Tækniþróunar­sjóður

Fyrir hvern?

Einstaklingar, fyrirtæki, háskólar og stofnanir.

Til hvers?

Styrkja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Umsóknarfrestur

Síðasti umsóknarfrestur var 15. september 2014.

Að öllu jöfnu er umsóknarfrestur tvisvar á ári, til og með 15. febrúar og 15. september.

Hvert er markmiðið?

Tækniþróunarsjóður heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hann starfar samkvæmt  lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007.  

Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Hverjir geta sótt um?

Einstaklingar, fyrirtæki, háskólar og stofnanir geta sótt um í Tækniþróunarsjóð. Takmarkanir geta þó verið í ákveðnum styrkjaflokkum.

Hvað er styrkt?

Sjóðnum er heimilt að fjármagna nýsköpunarverkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs. Mikilvægt er að auka fjölbreytni atvinnulífsins og hraða uppbyggingu þekkingar- og hátæknistarfsemi. Stjórn Tækniþróunarsjóðs telur sjóðinn mæta þessum sjónarmiðum með því að skilgreina nýjar áherslur í samræmi við hlutverk sjóðsins. Hægt er að sækja um þrenns konar styrki: Frumherjastyrki, Verkefnastyrki og Markaðsstyrki.

Frumherjastyrkir: Frumherjastyrkir eru sniðnir að þörfum sprotafyrirtækja og frumkvöðla með verkefni á byrjunarstigi. Frumherjinn er sjálfur í fyrirrúmi og hyggst eða hefur stofnað fyrirtæki um hugmynd sína. Gert er ráð fyrir að aðkeypt þjónusta rannsóknastofnana og háskóla sé að öllu jöfnu innan við 20% af styrkupphæð. Nýnæmi er mikið og rannsóknaþáttur verkefnisins er verulegur.

Verkefnin eru einungis styrkt til 2ja ára að hámarki 7 milljónir hvort ár. Gerð er krafa um 25% mótframlag umsækjenda. Gert er ráð fyrir að umsækjendur sæki um verkefnisstyrk í framhaldi af frumherjastyrk ef niðurstaða gefur tilefni til.

Verkefnisstyrkir: Verkefnisstyrkir eru ætlaðir til að styrkja verkefni sem eru komin af frumstigi hugmyndar. Verkefni getur fengið styrk til allt að 3ja ára og að hámarki 15 milljónir króna á ári. Krafist er 50% mótframlags umsækjenda.

Markaðsstyrkir: Markaðsstyrkir eru ætlaðir fyrirtækjum sem eru að komast á legg og eru með veltu undir 300 milljónum króna. Að öllu jöfnu tengist umsóknin undangenginni vöruþróun í tengslum við rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækisins fyrir sömu afurðir. Hægt er að sækja um styrk vegna sérstaks markaðsátaks en einnig uppbyggingu innviða fyrirtækisins svo sem vegna grunnstoða reksturs í formi hugbúnaðarkerfa og annarra þátta sem færa má rök fyrir. Nauðsynlegt er að ítarleg viðskiptaáætlun með framtíðaráformum fylgi.

Verkefnin eru einungis styrkt til eins árs að hámarki 10 milljónir. Gerð er krafa um 50% mótframlag umsækjenda.

Skilyrði úthlutunar

Tækniþróunarsjóður er samkeppnissjóður. Umsóknir eru metnar af fagráði sem leggur til ráðgefandi álit um styrkveitingu til stjórnar sjóðsins. Stjórn Tækniþróunarsjóðs tekur endanlega ákvörðun um úthlutun. Athuga ber einnig kröfu um mótframlag umsækjenda.