Kröftug þátttaka íslenskra skóla og stofnana í Nordplus menntaáætluninni

31.8.2015

Úthlutun styrkja úr Nordplus menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2015 er lokið. Alls bárust 605 umsóknir og hlutu 410 umsóknir brautargengi fyrir heildarstyrkveitingu upp á 10 miljón evra. Þátttaka Íslands var mjög góð og hlutu 29 íslensk verkefni styrki, alls 744.465 evrur eða um109 m.kr.

Þátttaka íslenskra stofnana sem samstarfsaðila er einnig mjög mikil. Dæmi um íslensk verkefni sem hlutu styrk eru Norrænn tónlistarkennslugagnagrunnur (stýrt af samtökum Orff tónmennta á Íslandi), samstarfsverkefni Tækniskólans og skóla í Noregi um skipstjóranám og námsheimsókn starfsmanna Hins Hússins til Danmerkur.

Ítarleg samantekt um þátttöku Íslands árið 2015 hefur verið tekin saman í skýrslu .

Nordplus styrkir menntasamstarf á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum. Ýmsar tegundir styrkja eru í boðið fyrir kennara, nemendur og stofnanir / fyrirtæki sem starfa við menntamál. Almennur umsóknarfrestur er 1. mars ár hvert, en einnig hægt er að sækja um styrk til undirbúningsheimsókna í ákveðnum áætlunum 1. október ár hvert. Vakin er athygli á því að til  1. október 2015 verður einnig aukaumsóknarfrestur í Nordplus norrænu tungumálaáætluninni.

Nánari upplýsingar um þessa umsóknarlotu má nálgast á norrænu heimasíðu Nordplus.  Einnig má þar nálgast skýrslur og greinagerðir um eldri verkefni Nordplus.

Landskrifstofa Nordplus á Íslandi er hjá Rannís og má kynna sér áætlunina á www.nordplus.is.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica