MEDIA úthlutar 82 milljónum til íslenskrar sjónvarpsþáttagerðar

16.6.2015

Úthlutað hefur verið úr Creative Europe – MEDIA kvikmyndaáætlun ESB og var árangurshlutfall íslenskra umsækjenda 100%. Styrkirnir skiptast milli tveggja verkefna.

  • Ólafur Darri og Bjarne Henriksen í hlutverkum sínum í Ófærð.

Kvikmyndafyrirtækið  Sögn fær 500.000 evrur fyrir sjónvarpsþáttaröðina Ófærð eða Trapped en einungis fimm aðilar fengu styrki sem voru 500.000 evrur og hærri. Þetta er langstærsti styrkur frá upphafi þátttöku Íslendinga í MEDIA kvikmyndaáætlun ESB eða frá 1992. Ófærð er stærsta og metnaðarfyllsta verkefnið sem Sögn hefur tekist á við og búið er að forselja þættina vítt og breitt um heiminn.

Einnig fékk annað íslenskt fyrirtæki, TV Compass, úthlutað 46.920 evrum fyrir Yarn: the Movie. Samtals nemur úthlutun til íslenskra aðila því nærri 82 milljónum króna.

Að þessu sinni bárust 52 evrópskar umsóknir og fengu 25 þeirra brautargengi. Af heildarúthlutuninni, sem nemur 4.700.498 evrum, fá ofangreind íslensk fyrirtæki 12% í sinn hlut og er það fáheyrður árangur eins lands.

Nánar um úthlutun Media









Þetta vefsvæði byggir á Eplica