Dr. Ari Ólafsson fyrstur til að hljóta verðlaun RANNÍS fyrir vísindamiðlun

25.9.2006

Verðlaun RANNÍS fyrir miðlun vísinda til almennings voru í fyrsta skipti veitt á vísindavökunni sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi, föstudaginn 22. september. 

Við val á verðlaunahafa leitaði RANNÍS eftir tilnefningum og fékk ábendingar um 23 aðila.  Þessar tilnefningar voru lagðar fyrir dómnefnd sem í sátu Hjördís Hendriksdóttir hjá alþjóðasviði RANNÍS, Edda Lilja Sveinsdóttir hjá vísindaskrifstofu menntamálaráðuneytisins og Viðar Hreinsson framkvæmdastjóri Reykjavíkur-Akademíunnar.  Við mat á tilnefningum til verðlaunanna var tekið tillit til brautryðjendastarfs, frumleika og árangurs framlags til vísindamiðlunar.

Val dómnefndarinnar var ekki auðvelt þar sem velja þurfti á milli þó nokkurra aðilla sem uppfylltu vel öll viðmiðin.  Að þessu sinn varð fyrir valinu dr. Ari Ólafsson, dósent í eðlisfræði við Háskóla Íslands. 

 

Ari hefur um árabil stuðlað að auknum skilningi og áhuga barna, unglinga og almennings á vísindum og tækni.

  • Hann hefur haldið námskeið fyrir raun- og náttúrufræðikennara og verið í fararbroddi í umræðu og hugmyndafræði um eflingu kennslu í þeim greinum.
  • Hann hefur þjálfað íslenska landsliðið á Olympíuleikum í eðlisfræði um árabil og gegnt ábyrgðarstöðum í þeim viðburði fyrir Íslands hönd

 

  • Þá hefur Ari haldið fjölda fyrirlestra fyrir almenning og fagfólk um undur vísindanna, undirbúið, stýrt og staðið að framkvæmd vísindanámskeiða fyrir börn, t.d. fyrir Bráðgerð börn - verkefni við hæfi; haldið námskeið á Vísindadögum RANNÍS 2002, komið á ásamt fleirum Háskóla unga fólksins og kennt þar fjölda námskeiða, gert sýnitilraunir á viðburðum opnum almenningi, svo sem á Ljósahátíð í Reykjavík "Vísindamaraþoni" Háskóla Íslands á Menningarnótt og Vísindavöku RANNÍS í fyrra.  Ari hefur verið sýnilegur í fjölmiðlum í vísindamiðlun og vísindaumræðu af margvíslegu tagi og líklega eini eðlisfræðingur landsins sem hefur gert sýnitilraunir í eðlisfræði í beinni útsendingu í sjónvarpi.

Nú síðast hefur Ari verið hvatamaður að stofnun Tilraunahúss á Íslandi sem reki skemmti- og fræðasetur raungreina, sem á ensku er kallað "Science Center". Það starf hefur með mikilli þrautseigju Ara skilað sér í stofnun Undirbúningsfélags að Tilraunahúsi, í samstarfi Orkuveitu Reykjavíkur, Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands en Ari er stjórnarformaður í undirbúningsfélaginu.

Við óskum Ara til hamingju með verðlaunin











Þetta vefsvæði byggir á Eplica