Gerlis Fugmann ráðin nýr framkvæmdastjóri IASC

1.4.2020

Gerlis Fugmann hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC). Hún hefur víðtæka starfsreynslu, hefur tekið þátt í rannsóknastarfi á norðurslóðum í meira en áratug og hefur mikla innsýn í málefni norðurslóða. Þá hefur hún unnið með vísindamönnum, alþjóðastofnunum og hagsmunaaðilum á heimskautssvæðinu og haft yfirumsjón með stórum verkefnum, viðburðum og fundum.

  • Gerlis Fugmann

Gerlis er með doktorsgráðu í landafræði frá Justus Liebig University Giessen í Þýskalandi og MA gráðu í landafræði, mannfræði og fornleifafræði frá Rheinische Friedrich Wilhelms University Bonn í Þýskalandi.

Hún hefur verið framkvæmdastjóri APECS (Association of Polar Early Career Scientists) síðan 2013, fyrst við UiT (The Arctic University of Norway) í Tromsø og svo við Alfred Wegener Institute (AWI) í Potsdam, Þýskalandi. Einnig hefur hún stundað rannsóknir m.a. sem nýdoktor við University of Saskatchewan í Kanada, með áherslu á verkefni í norður Kanada og á Norðurlöndum. Þar var einkum beint sjónum að málefnum svo sem efnahagsþróun, ferðaþjónustu, þróun auðlinda og þátttöku Norðurlanda í nýsköpun og þekkingarhagkerfi.

Gerlis Fugmann mun taka við starfi framkvæmdastjóra IASC eigi síðar en 1. ágúst nk. en Allen Pope hefur gegnt starfinu frá 2017. Rannís býður hana velkomna í starfsmannahópinn.

Skrifstofa IASC er staðsett á Akureyri, í Húsnæði Háskólans að Borgum, en samningur Íslands við IASC gildir til ársloka 2026. Nánar um starfsemina á vefsíðu IASC.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica