Niðurstöður gæðaúttektar á Háskólanum á Akureyri
Gæðaráð íslenskra háskóla, sem starfar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið, hefur gert opinberar niðurstöður viðamikillar úttektar á gæðum náms við Háskólann á Akureyri.
Úttektin er liður í skipulegu eftirliti Gæðaráðs með gæðum náms við íslenska háskóla og er Háskólinn á Akureyri fjórði skólinn sem gengst undir slíkt ferli. Hún var liður í samræmdu gæðastarfi íslenskra háskóla sem er umbótamiðað og með megináherslu á námsumhverfið og nemendur.
Úttektin var að venju framkvæmd af fjórum erlendum sérfræðingum auk nemendafulltrúa. Í henni fólst að meðal annars var gerð úttekt á aðstöðu skólans ásamt því að fundað var með fulltrúum nemenda, starfsmanna, stjórnenda, háskólaráðs, brautskráðra nemenda og fulltrúa atvinnulífsins á starfsvæði háskólans. HA fékk fyrstu niðurstöður úr úttektinni strax að henni lokinni og þar segir að úttektarnefndin beri traust (confidence) til háskólans, bæði hvað varðar akademískt starf og námsumhverfi nemenda. Það er besta einkunn sem háskóli getur fengið við fyrstu úttekt samkvæmt núverandi kerfi en í þessari úttektahrinu sem Gæðaráð framkvæmir fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis er ekki gert ráð fyrir því að neinn skóli geti fengið hæstu einkunn, sem er „full confidence.“
Meðal helstu niðurstaðna úttektarinnar má telja, að Háskólanum á Akureyri er hrósað fyrir góða starfshætti t.d. varðandi framboð í fjarkennslu, gæðastarf, húsnæði og námsumhverfi, markaðsstarf, bókasafnsþjónustu, öflun upplýsinga með könnunum og virkni nemenda í starfsemi háskólans. Úttektarnefndin gerir aftur á móti athugasemdir við þætti er lúta að nefndarskipan við stjórn skólans, nýtingu niðurstaðna innra gæðastarfs, skipulag fjarkennslu, mannauðsstjórnun og umsýslu erlendra nemenda svo dæmi séu tekin.