Visindin snerta þig

1.6.2005

Setning verkefnisins Vísindin snerta þig verður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum fimmtudaginn 2. júní, 2005 kl. 10:00
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn ríður á vaðið með menntamálaráðherra og Glögg geimveru sér til halds og trausts.
Dagskrá:
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra - setur verkefnið
Tómas Óskar Guðjónsson, forstöðumaður Fjölskyldur- og húsdýragarðsins
  - segir frá Vísindaveröldinni og vísindakynningu í sumar
Glöggur geimvera
- fylgir gestum um Vísindaveröldina

Með verkefninu Vísindin snerta þig ætlar Rannís í samstarfi við fjölmarga aðila að sannfæra ungt fólk um að vísindi eru spennandi starfsvettvangur.
Með verkefninu Vísindin snerta þig stendur til að vekja fjölmiðla og almenning, og þá ekki síst ungt fólk, til meðvitundar um hlut vísinda í lífi okkar allra og til að hvetja ungt fólk til að velta fyrir sér vísindum og rannsóknum sem framtíðarstarfi. Reynt verður að ná til barna og ungs fólks á aldrinum 5 - 25 ára eftir fjölmörgum leiðum. Meðal annars ætlar starfsmaður Húsdýragarðsins, Glöggur geimvera, verður með vísindatengda dagskrá fyrir yngstu grunnskólanemana í sumar. Önnur verkefni verða t.d.:

  • Ritgerðasamkeppn meðal grunnskólanema um hetjur í vísindum.
  • Samkeppni um stuttmyndagerð meðal nema í framhaldsskólum.
  • Námskeið í ,,bílskúrsgervigreind" verður kynnt ungu fólki á aldrinum 16 - 20 ára af vísindamönnum innan Háskólans í Reykjavík
  • Árangur valdra vísindamanna verður auglýstur í fjölmiðlum.
  • Nærmyndir af vísindamönnum birtast í fjölmiðlum.
  • Grunnskólum býðst að fá sérfræðinga í skóla til að kynna áhugaverð viðfangsefni.
  • Almenningi verður boðið í vísindakaffi þar sem álitamál verða rædd yfir kaffibolla.

Vísindin snerta þig er hluti af evrópsku verkefni, 2005 researchers in Europe, sem hleypt er af stokkunum á vordögum um alla Evrópu. Á tímabilinu júní til nóvember í ár verða kynningar og uppákomur um alla Evrópu til að upplýsa ungt fólk um þau tækifæri sem gefast í heimi vísindanna og sýna fram á að vísindi eru ekki lokaður heimur heldur lifandi veruleiki sem snertir okkur öll. Verkefnin hafa það markmið að kynna fyrir ungu fólki fjölbreytt störf við vísinda- og rannsóknarvinnu.

Í ályktunum Efnahagssamvinnu- og þróunar-stofnunarinnar (OECD) síðustu misserin er undirstrikað að menntun, rannsóknir, nýsköpun og frumkvæði er drifafl hagvaxtar í þjóðfélagi sem byggir tilvist sína á því að afla nýrrar þekkingar og hagnýta hana. Lykillinn að vexti rannsókna- og tæknisamfélagsins er að virkja áhuga ungs fólks á vísindum og nýsköpun. Verkefnið Vísindin snerta þig er hluti af þeim virkjunaráformum.

 Vefur verkefnisins er: www.visindi2005.is

Evrópuvefur verkefnisins : http://europa.eu.int/comm/research/researchersineurope/index_en.htm

 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica