Mats- og greiningarstarf

Rannís annast mats- og greiningarstarf, svo sem gagnaöflun, úrvinnslu, greiningu og miðlun upplýsinga um vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun.

Rannís gerir athuganir á íslenska þekkingarsamfélaginu, innviðum þess og þróun, auk þess að meta áhrif vísinda og nýsköpunar á samfélagið. Gerðar eru bæði sviðs- og svæðisbundnar athuganir sem ná til vísinda, vísindamenntunar, tækniþróunar, nýsköpunar og tengdra sviða. 

Rannís tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi um umfang, stöðu og þróun vísinda, tækni og nýsköpunar auk tengdra málefna. Sem dæmi um alþjóðlegan samstarfsvettvang má nefnda OECD, Eurostat, ESB og ýmsar norrænar stofnanir.

Rannsóknir og þróunarstarfsemi (Research and Development, R&D) felur í sér skapandi starf sem fer fram með kerfisbundnum hætti með það að markmiði að auka við þekkingarforðann, þar með talið þekkingu á manninum, menningunni og þjóðfélaginu, og að nota þennan þekkingarforða til að skapa nýmæli.

Samkvæmt skilgreiningu OECD má flokka rannsóknir og þróun í þrennt:

 1. Grunnrannsóknir fela í sér tilraunir eða fræðilega vinnu sem er innt af hendi fyrst og fremst með það í huga að afla nýrrar þekkingar á meginundirstöðum fyrirbæra og atburða sem unnt er að skoða, án þess að hafa nokkra tiltekna hagnýtingu eða notkun í huga.

  Með grunnrannsóknum er verið að greina eiginleika, formgerðir og tengsl með það í huga að setja fram og prófa tilgátur, kenningar eða lögmál. Að jafnaði eru niðurstöður grunnrannsókna ekki seldar heldur birtar í vísindaritum eða þeim dreift á meðal áhugasamra samstarfsmanna. Í einstaka tilvikum getur þurft að flokka grunnrannsóknir sem "leynilegar" af öryggisástæðum.
 2. Hagnýtar rannsóknir fela einnig í sér frumathuganir sem fara fram með það í huga að afla nýrrar þekkingar. Þeim er hins vegar fyrst og fremst beint að sérstökum hagnýtum stefnumiðum eða markmiðum.

  Niðurstöðum hagnýtra rannsókna er einkum ætlað að gilda um einstakar eða takmarkaðan fjölda framleiðsluvara, aðgerða, aðferða eða kerfa. Með hagnýtum rannsóknum er leitast við að koma hugmyndum í framkvæmd. Þekkingin eða upplýsingarnar sem þannig fást eru oft skilyrtar við einkaleyfi en einnig er hugsanlegt að þeim sé haldið leyndum.
 3. Þróunarstarfsemi felur í sér kerfisbundna vinnu, þar sem byggt er á fyrirliggjandi þekkingu sem hefur fengist með rannsóknum eða hagnýtri reynslu, sem miðar að því að framleiða ný efni, vörur og tæki; að setja upp ný ferli, kerfi og þjónustu; eða að bæta verulega þessa þætti þar sem þeir eru fyrir.

Almenn regla: Það sem skilur rannsóknir og þróunarstarfsemi frá annarri skyldri starfsemi er að eitthvað nýtt og/eða skapandi sé gert t.d. að vara eða aðferð sé aðlöguð nýjum kröfum eða aðstæðum.

Rannsóknir og þróunarstarfsemi fela ekki í sér:

 1. Kennslu og viðhald þekkingar.
 2. Öflun og miðlun vísinda- og tækniupplýsinga.
 3. Almenna söfnun upplýsinga, svo sem almenna kortagerð, jarð-, vatna-, haf- eða veðurfræðilegar mælingar og tölfræðilega söfnun. Söfnun upplýsinga af ofangreindu tagi sem liður í ákveðnu rannsóknaverkefni er þó talið til rannsóknir og þróun.
 4. Prófanir og stöðlun efna.
 5. Hagkvæmniathuganir t.d. vegna fyrirhugaðra framkvæmda, þar sem notaðar eru hefðbundnar aðferðir við ákvarðanatöku. Athuganir þar sem beitt er nýjum og áður óþekktum aðferðum, tilraunir og öflun þekkingar til undirbúnings líkra hagkvæmniathugana eru talin til rannsóknir og þróun.
 6. Vinna við einkaleyfi og skráningu þeirra.
 7. Læknis- og sjúkrameðferð.
 8. Hefðbundna leit að vatni og jarðefnum. Þó telst til rannsókna- og þróunar- starfsemi, þróun nýrra leitaraðferða og öflun nýrrar jarðfræðiþekkingar í tengslum við jarðefnaleit.
 9. Framleiðslueftirlit.

Nýsköpun

Nýsköpun er ný eða marktækt betri afurð (þjónusta eða hlutur), framleiðsluferli, leið til sölu- eða markaðssetningar, stjórnunaraðferð eða skipulagsfyrirkomulag innan fyrirtækis eða stofnunnar. Nýsköpunin getur ýmist verið ný fyrir tiltekið fyrirtæki, land, markaðssvæði eða heiminn allan. Til þess að teljast nýsköpun verður afurðin, ferlið eða aðferðin að komast í gagnið. Þannig geta nýjar afurðir ekki talist nýsköpun nema þær fari á markað. Hið sama má segja um ný ferli og aðferðir. Þær teljast aðeins nýsköpun sé þeim hrint úr vör innan fyrirtæksins eða stofnunarinnar.

Til nýsköpunarstarfsemi telst öll sú starfsemi, hvort sem hún er á sviði vísinda, tækni, stjórnunar, fjármála eða markaðsmála, sem ætlað er að leiða til nýsköpunar.

Frekari skilgreiningar á nýsköpun má finna í handbók OECD (Oslo Manual). 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica