Aldrei fleiri á Vísindavöku

30.9.2008

Vísindavaka Rannís var haldin föstudaginn 26. september sl. í Listasafni Reykjavíkur. Aldrei hafa fleiri gestir sótt Vísindavökuna, en um 2000 manns lögðu leið sína í Listasafnið til að hitta vísindamenn og kynnast viðfangsefnum þeirra. Við opnunina voru afhent verðlaun í teiknisamkeppni barna og ljósmyndasamkeppni unga fólksins þar sem efnið var "Vísindin í daglegu lífi", auk þess sem viðurkenning Rannís fyrir framlag til Vísindamiðlunar var veitt. Að þessu sinni hlaut Örnólfur Thorlacius viðurkenninguna.
Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís og Hellen M. Gunnarsdóttir deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu afhentu verðlaunin. Vísindavakan er haldin í tilefni af Degi Evrópska vísindamannsins og er hún haldin á sama tíma í helstu borgum Evrópu. Markmiðið með framtakinu er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Áhersla var lögð á lifandi kynningar og skemmtilega og fræðandi viðburði fyrir alla fjölskylduna. Allar vísindagreinar voru kynntar á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi.   









Þetta vefsvæði byggir á Eplica