Um Rannís

Hlutverk Rannís er að treysta stoðir íslensks þekkingarsamfélags með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu. 

Rannís styður þekkingarsamfélagið með rekstri samkeppnissjóða, aðstoð og kynningu á alþjóðlegum sóknarfærum og samstarfsmöguleikum, ásamt því að greina og kynna áhrif rannsókna, menntunar og menningar á þjóðarhag.

Rannís hefur umsjón með helstu samkeppnis­sjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar og menningar á Íslandi, auk samstarfsáætlana ESB og norrænna áætlana sem veita styrki til samstarfsverkefna, náms og þjálfunar. Á meðal sjóðanna eru Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður, sem eru tveir stærstu samkeppnissjóðir hér á landi, Erasmus+, Horizon Europe, Barnamenningarsjóður Íslands, Jafnréttissjóður Íslands, Loftslagssjóður og Listamannalaun. Samskiptanetið er stórt, en skólar, stofnanir, einstaklingar og fyrirtæki auk stjórnsýslunnar tilheyra viðskiptavinahópi Rannís.

Forstöðumaður Rannís er Ágúst Hjörtur Ingþórsson.

Sjá yfirlit yfir alla sjóði í umsýslu Rannís

Rannís heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og starfar á grundvelli laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2003

Rannís fær framlög á fjárlögum til rekstrarins (sjá í ársskýrslu 2022) og hefur reglulegt samráð við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti varðandi fjárveitingar og áherslur í starfsemi Rannís. Í samræmi við lög hefur Rannís mótað sér stefnu fyrir málefnasvið og markmið í málaflokkum til þriggja ára og hefur ráðuneytið staðfest ársáætlun og stefnu stofnunarinnar.

Fagsvið

Starfsemi Rannís skiptist í tvö fagsvið; rannsókna- og nýsköpunarsvið og mennta- og menningarsvið. Þvert á fagsviðin ganga rekstrarsvið og greiningar og hugbúnaðarsvið með stuðningi við starfsemi þeirra.

Sameiginlegt markmið sviðanna er að efla samstarf stjórnvalda og hagsmunaaðila við undirbúning og framkvæmd opinberrar vísinda- og tæknistefnu og styðja við rannsóknir og nýsköpun, menntun, menningu og þróun mannauðs. 

Skipurit Rannís

Skipurit Rannís (pdf)

Alþjóðasamstarf

Evrópskt og norrænt samstarf er umfangsmikið í starfsemi Rannís sem er helsta þjónustustofnun á Íslandi á þessu sviði. Rannsókna- og nýsköpunarsvið Rannís hefur umsjón með fjölmörgum evrópskum og norrænum styrkjaáætlunum og verkefnum sem miða að því að styðja við alþjóðlegt samstarf íslensks vísindasamfélags. Stærsta einstaka verkefni sviðsins er Horizon Europe, rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins (ESB) og hefur Rannís umsjón með starfi stjórnar-nefndarfulltrúa og landstengiliða áætlunarinnar fyrir Íslands hönd. Mennta- og menningarsvið Rannís hefur umsjón með Erasmus+ mennta- og æskulýðsáætlun Evrópusambandsins, sem og fjölmörgum stoðverkefnum tengdum þeirri áætlunCreative Europe kvikmynda- og menningaráætlun Evrópusambandsins og Nordplus menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar.

Frá og með 2021 gegnir Rannís einnig hlutverki landstengiliða fyrir Digital Europe sem styður við stafræn umskipti í Evrópu og LIFE áætlunina sem fjármagnar verkefni sem takast á við umhverfis- og loftslagsbreytingar. 

Kynningarstarf

Markmiðin nást því aðeins að kynningarstarf á rannsóknastarfseminni sé umfangsmikið. Rannís leggur áherslu á öfluga vefsíðu ásamt því að annast kynningu og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um möguleika á styrkjum og stuðla að samvinnu innan lands og utan.

Til að styðja við kynningarstarf á rannsóknum og nýsköpun og gera áhrif vísindarannsókna sýnileg, stendur Rannís fyrir ýmsum viðburðum eins og Rannsóknaþingi og Nýsköpunarþingi, að ógleymdri Vísindavöku og Vísindakaffi. Einnig á Rannís þátt í að hvetja vísindafólk til frekari dáða með viðurkenningum á borð við Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs og Nýsköpunarverðlaun Íslands í samvinnu við Íslandsstofu, Hugverkastofunnar og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica