Dagskrá Vísindakaffisins

16.9.2009

  

Heiti verkefnis: Hreinefni úr íslenskri náttúru 
Verkefnisstjóri: Steinþór Sigurðsson, SagaMedica ehf.,  sts()raunvis.hi.is
Styrktegund: Verkefnisstyrkur
Verktími: 1 ár, hófst 2008
Styrkur: 3 millj. kr.
Umsjónarmaður Rannís: Lýður Skúli Erlendsson
Tilvísunarnúmer Tækniþróunarsjóðs: 081208

 

Nú er að ljúka rannsóknaverkefni á vegum SagaMedica sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði og lýtur að vinnslu hreinna náttúruefna úr íslenskri ætihvönn. Fyrst og fremst er um að ræða fúrankúmarínefnið imperatorin, sem er að finna í miklu magni í ætihvannarfræjum. Imperatorin hefur notið vaxandi athygli á síðustu árum fyrir margvíslega líffræðilega virkni. Þar má nefna bælingu á fjölgun krabbameinsfrumna, æðaslakandi virkni, örvun á fituniðurbroti, verkun gegn beinþynningu, virkni gegn bakteríum, hindrun niðurbrots taugaboðefnisins GABA, og bólguhemjandi virkni.

 

Í fyrri hluta verkefnisins voru gerðar mælingar á ætihvannarfræjum víðsvegar um landið, og kom í ljós verulegur breytileiki, bæði innan landshluta, en eins á milli landshluta. Sum efni sem algeng voru í sýnum norðanlands var mun síður að finna sunnanlands, meðan þessu var öfugt farið um önnur efni.

 

Í síðari hluta verkefnisins var hreinsunaraðferð þróuð og reynd, og fékkst tæpt gramm af 98% hreinu efni úr kg hráefnis. Hægt er að auka heimtur verulega með því að velja heppilegt hráefni - þ.e. hráefni sem inniheldur mikið imperatorin og þó sérstaklega hráefni sem inniheldur lítið af þeim fúrankúmarínefnum sem erfiðast er að greina frá. Fyrri hluti verkefnisins leiddi í ljós að slíkt hráefni er víða að finna. Niðurstöður verkefnisins verða nýttar til framleiðslu og sölu á hreinum efnum eftir því sem eftirspurn leyfir, en einnig til rannsókna og vöruþróunar á vegum SagaMedica.

 

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

 

Afrakstur verkefnisins:

 

Þekking á fúrankúmarínsamsetningu íslenskra ætihvannarfræja m.t.t. staða og landshluta. Til stendur að birta þær niðurstöður síðar í fagtímariti.

 

Aðferð til hreinsunar imperatorins og isoimperatorins úr ætihvannarfræjum.

 

Aðferð til framleiðslu á afurðum (töflum) með skilgreint magn fúrankúmarína, fyrst og fremst imperatorin, phellopterins og isoimperatorins (samsetningin ræðst af hráefninu, en heildarmagnið e stillanlegt) 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica