Reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað

1. gr.

Gildissvið

Reglugerð þessi tekur til vinnustaðanáms, nánar tiltekið til starfsþjálfunar á vinnustað og náms á námssamningi, og til heimilda skóla til þess að fela aðila utan hans umsýslu með náms- og/eða starfs­þjálfunarsamningum.

2. gr.

Skilgreiningar

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

Námssamningur: Samningur milli nemanda og fyrirtækis um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Námssamningar skulu vera í samræmi við gildandi kjarasamning fyrir nemendur í við­komandi starfsnámi.

Starfsþjálfunarsamningur: Samningur milli skóla og vinnustaðar, samtaka eða aðila sem er hæfur til að veita nemanda tilskilda þjálfun og menntun í samræmi við 28. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

3. gr.

Vinnuvernd

Ekki má taka yngri einstakling en 16 ára á námssamning. Í starfsgreinum þar sem vinnuhættir, vinnuskilyrði, vinnutími eða önnur atriði gera slíkt nauðsynlegt getur menntamálaráðherra áskilið hærra aldursmark eða ef önnur lög kveða svo á um. Dagvinnutími iðnnema skal vera hinn sami og sveina í hlutaðeigandi iðngrein samkvæmt kjarasamningi. Við gerð samnings við einstakling undir 18 ára skal gæta ákvæða X. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnu­stöðum. Foreldri eða forráðamaður ólögráða nemanda staðfestir samþykki sitt fyrir námssamningi með undirritun sinni á samninginn.

4. gr.

Ábyrgð framhaldsskóla

Framhaldsskólar bera ábyrgð á að gerðir séu náms- og starfsþjálfunarsamningar í þeim greinum þar sem nám á vinnustað er hluti af starfsnámi samkvæmt aðalnámskrá. Námssamningur skal stað­festur af umsýsluaðila innan mánaðar frá undirskrift samningsaðila.

Framhaldsskólar geta samið við aðila utan hans um að annast umsýslu með gerð og staðfestingu námssamninga. Sömu aðilar hafa þá með höndum ógildingu sömu samninga ef til þess kemur.

5. gr.

Efni náms- og starfsþjálfunarsamninga

Skóli og fyrirtæki eða stofnun gera með sér samning um starfsþjálfun nemenda skólans sem fer fram á viðkomandi vinnustað. Í samningnum er kveðið á um inntak og fyrirkomulag þeirrar starfsþjálfunar sem þar er veitt. Samningurinn er gerður í tvíriti og heldur hvor samningsaðili sínu eintaki.

Skóli, eða annar aðili sem hefur með höndum gerð og staðfestingu námssamninga, ákveður form samnings og leggur til eyðublöð fyrir hann. Í námssamning skal skrá upphaf náms, áætluð námslok svo og skóla þar sem nám er stundað. Námssamningurinn skal einnig kveða á um réttindi og skyldur vinnuveitanda og nemanda og markmið vinnustaðanáms. Samningurinn er gerður í fjórriti og skal hvor samningsaðili halda sínu eintaki, skóli einu eintaki og umsýsluaðili einu eintaki í þeim tilvikum þegar gerð samnings hefur verið framseld aðila utan skólans. Námssamningi skal fylgja námsáætlun nemandans staðfest af skóla þar sem nám er stundað.

6. gr.

Heimild til styttingar námstíma

Við gerð námssamnings er heimilt að meta til styttingar á námstíma nám eða starfsreynslu sem nemandi hefur aflað sér áður en samningurinn var gerður og getur talist nýtast í hinu nýja námi, sbr. reglur menntamálaráðherra um raunfærnimat sem birtar eru í aðalnámskrá framhaldsskóla. Kveði námskrá á um sérstök skilyrði fyrir staðfestingu námssamnings, svo sem um tiltekið undirbúnings­nám áður en samningur er gerður, ganga þau framar þegar svo ber undir. Komi til styttingar skal liggja fyrir yfirlýsing fyrirtækis um vinnutíma, í hverju starfið hefur verið fólgið og staðfesting lífeyrissjóðs eða skattstjóra um að tilskilin gjöld hafi verið innt af hendi.

7. gr.

Skyldur fyrirtækis

Fyrirtæki skuldbindur sig með gerð námssamnings til að veita nemanda kennslu í greininni og sjá svo um að hann hafi að námstíma loknum hlotið alhliða þjálfun í öllum störfum er viðkomandi starfsgrein tekur til og hafi tileinkað sér meðferð, hirðingu og beitingu þeirra efna, áhalda og tækja sem notuð eru í starfsgreininni. Þá skal þess gætt að nemandi hafi tamið sér virðingu fyrir starfi sínu og faglega sýn á þau viðfangsefni sem starfið tekur til.

8. gr.

