Nýstárlegt hljóðfæri hlýtur Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2013

  • Úlfur Hanson tekur á móti nýsköpunarverðlaunum forseta íslands.
    Úlfur Hanson tekur á móti nýsköpunarverðlaunum forseta íslands.

Verkefnið sem hlaut verðlaunin að þessu sinni heitir OHM - hönnun, þróun og smíði nýs hljóðfæris og var það unnið af Úlfi Hanssyni, nemanda við Listaháskóla Íslands. Leiðbeinandi hans í verkefninu var Hans Jóhannsson hjá Fiðlusmíðaverkstæði Hans Jóhannssonar.

Hljóðfærið er 26 strengja rafstrokin harpa, með snertitökkum, en er að auki sjálfspilandi með sérsmíðuðu tölvuforriti sem var hluti hönnunarvinnunnar. Við upphaf verkefnisins var lagt upp með að hanna og þróa nýja tegund hljóðfæris sem ætti erindi inn í heim raftónlistarinnar, en byggi engu að síður yfir akústískum eiginleikum hefðbundinna eldri hljóðfæra. Raftónlist án hátalara hefur ekki náð fótfestu í heimi hljóðgervla og tölvuforrita, en með hjálp smárra tölvukubba eða örflaga hefur samtalið milli hinna stafrænu og hliðrænu heima eflst til muna. Með hljóðfærinu er hefðbundnu samspili snertingar, viðbragðs og tóns á strengjahljóðfæri umturnað. Strengirnir, sem eru innan í hljóðfærinu, eru knúnir áfram, eða „stroknir“, með snertitökkum úr kopar á viðaryfirborði. Hljóðið kemur innan úr hljóðfærinu, en þrátt fyrir að vera rafknúið er hljóðið einungis byggt á eigindum strengjanna sem slíkra. Náttúruleg endurómun 26 opinna strengja skapar því þann tónblæ sem er einkennandi fyrir hljóðfærið.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica