Íslenska erfða- og líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics (AT) tryggir sér 12,5 milljón evra fjármögnun

4.1.2023

Styrkurinn kemur frá Evrópska nýsköpunarráðinu (European Innovation Council, EIC) og er fjármögnunin í formi styrks að virði 2,5 milljónir evra auk 10 milljóna evra hlutafjárframlags frá fjárfestingarmi stofnunarinnar, EIC Fund. 

Fjármagnið verður nýtt til þess að hefja næsta þróunarfasa á lyfi fyrirtækisins við ættgengri íslenskri heilablæðingu sem jafnframt eru bundnar vonir við að virki gegn heilbilunarsjúkdómnum Alzheimer. Lyfjaþróunin byggir á 16 ára erfðarannsóknum í samstarfi við Center of Applied Genomics hjá Barnaháskólasjúkrahúsi Fíladelfíu og Pennsylvaníuháskóla. Fyrirtækið er með fjögur önnur lyf í þróun sem byggja á sömu nálgun, svo sem lyf við húðsjúkdómum og bólgusjúkdómum. Þróun heilablæðingarlyfsins er nú í fasa þrjú, sem er svokallaður skráningarfasi.

Arctic Therapeutics er í samstarfi við Háskólann á Akureyri í gegnum vísindasetrið Borgir. Hefur fyrirtækið sinnt nemum háskólans í verkefnum og tveir þeirra hafa fengið störf hjá fyrirtækinu.

Evrópska nýsköpunarráðið (EIC) er flaggskip nýsköpunaráætlunar Evrópu og er hlutverk þess að bera kennsl á, þróa og stækka byltingarkennda tækni og nýjungar.

Arctic Therapeutics hefur notið þjónustu og stuðnings Rannís og meðal annars fengið úthlutað úr Tækniþróunarsjóði og Innviðasjóði í samstarfi við Háskólann á Akureyri. 

Frétt á vef Evrópska nýsköpunarráðsins









Þetta vefsvæði byggir á Eplica