Vísindakaffi - allir velkomnir

Í aðdraganda Vísindavöku verður hellt upp á Vísindakaffi, þar sem fræðimenn kynna viðfangsefni sín á óformlegan hátt í kósý kaffihúsastemmningu og er markmiðið að færa vísindin nær fólki og segja frá rannsóknum sem skipta máli fyrir daglegt líf þess.

Í ár er boðið upp á Vísindakaffi á kaffihúsinu Kaffi Laugalæk í Reykjavík. Að auki er boðið upp á vísindakaffi í Bolungarvík og á Ströndum.

Dagskrá á Kaffi Laugalæk í Reykjavík:

Mánudag 23. september kl. 20:30-22:00

Á ég annað sjálf í hliðstæðum veruleika? Skammtafræðin og raunveruleikinn
Sigurður Ingi Erlingsson prófessor við Háskólann í Reykjavík

Hvernig nýtist skammtafræðin í nútímatækni? Hver er túlkun skammtafræðinnar og tengsl hennar við þann raunveruleika sem við þekkjum? Í Vísindakaffinu mun Sigurður kynna grunnhugmyndir skammtafræðinnar á aðgengilegan hátt.

Þriðjudag 24. september kl. 20:30-22:00

Hafa ekki allir gott af Rítalíni?
Guðrún Dóra Bjarnadóttir geðlæknir og Gyða Guðmundsdóttir sálfræðingur

Umræða um misnotkun örvandi lyfseðilsskyldra lyfja hefur aukist á undanförnum árum. Methýlfenídat (MPH) er virka efnið í rítalín, rítalín uno og concerta. Rannsókn á misnotkun MPH á Íslandi hafa leitt í ljós að yfir 10% háskólanema í grunnnámi sem tóku þátt höfðu misnotað þessi lyf til taugaeflingar (e. neuroenhancement) og/eða afþreyingar. Auk þess hefur misnotkun MPH í æð verið algeng á Íslandi og sýndu niðurstöður rannsókna að tæplega 90% þátttakenda hafði notað MPH í æð og kusu að nota það fram yfir önnur efni á borð við kókaín og ópíóða.

Miðvikudag 25. september kl. 20:30-22:00

Hvað á Ísland að heita þegar allur ís er farinn? ...land??
Halldór Björnsson og Hrafnhildur Hannesdóttir frá Veðurstofu Íslands.
Haldi hlýnun jarðar áfram kemur að því að hafís mun aldrei sjást nærri landinu, og jöklar hopa upp á hæstu fjallatinda. Þá fer að verða spurning hvort nafnið Ísland verði ekki rangnefni. En er þessi framtíðarsýn líkleg? Rætt verður um hafís- og jöklasögu Íslands og spáð í hugsanlega þróun á næstu öldum.

Fimmtudag 26. september kl. 20:30-22:00

Opið samfélag - hvernig getur almenningur hamið vald?
Jón Ólafsson prófessor við hugvísindadeild Háskóla Íslands
Á næstu mánuðum áforma íslensk stjórnvöld að endurskoða íslensku stjórnarskránna í víðtæku samráði við almenning og munu standa fyrir sk. rökræðukönnun en það er aðferð til að gera dýpri rannsókn á viðhorfum upplýsts almennings en venjuleg skoðanakönnun leyfir. Í tengslum við rökræðukönnunina verður þriggja vikna lýðvistun, sem er opinn vettvangur fyrir umræðu. Vísindakaffið er kynning á þessum tveimur aðferðum almenningssamráðs. Rætt verður um borgaraþátttöku og hvernig aðkoma almennings getur verið víðtæk, náð til sem flestra hópa og gefið óskekkta mynd af viðhorfum borgaranna; hvernig beita má þessum aðferðum og með hvaða hætti stjórnvöld geta (og hvernig þeim ber) að taka tillit til niðurstaðna samráðsins.


Vísindakaffi á landsbyggðinni

Fimmtudag 26. september kl. 20:00 á Kaffi Kind, Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum

Menningararfur í myndum.
Jón Jónsson og Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingar.
Á Vísindakaffinu verður kynnt nýtt og viðamikið rannsókna- og miðlunarverkefni á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Verkefnið ber yfirskriftina Menningararfur í myndum og snýst um gamlar ljósmyndir, söfnun þeirra, varðveislu og miðlun. Sagt verður frá þeirri vinnu sem framundan er, verkþáttum og samstarfsaðilum, sem eru söfn og menningarstofnanir í héraðinu og á landsvísu. Öll sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomin á Vísindakaffið!

Fimmtudag 26. september kl. 20:00-21:30 í Orðakaffi, Amtsbókasafninu á Akureyri

Saga til næsta bæjar?
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, kynjafræðingur og doktorsnemi við Háskólann á Akureyri.
Gréta Bergrún fjallar um samfélagsleg áhrif slúðurs en doktorsverkefni hennar snýr að samfélaglegum áhrifum á búsetu ungra kvenna í sjávarbyggðum. Rætt um slúður í víðu samhengi. Eru lítil samfélög innan stærri samfélaga þar sem áhrifa slúðurs gætir? Er hægt að breyta orðræðu og minnka slúður? Veltum upp steinum og ræðum málið.

Laugardag 28. september kl. 14:00-16:00 að Hafnargötu 9b í Bolungarvík

Hvaða áhrif hafa umhverfisbreytingar í sjó á ferðir þorskseiða?
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður og Anja Nickel doktorsnemi.
Rannsóknarsetur HÍ á Vestfjörðum býður gestum og gangandi upp á vísindakaffi og meðlæti í húsakynnum setursins. Forstöðumaður setursins, dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, ásamt samstarfsfólki, mun taka á móti gestum og kynna það sem er helst á döfinni. Þá verður sagt frá nýjum rannsóknum þar sem þorskseiði eru merkt með hljóðmerkjum til að kanna ferðir þeirra um vestfirska firði og gestum gefst tækifæri til að skoða tilraunir á hegðun og ferðum þorskseiða í rannsóknabúrum. Vísindakaffið er haldið í samstarfi við Vísindavöku Rannís 2019. Allir velkomnir!









Þetta vefsvæði byggir á Eplica