Gagnaöflun, greining og miðlun upplýsinga

Rannís gerir athuganir á íslenska þekkingingarsamfélaginu, innviðum þess og þróun, auk þess að meta áhrif vísinda og nýsköpunar á samfélagið. Þessum upplýsingum miðlar Rannís áfram á íslenskum vettvangi en nýtir einnig í samstarfsverkefnum við hliðstæðar erlendar stofnanir og í fjölþjóðlegum samanburðarathugunum.

Meðal verkefna á þessu sviði eru:

Greining á doktorsmenntun á Íslandi

Rannís aflar reglulega gagna um menntun Íslendinga og mannauð á vinnumarkaði. Þjálfað og vel menntað starfsfólk er forsenda fyrir rannsóknir, þróun og nýsköpun. Upplýsingar um mannauð eru því mikilvægar vísbendingar um stöðu og framtíðarþróun íslensks þekkingarsamfélags.

Árlega aflar Rannís gagna um nýjar doktorsgráður sem veittar eru við íslenska háskóla og um útskriftir Íslendinga frá erlendum háskólum. Tölfræðin birtist í gagnasafninu NORBAL, en það er upplýsingaveita um doktora og doktorsnema á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum.

Birtingar og tilvitnanir

Ýmsar aðferðir hafa verið þróaðar til að meta árangur af rannsóknum.  Einna elstar og mest notaðar eru bókfræðilegar (bibliometric) aðferðir sem mæla m.a. fjölda birtinga og tíðni tilvitnana í ritrýnd vísindatímarit.  Fjöldi vísindagreina í alþjóðlegum, ritrýndum vísinda- og fræðitímaritum er stundum notaður sem einfaldur mælikvarði á rannsóknavirkni og framlag vísindamanna, rannsóknastofnana, háskóla og þjóða. Forsendurnar eru þær að fjöldi vísindagreina sé vísbending um magn vísinda eða nýrrar þekkingar og að fjöldi tilvitana sé vísbending um gæði vísinda.

Mælingar á birtingum og tilvitnunum gefa góða vísbendingu um framleiðni vísindastarfs og veita gagnlegar upplýsingar sérstaklega ef gerður er samanburður yfir tíma eða á milli aðila innan sömu greinar.  Það getur samt sem áður verið varasamt að bera saman tölur ólíkra fagsviða enda er misjafnt hversu góða mynd alþjóðleg fræðitímarit gefa af þeim, t.d. eiga verkefni á sviði þjóðlegra greina erfiðara uppdráttar.

Rannís tekur þátt í innlendum og erlendum verkefnum þar sem gerð er greining á eðli og fjölda ritrýndra birtinga og tilvitnana með það fyrir augum að finna hlut Íslands og Norðurlandanna einnig. Upplýsingar um birtingar og tilvitnanir tengdar Íslandi má finna í fjölmörgum útgáfum Rannís.

Fjárlagagreining

Mat á umfangi rannsókna og þróunar fer fram á tvennan hátt. Annars vegar er gerð  könnun meðal þeirra sem stunda rannsóknir og þróun og hins vegar er gerð greining á rannsókna- og þróunarþætti í fjárlagafrumvarpi og ríkisreikningi. 

Á ári hverju leggur Rannís fram greiningu á útgjöldum og framlögum til rannsókna og þróunar ríkisaðila sem fram koma í frumvarpi hvers árs fyrir sig. Greiningar sem þessar hafa verið gerðar frá árinu 1993.

Samantektir á fjárlagagreiningu fyrri ára má finna í útgáfum  Rannís.

Rannsóknavog

Rannís hefur safnað saman upplýsingum um rannsókna- og þróunarstarfsemi frá árinu 1971 í svokallaðri Rannsóknarvog. Með henni er gagna um umfang og viðgang rannsókna og þróunar aflað annað hvert ár í samstarfi við OECD, Eurostat og ýmsar systurstofnanir á Norðurlöndum. Niðurstöðurnar nýtast stefnumótandi aðilum á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Þær eru auk þess eitt besta tæki til alþjóðlegs samanburðar á rannsóknum og þróun sem völ er á.

Gagnasöfnun um rannsóknir, þróun og nýsköpun fer fram annað hvort ár. Allir þátttakendur í könnun Rannís fá sendan aðgang að rafrænu eyðublaði. Að lokinni útfyllingu fara svör inn í gagnagrunn sem aðeins Rannís hefur aðgang að. 

Þegar úrvinnslu upplýsinganna lýkur í hvert sinn, er gefið út hefti á íslensku og ensku með niðurstöðum og öðrum upplýsingum um menntun Íslendinga, einkaleyfasókn og birtingu vísindagreina. Útgáfur fyrri ára má nálgast á heimasíðu Rannís.

Nýsköpunarvog

Community Innovation Survey (CIS)

Það skiptir miklu máli fyrir opinbera stefnumótun í nýsköpun að til séu góðar og samanburðarhæfar upplýsingar um stöðu mála. Í könnun Rannís, svokallaðri Nýsköpunarvog, er ýmissa gagna um nýsköpunarvirkni íslenskra fyrirtækja aflað með reglulegu millibili. 

Ísland er eitt fjölmargra Evrópulanda sem framkvæmir þessa könnun og vinnur í nánu samstarfi við Hagstofu Evrópusambandsins um þróun aðferðafræði og úrvinnslu niðurstaðna.  Niðurstöðurnar eru langveigamestu upplýsingarnar sem löndin hafa til að fylgjast með þróun og áhrifum nýsköpunar í heimalöndunum og jafnframt mikilvægt tæki til alþjóðlegs samanburðar.

Í Nýsköpunarvoginni er m.a. fjallað um nýsköpunarverkefni fyrirtækja, og þá út frá tegundum verkefnanna því þeim er skipt niður í svokallaða afurða-, aðferða-, markaðs- og skipulagsnýsköpun.  Einnig er sérstaklega fjallað um nýsköpun í þágu umhverfisins. Fjallað er um útgjöld til nýsköpunar, markmið með nýsköpuninni og einnig nýsköpunarverkefni sem ekki hafa fengið farveg innan fyrirtækjanna.

Aðferðir við öflun og úrvinnslu gagna eru byggðar á handbók OECD og Eurostat um nýsköpun ( Oslo Manual).

Þegar úrvinnslu úpplýsinganna lýkur í hvert sinn er gefið út hefti með helstu niðurstöðum. Hægt er að nálgast útgáfur á vefsíðu Rannís.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica