Pantið áhrifin frá Móður jörð hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2011

Verkefnið sem hlaut verðlaunin að þessu sinni heitir Pantið áhrifin frá Móður jörð og var það unnið af Auði Ösp Guðmundsdóttur, Emblu Vigfúsdóttur og Katharinu Lötzsch frá Listaháskóla Íslands og Robert Peterssen frá Háskólanum í Gautaborg. Leiðbeinandi þeirra í verkefninu var Brynhildur Pálsdóttir.

Pantið áhrifin frá Móður jörð er hugmyndafræðilegur veitingastaður þar sem upplifun, fræðsla og umhverfisvitund fara saman. Hugmyndin kviknaði haustið 2009 í áfanga við Listaháskóla Íslands sem kallast Stefnumót hönnuða og bænda. Þar komu vöruhönnunarnemar og bændur saman að nýsköpun og verðmætaaukningu íslensks landbúnaðar.

Eymundur Magnússon bóndi í Vallanesi sérhæfir sig í framleiðslu lífrænna matjurta sem seldar eru undir vörumerkinu Móðir Jörð. Eymundur leggur metnað sinn í að fræða almenning um mikilvægi heilbrigðrar fæðu og áhrif hans á líkama okkar ásamt því að stuðla að sjálfbærni og náttúruvernd. Hugmyndafræði Eymundar er grundvöllur hugmyndarinnar að veitingastaðnum og staðbundin framleiðsla og vistvæn hráefni eru hornsteinn hans. Staðurinn sjálfur er byggður úr timbri úr Hallormsstaðarskógi (10 km frá Vallanesi) og réttirnir búnir til úr íslensku hráefni, mestmegnis frá Vallanesi. Kappkostað var að nota eins nærtækan efnivið og völ var á og margar vettvangsferðir farnar í leit að möguleikum í hráefni og vinnslu. Staðurinn er sampakkanlegur og getur því ferðast milli landshorna eftir því hvernig vindar blása.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica