Rúmar 100 milljónir í skapandi iðnað frá NICe, skilafrestur 16. október.

11.9.2006

Norræna nýsköpunarmiðstöðin (NICe) lýsti nýverið eftir verkefnatillögum, en miðstöðin hefur sem svarar til rúmlega 100 milljónum íslenskra króna sem úthluta á til verkefna sem tengjast skapandi iðnaði. Í útboðsgögnum NICe er hvatt til þátttöku í uppbyggingu á skapandi iðnaði á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum.

NICe býður fyrirtækjum í iðnaði, sjálfseignarstofnunum og rannsóknarstofnunum frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum að senda inn hugmyndir að verkefnum sem tengjast fjórum sviðum.

Óskað er eftir tillögum um fjármögnunarleiðir fyrir skapandi iðnað. Meðal annars tillögur að því hvernig auka megi aðgengi að fjármagni jafnframt því að styrkja samstarfsnet eða klasa skapandi iðnfyrirtækja.

Einnig er óskað eftir tillögum um upphafsrétt og gildi einkaréttar. Hvernig nýta má upphafsréttinn til að auka verðmætasköpun og hvaða leiðir henti best til að tengja einkarétt á framleiðslu og hagvöxt.

Norðurlöndin standa framarlega á mörgum sviðum, ekki síst í iðnhönnun. Óskað er eftir tillögum um samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem geti eflt enn frekar iðnhönnun í löndunum.

Að endingu óskar NICe eftir tillögum um þverfagleg stafræn og gagnvirk verkefni, þar sem löndin hafa þegar sett sér stefnu til að mynda um fjölgun í gerð tölvuleikja og aukna þátttöku á tölvuleikjamarkaði.

Umsóknarfrestur um styrkina og til að senda inn tillögur er 16. október 2006.

Nánari upplýsingar á

http://www.nordicinnovation.net

 

 

 










Þetta vefsvæði byggir á Eplica