Skilyrði

Til að fyrirtækjum sé heimilt að taka nemendur á námssamning skulu eftirtalin skilyrði uppfyllt:

  1. Fyrirtæki skal hafa á að skipa hæfum tilsjónarmanni sem fengið hefur þjálfun í leiðbeiningu nýliða, býr að góðri færni í mannlegum samskiptum og hefur yfirsýn yfir helstu verkefni fyrirtækisins.
  2. Í fyrirtæki í löggiltri iðn, sem rekin er samkvæmt iðnaðarlögum nr. 42/1978, skal tilsjónar­maður nemenda ávallt hafa fullgild iðnréttindi í þeirri iðngrein sem hann hyggst kenna.
  3. Fyrirtæki skal hafa með höndum nægilega fjölþætt verkefni á starfssviði sínu til að geta annast fullnægjandi kennslu samkvæmt námsreglum eða námskrá starfsgreinarinnar.
  4. Fyrirtæki skal hafa yfir að ráða vinnustað eða verkstæði með fullnægjandi aðstöðu ásamt vélum, tækjum, áhöldum og búnaði sem viðkomandi starfsgrein útheimtir.
  5. Ef ekki reynist unnt að mati starfsgreinaráðs að uppfylla skilyrði b-liðar er heimilt að víkja tímabundið frá þeim, að settum nánari skilyrðum menntamálaráðherra.
  6. Skilyrði sem sett eru í almennum ákvæðum aðalnámskrár um nám á vinnustað.

9. gr.

Fyrirtæki sem bjóða vinnustaðanám

Starfsgreinaráð halda skrá yfir fyrirtæki sem uppfylla skilyrði sett samkvæmt reglugerð þessari og í almennum ákvæðum aðalnámskrár um vinnustaðanám.

Starfsgreinaráð getur komið á fót nemaleyfisnefnd til þess að fara yfir umsóknir einstakra fyrirtækja eða meistara um heimild til að taka nemendur í starfsþjálfun eða á námssamning og afgreiða þær. Menntamálaráðherra setur nemaleyfisnefndum erindisbréf.

10. gr.

Reynslutími

Fyrstu 12 vikur námstíma samkvæmt námssamningi skoðast sem reynslutími eða fast hlutfall af lengd vinnustaðanáms þegar starfsþjálfun samkvæmt námskrá er styttri en 30 vikur. Þó getur reynslutími aldrei verið lengri en þriðjungur starfsþjálfunar á vinnustað enda hefjist starfsþjálfun um það leyti sem samningurinn er gerður. Hvenær sem er á reynslutímanum getur hvor samningsaðili um sig slitið námssamningi án þess að tilgreina ástæður.

11. gr.

Heimild til þess að útvega annan námsstað

Uppfylli fyrirtæki ekki lengur ákvæði 7. gr. skal skóli útvega nemanda annan námsstað í starfs­greininni.

Heimilt er skóla, eða öðrum umsýsluaðila, að fela fleiri en einu fyrirtæki að annast vinnustaða­nám og starfsþjálfun nemanda þegar þannig ber við að fyrirtæki hefur ekki nægilega fjölþætt verk­efni til að unnt sé að kenna starfið fullkomlega innan veggja eins fyrirtækis.

12. gr.

Slit

Aðilar námssamnings geta slitið honum:

  1. ef nemandi vanrækir nám sitt,
  2. ef nemandi hefur, að áliti læknis, ekki heilsu til að stunda viðkomandi starf,
  3. ef fyrirtæki brýtur samningsskyldur sínar,
  4. ef fyrirtæki verður gjaldþrota eða hættir störfum af öðrum ástæðum.

Ef svo er ástatt sem greinir í a- og c-lið 1. mgr. en fyrirtæki eða nemi slíta ekki námssamningi getur skóli eða annar umsýsluaðili námssamnings slitið samningi að undangenginni athugun.

Aðilum er heimilt að slíta námssamningi ef þeir koma sér saman um það. Þegar samningi er slitið skal það jafnan tilkynnt skóla eða öðrum umsýsluaðila námssamninga.

Verði endurtekin slit á námssamningum af hálfu fyrirtækis eða fyrirtæki verður sannanlega upp­víst að því að vanrækja kennslu missir fyrirtækið rétt sinn til þess að annast kennslu nemenda á vinnustað.

Hafi nemandi áður stundað nám hjá öðrum aðila en slitið námssamningi við hann, sbr. c- og d-lið 1. mgr., skal sá tími er hann vann hjá honum dragast frá fullum námstíma hjá seinni samnings­aðila í sömu starfsgrein.

13. gr.

Málsmeðferð við slit samnings

Sé námssamningi slitið eftir að reynslutími er liðinn skal skóli eða annar umsýsluaðili, sbr. 4. gr., skrá ástæðu samningsslitanna. Óski aðili einhliða eftir slitum námssamnings þegar reynslutími er liðinn skal það gert skriflega og mótaðila samnings jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um beiðnina. Uppsagnarfrestur samnings í slíkum tilvikum skal alla jafna vera einn mánuður.

Ágreiningi nemanda og fyrirtækis er kann að rísa vegna samningsslita skal vísað til skóla­meistara eða annars umsýsluaðila námssamninga sem leiðbeinir nemanda um mögulega máls­meðferð og leiðir til að ljúka starfsþjálfun hans.

14. gr.

Málskot

Takist ekki að leysa ágreining um réttindi og skyldur nemanda eftir hefðbundnum leiðum má skjóta honum til menntamálaráðherra. Einnig verður ágreiningi um rétt fyrirtækis til þess að annast kennslu nemenda skotið til menntamálaráðherra.

15. gr.

Gildistaka

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 28. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 280/1997 um námssamninga og starfsþjálfun.

 Menntamálaráðuneytinu, 20. júlí 2009.

 Katrín Jakobsdóttir.

Baldur Guðlaugsson.

__________

 

B-deild – Útgáfud.: 12. ágúst 2009








Þetta vefsvæði byggir á Eplica