Listaháskóli Íslands þátttakandi í NordForsk verkefni um snjallar vefnaðarvörur

25.1.2021

Nýverið úthlutaði NordForsk í fyrsta skipti til verkefna í áætlun um þverfaglegar rannsóknir. Um 176 milljónir norskra króna voru til úthlutunar. 12 verkefni fengu styrk en þau fjalla um margvísleg viðfangsefni, allt frá náhvalstönnum til heimsfaraldurs og til félagslegra vélmenna. Listaháskóli Íslands tekur þátt í verkefni um vefnaðarvörur og snjalltækni.

  • Logo NordForsk

Þverfaglegar rannsóknir sem rjúfa hefðbundin landamæri vísinda og fræða verða sífellt meira aðkallandi. Með því að tengja saman ólíkar aðferðir, gögn, sjónarhorn, hugtök og kenningar verður hægt að skapa nýja þekkingu til framtíðar. Þetta er hvatinn að áætlun NordForsk um þverfaglegar rannsóknir: Programme for Interdisciplinary Research. Áætlunin er studd af öllum Norðurlöndunum. Rannís heldur utan um þátttöku Íslands sem er fjármögnuð af Rannsóknasjóði.

Metfjöldi umsókna barst á fyrsta umsóknarfresti fyrir um ári síðan eða 337; sýnir það þörfina og áhugann. Niðurstaða alþjóðlegra fagráða og stjórnar áætlunarinnar var að velja 12 verkefni. Rannsakendur frá Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð taka þátt í verkefnunum, ásamt aðilum frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Tajikistan, og Þýskalandi.

Listaháskóli Íslands tekur þátt í verkefninu Nordic network on smart light-conversion textiles beyond electric circuits. Fulltrúi skólans er Thomas Pausz við hönnunardeild. Verkefninu er stýrt frá Aalto háskólanum í Finnland og auk Íslands taka Danmörk og Svíþjóð þátt. Markmiðið er að þróa snjallar vefnaðarvörur án rafrása sem geta nýtt sólarljós eða aðra umhverfisorku til nytsamlegra hluta, eins og hitamyndunar og litabreytinga; jafnframt að hönnun og fagurfræði textílsins nýtist í daglegu lífi, en verkefnið byggist ekki hvað síst á samvinnu efnaverkfræði, hönnunar og lista. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica