umsóknum á grunni hins faglega mats (sjá Leiðbeiningar til fagráðsmanna ).

Ákvörðun um styrkveitingu

Eftir að fagráðið hefur lokið störfum sínum fundar formaður fagráðsins með stjórn Rannsóknasjóðs þar sem hann gerir grein fyrir fagráðsvinnunni og hvort álitamál hafi komið upp við mat umsókna. Formaður gerir sérstaklega grein fyrir umsóknum sem flokkaðar voru í A flokk. Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr Rannsóknasjóði að fengnum umsögnum fagráða. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðanna geta veitt ef þurfa þykir. Til viðbótar hinu faglega mati, sem fagráð skila, skal stjórn Rannsóknasjóðs miða umfjöllun sína við almennar áherslur Vísinda- og tækniráðs, úthlutunarstefnu sjóðsins sem samþykkt er af vísindanefnd og fjárframlögum í sjóðinn. Þegar úthlutun liggur fyrir fá umsækjendur svarbréf í hendur með lokamati fagráðs.

Ákvörðun stjórnar um veitingu styrkja úr Rannsóknasjóði eru endanlegar. Samkvæmt 4. grein laga nr. 3 frá 2003 sæta ákvarðanir stjórnar Rannsóknasjóðs um styrkveitingu eða höfnun ekki stjórnsýslukæru.

Upplýsingar um styrkveitingar

Styrkveitingar eru birtar á heimasíðu Rannís og þar er einnig hægt að leita í gagnagrunni sjóðsins að fyrri úthlutunum

Þetta vefsvæði byggir á Eplica