Evrópusamvinna í 30 ár - málþing og uppskeruhátíð Evrópusamstarfs 8. maí

8.5.2024

Miðvikudaginn 8. maí verður Evrópusamvinnu í 30 ár fagnað með málþingi á Grand hótel og uppskeruhátíðar Evrópusamstarfs sem haldin verður í Kolaportinu milli kl. 14-18.

  • Evropusamvinna-1080x1080

í ár eru 30 ár síðan að samningur Evrópska efnahagssvæðisins (EES) var undirritaður og veitti Íslandi meðal annars aðgang að innri markaði Evrópusambandins og aukin tækifæri til samstarfs í Evrópu. 

Í tilefni af þeim tímamótum bjóða Rannís, utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi til tveggja viðburða miðvikudaginn 8. maí. annars vegar málþingið: EES í 30 ár - ávinningur, tækifæri, áskoranir og hins vegar Uppskeruhátíð Evrópuverkefna: Evrópusamvinna í 30 ár. 

Á málþinginu, sem fer fram á Grand hótel frá klukkan 10:00 til 12:00, verður sjónum beint að þátttöku Íslands í innri markaði Evrópu og evrópskum samstarfsáætlunum, og rætt hvaða áskoranir og tækifæri framtíðin ber í skauti sér.

Nánar um málþingið

Uppskeruhátíð Evrópusamvinnu verður haldin í Kolaportinu 8. maí milli klukkan 14:00 og 18:00. Íslendingar hafa verið afkastamiklir þátttakendur í evrópsku samstarfi sl. 30 ár og á hátíðinni verður góðum árangri fagnað og geta gestir kynnt sér fjölmörg verkefni sem hafa fengið styrki úr samstarfsáætlunum ESB. Auk þess munu nokkur evrópsk sendiráð kynna land sitt og menningu á fjölbreyttan hátt.  Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson opnar hátíðina og boðið verður upp á tónlistaratriði á sviði og afmælisköku, kaffi og djús fyrir börnin.

Verkefnin sem taka þátt koma alls staðar að úr samfélaginu, enda hafa áætlanir ESB styrkt íslenska aðila á sviði menntamála, kvikmyndagerðar, æskulýðsmála, rannsókna, nýsköpunar og fleiri sviðum. 

Tónlist, bíómyndir, áhugaverð verkefni, fræðsla og skemmtilegar uppákomur fyrir alla aldurshópa!

Sjáumst í Kolaportinu, miðvikudaginn 8. maí, milli klukkan 14 og 18!

Evrópusamvinna í 30 ár er sannkölluð uppskeruhátíð fyrir íslenskt samfélag og er fólk á öllum aldri velkomið að mæta, fræðast og fagna með okkur. 

Nánar um uppskeruhátíðina









Þetta vefsvæði byggir á Eplica