Íslensk þátttaka í stóru evrópsku menningarverkefni

24.5.2018

Menningarfyrirtækið Einkofi Production er þátttakandi í stóru menningarverkefni, NATUR: North Atlantic Tales, sem styrkt er af Creative Europe.

Upphaf verkefnisins má rekja til þess að árið 2018 er tileinkað menningararfi Evrópu og er það haldið hátíðlegt um alla álfuna. Markmið ársins er að vekja athygli á og fagna fjölbreyttum menningararfi Evrópu, sem stendur traustum fótum í byggingarlist, fornleifum og fornum ritum en er þó í senn bráðlifandi í dag allt umhverfis okkur, m.a. í listum og nýsköpun.

Verkefnið, NATUR: North Atlantic Tales, mun leitast við að skoða sameiginlega sögu Íslands, Noregs, Danmerkur og Bretlands með því að bjóða listafólki að rannsaka muni, skjalasöfn og bækur í hverju landi fyrir sig og draga af því innblástur til sköpunar á nýjum verkum. Verkefnið mun einblína á þræði eins og þjóðsögur og tungumál, verslunarhætti, fiskveiðar, iðnvæðingu, átök, olíu, sögu kvenna og rafræna framtíð og skoða hvernig við getum spilað saman fortíð og nútíð þessara landa saman á listrænan hátt.

Verkefninu stýrir SICC Productions Ltd UK en þátttakendur eru Einkofi Productions ehf. frá Íslandi, Erfjordgt.8 AS frá Noregi og Samskab Kunst og Kulturprodutioner ApS frá Danmörku. Samstarfið er til tveggja ára, 2018-2020, og nemur styrkur til verkefnis 200.000 evrum.

Nánari upplýsingar eru að finna: www.naturproject.org








Þetta vefsvæði byggir á Eplica