Vísindin lifna við!

Sýningarsvæði og vísindakaffi

Á Vísindavöku geta gestir ýmist rölt um sýningarsvæðið sjálft, spjallað við vísindafólk og fræðst um rannsóknir þess eða sest inn í vísindakaffi og tekið þátt í áhugaverðum umræðum um valin efni

Sýningarsvæði Vísindavöku

Miðpunktur Vísindavöku er sýningarsvæðið þar sem gestir geta hitt vísindafólk og kynnst viðfangsefnum þess á fjölmörgum sýningarbásum! Hér er tengill í upplýsingar um sýnendur og fjölbreytt viðfangsefni þeirra!

Kl. 15:00-15:30 Opnun Vísindavöku 2019.

  • Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís býður gesti velkomna
  • Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar Vísindavöku og afhendir viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun
  • Sprengju-Kata sprengir Vísindavöku í gang!

Kl. 15:00-20:00 Sýningarsvæði opið! Okkar fremsta vísindafólk býður upp á vísindaveislu í höllinni! Allt um efni og sýnendur hér. 

 Munið líka Vísindakaffið hér að neðan:

Vísindakaffi á Vísindavöku, laugardaginn 28. september:

Boðið verður upp á átta stutta fyrirlestra, eða Vísindakaffi, í sal í anddyri Laugardalshallar á Vísindavöku. Þar er hægt að fá sér sæti og hlusta á vísindafólk segja frá viðfangsefnum sínum á óformlegan hátt og taka þátt í áhugaverðum umræðum um valin viðfangsefni.

Kl. 15:30-16:00 Uppruni bólusetninga. Siggeir F. Brynjólfsson PhD, sérfræðingur á ónæmisfræðideild Landspítala
Árið 1980 lýsti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin því yfir að bólusótt hefði verið útrýmt með skipulögðu bólusetningaátaki. Bólusótt er enn í dag eini smitsjúkdómurinn sem hefur verið útrýmt með bólusetningu. Farið verður yfir uppruna bólusetninga, hvernig enski læknirinn Edward Jenner sannreyndi áhrif bólusetninga árið 1796 og hvernig vinna hans leiddi til útrýmingar á bólusótt. Einnig verður farið yfir núverandi átak Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar vegna útrýmingar á mislingum og lömunarveiki.

Kl. 16:00-16:30 Dysjar hinna dæmdu. Steinunn Kristjánsdóttir prófessor í fornleifafræði við HÍ, Ómar Valur Jónasson og Sigrún Hannesdóttir meistaranemar.
Uppúr siðaskiptunum árið 1550 hófu stjórnvöld í auknum mæli að taka fólk af lífi fyrir ýmis afbrot. Færðust aftökurnar svo mjög í aukana er leið á sextándu öldina að tala má um aftökuhrinu sem stóð yfir hérlendis í 200 ár. Samtals urðu aftökurnar 248 en sú síðasta fór fram árið 1830. Sagt verður frá nýhafinni fornleifarannsókn sem miðar að því að skoða þetta merkilega aftökutímabili í sögu Íslands.

Kl. 16:30-17:00 Er eitthvað vit í þessum rafmagnsbílum? - Orkuskipti í samgöngum. Hlynur Stefánsson og Eyjólfur Ingi Ásgeirsson dósentar við HR.
Er rafvæðing samgangna á landi hagkvæmur kostur fyrir Ísland? Hvernig er best að stuðla að orkuskiptum? Hver eru áhrif á útblástur gróðurhúsalofttegunda?

