Siðareglur

Aðdragandi setningar siðareglna

""Haustið 2010 fól Vísinda- og tækniráð Rannís að hefja undirbúning að setningu siðareglna fyrir íslenskt vísindasamfélag.

Tilefnið má m.a. rekja til siðferðiskaflans í rannsóknaskýrslu Alþingis sem kom út í apríl 2010. Slíkar siðareglur eru fyrst og fremst hugsaðar sem leiðbeiningar eða viðmið, sem ætlað er að hvetja vísindasamfélagið til góðra  verka og þ.a.l. draga úr hættu á misferli og svikum í vísindum. Þeim er ætlað að styrkja gott vísindastarf á Íslandi og veita vísindamönnum, stofnunum og fyrirtækjum sem stunda rannsóknir, skýrar leiðbeiningar þegar upp koma siðferðileg álitamál sem varða vísindaleg vinnubrögð. Komi upp grunur um misferli eða svik í vísindum verður einnig hægt að leita í þessar leiðbeiningar til úrlausnar í þeim málum.

Rannís fékk til liðs við sig þrjá ráðgjafa, heimspekingana Salvöru Nordal, Sigurð Kristinsson og Vilhjálm Árnason, sem í sameiningu unnu drög að siðareglum. Siðareglunar voru að mestu leyti unnar að finnskri fyrirmynd en Finnar stofnuðu sérstaka nefnd (National Advisory Board on Research Ethics, TENK) sem hefur það markmið að efla umræðu um siðferðileg  álitamál og leggja línurnar í slíkum málum. Nefndin setti fram, í samvinnu við finnska vísindasamfélagið viðmið um vandaða starfshætti og hvernig sé best að koma í veg fyrir svik og misferli. Formaður nefndarinnar, Krista Varantola, kom hingað til lands og fundaði með hópnum auk þess að sitja fund Vísindanefndar 9. desember 2010. Hélt hún stutt erindi um reynslu Finna og svaraði spurningum fundarmanna.

Málþing

Rannís boðaði til málþings um siðareglur í íslensku vísindasamfélagi 18. mars 2011 og kynnti þar ofangreind drög sem unnin voru í samvinnu við ráðgjafana. Var málþingið hugsað sem upphafið að því að bjóða vísindamönnum og öðrum áhugasömum til umræðna um málið. Þar fluttu framsögur Kári Stefánsson (forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar), Rannveig Traustadóttir (prófessor í félagfræði) og Sigurður Kristinsson (dósent í heimspeki). Velt var upp stöðu þessara mála á Íslandi og hvernig það væri að starfa sem vísindamaður. Með því að smella á tengilinn hér að ofan eða til vinstri hliðar, á dagskrá þingsins, er hægt að nálgast erindi tveggja frummælenda.

Ráðgjafahópur

Í kjölfar málþingsins var ráðgjafahópur Rannís stækkaður og hann skipa:

  • Björn Rúnar Lúðvíksson prófessor og læknir
  • Rannveig Traustadóttir prófessor í félagfræði
  • Sigríður Ólafsdóttir lífefnafræðingur og ráðgjafi
  • Sigurður Kristinsson dósent í heimspeki)
  • Sveinn Margeirsson forstjóri Matís
  • Unnur Þorsteinsdóttir rannsóknarstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og
  • Vilhjálmur Árnason prófessor í heimspeki

Ofangreindur hópur ráðgjafa vann að frekari útfærslu við drögin og sendi þau sl. haust til hagsmunaaðila; einstaklinga, samtaka, fyrirtækja og stofnana. Þar voru þau hvött til að senda athugasemdir og ábendingar fyrir 15. október 2011. Rannís sendi 1500 einstaklingum, stofnunum samtökum og félögum tölvupóst, auk þess að senda sérstakt bréf til Vísindasiðanefndar og Persónuverndar og biðja um formlega umsögn að drögunum.

Ráðgjafahópurinn fór yfir athugasemdirnar í samráði við Rannís, vann úr þeim og aðlagaði eftir því sem við átti. Sækja sem pdf-skjal

Tillaga ráðgjafahópsins um skipun og starfssvið siðanefndar

Ráðgjafarhópurinn lagði til að sett yrði á laggirnar sjálfstætt starfandi siðanefnd um vandaða starfshætti í vísindum sem heyri undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og hafi samráð og/eða samstarf við önnur ráðuneyti eins og við á. Mikilvægt er að nefndin hafi lagastoð, þ.e.a.s. að samin verði sérstök lög um nefndina þar sem hlutverki hennar og valdsviði sé lýst. Sjálf mun siðanefndin setja sér starfsreglur.

Nefndina skulu skipa sjö manns og verður skipan þeirra á hendi mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem óskar eftir tilnefningum frá vísindasamfélaginu. Mikilvægt er að fá sérfræðinga frá sem flestum sviðum vísinda og fræða; félagsvísinda, heilbrigðisvísinda, hugvísinda, menntavísinda, náttúruvísinda, raunvísinda, verk- og tæknivísinda. Hlutverk nefndarinnar er ráðgefandi. Jafnframt hefur nefndin vald til að úrskurða um alvarleika brota, hvort þau eru ámælisverð, alvarleg eða mjög alvarleg. Hægt er að vísa málum til nefndarinnar og getur hún rannsakað mál að eigin frumkvæði. Stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar geta leitað til nefndarinnar og ráðfært sig við hana í einstökum málum.

Nefndin skal upplýsa stjórnvöld, almenning og vísindasamfélagið um vönduð vinnubrögð í vísindum og vísindasiðfræði. Nefndin heldur ráðstefnur, fundi, málstofur og kynningar og getur jafnframt stofnað vinnuhópa til að fjalla um ákveðin mál eða málefni.  Nefndin er skipuð til þriggja ára í senn en nefndarmenn hætta aldrei allir á sama tíma. Hún  skal skila skýrslu árlega til menntamálaráðherra þar sem hún fer yfir störf sín, verkefni og  niðurstöður.

Starfsemi nokkurra stofnana, fyrirtækja og samtaka kemur til með að skarast á við starfsemi siðanefndarinnar og því mikilvægt að þau eigi gott samstarf sín á milli. Þar á meðal eru Vísindasiðanefnd, siðanefndir háskóla og sjúkrahúsa auk einstaka fagfélaga, fræðimanna og Persónuverndar.

Siðanefnd hefur ekki verið sett á laggirnar, þar sem talið er mikilvægt að hún styðjist við lög.

Siðarammi Evrópusambandsins fyrir vísindamenn

Ályktanir Vísinda- og tækniráðs um siðamál

Hér má sjá ályktun Vísinda og tækniráðs frá 23. mars 2012.

Hér má sjá ályktun Vísinda- og tækniráðs frá desember 2010.

Hér má sjá ályktun Vísinda- og tækniráðs frá 25. júní 2010.

Hér má sjá drög að siðareglum frá desember 2010.

Norrænar siðanefndir, -reglur og viðmið

Sænskar siðareglur og viðmið CODEX

Finnskar siðareglur og viðmið

Danskar siðareglur og viðmið

Norska rannsóknarráðið

Skýrsla Nordforsk frá 2014 um stöðuna á Norðurlöndum

Skýrsla sem Norden, Nordforsk gaf út um Nordforsk Expert Seminar í Osló, 9. apríl 2014
Þetta vefsvæði byggir á Eplica