Kl. 17:00-17:30 Hnúfubakar á hjara veraldar - hinn tækifærissinnaði hvalur í hlýnandi hafi. Edda Elísabet Magnúsdóttir, nýdoktor í líffræði við HÍ.
Á vísindakaffinu fjallar Edda um hinn margslungna hnúfubak en nýlegar rannsóknir við Ísland hafa leitt í ljós mikinn sveigjanleika meðal hnúfubaka í tímasetningu á fari og varpað ljósi á viðveru þeirra við landið árið um kring og jafnframt uppljóstrað um syngjandi hnúfubakstarfa að vetri. Söngvana nýta tarfarnir til að auglýsa sig þegar greddan hellist yfir þá. Því er ljóst að í stað þess að fylgja strangri áætlun um að halda suður á bóginn þegar kynhvötin vex á haustin halda margir hvalir áfram til við Ísland. Rannsókn á atferli, frjósemi, líkamsástandi og fæðuvali þessara vetrarhvala standa nú yfir með það að markmiði að skilja hvaða þættir gætu ýtt undir þessa tækifærissinnuðu vetrardvöl í myrkri og kulda á norðurhjara veraldar og nýtast niðurstöður m.a. til að skilja hæfni farhvala til að bregðast við þeim öru breytingum sem eiga sér nú stað á búsvæðum þeirra í norðri.

Kl. 17:30-18:00 Jafnvægisstjórnun og áhrif skynþjálfunar. Bergþóra Baldursdóttir PhD, sérfæðingur í öldrunarsjúkraþjálfun.
Bergþóra kynnir rannsóknir á skynörvandi jafnvægisæfingum sem reynst hafa gagnlegar til að bæta jafnvægi, vöðvastyrk, gönguhraða og öryggi við daglegar athafnir hjá óstöðugu eldra fólki. Einnig verða kynntar rannsóknarniðurstöður um hvað einkennir þá sem hafa dottið og úlnliðsbrotnað.

Kl. 18:00-18:30 Steinrennum loftslagsvandann - CarbFix verkefnið. Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, jarðfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Frá árinu 2012 hefur koldíoxíð (CO2) verið fangað úr jarðhitagufu við Hellisheiðarvirkjun, það leyst í vatni og því síðan dælt niður í jarðlög þar sem það steinrennur um aldur og ævi – aðferð sem þróuð hefur verið undir merkjum CarbFix verkefnisins. CarbFix gengur út á að breyta gasi í grjót og koma þannig í veg fyrir áhrif þess á loftslagið. Aðferðin hefur vakið heimsathygli og vinnur hópur vísindafólks frá Orkuveitu Reykjavíkur, háskólum og rannsóknarstofnunum hérlendis og erlendis að því að þróa aðferðina áfram svo hún megi nýtast sem víðast til að binda CO2, meðal annars úr útblæstri orku- og iðnvera, en auk þess hafa fyrstu skrefin verið tekin í að fanga CO2 beint úr andrúmslofti.

Kl. 18:30-19:00 Ómur óbyggðanna: Draugasafn jórturdýranna. Bryndís Snæbjörnsdóttir, prófessor við LHÍ og Karl Benediktsson prófessor við HÍ.
Þann 27. október 2009 var hópi útigöngufjár, sem hafði dvalið á Tálkna á Vestfjörðum í nær þrjá áratugi, smalað af fjallinu og slátrað án tafar. Þrátt fyrir margar tilraunir í gegnum tíðina til að ná fénu af fjallinu hafði því tekist í þetta langan tíma að komast undan smölun, ganga sjálfala og vera sjálfbjarga í hrjóstrugu umhverfi. Smölunin og endanleg hreinsun alls fjár af fjallinu fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum, og voru skoðanir skiptar meðal almennings. Listrannsókn í kjölfarið leiddi til innsetningar á tveimur myndlistarsýningum og útgáfu bókar, en varpa fram róttækum og ögrandi spurningum varðandi tengsl okkar við dýr og það umhverfi sem við deilum með þeim, ekki bara á Íslandi heldur í veröldinni allri. Þótt verkið sjálft styðjist við óhefðbundnar aðferðir myndlistarinnar er hér að finna hrífandi og áhugavert efni sem nýtir sér ímyndunarafl og tilgátur jafnt á við nákvæmar rannsóknir vísindanna.

Kl. 19:00-19:30 Farðu að sofa! Samtal um svefn. Erna Sif Arnardóttir rannsóknasérfræðingur við HR
Af hverju erum við ekki að sofa nóg eða vakna alltaf endurnærð á morgnanna? Farið yfir helstu hindranir á því að ná góðum nætursvefni - bæði lífsstílsþætti, mikilvægi dagsbirtu, áhrif streitu og algengustu svefnsjúkdóma.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica