Styrkur frá Tækniþróunarsjóði ákveðinn gæðastimpill fyrir vörur og þjónustu í þróun

12.12.2022

Áhrifamat Tækniþróunarsjóðs fyrir árin 2014-2018 var kynnt á haustfundi sjóðsins í Grósku í dag. Í matinu kemur meðal annars fram að styrkur úr sjóðnum leiddi til nýrra frumgerða á vöru eða þjónustu hjá 91% styrkþega.

  • Styrkthegar

Haustfundur Tækniþróunarsjóðs fór fram í Grósku í dag, mánudaginn 12.12.2022 og opnaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fundinn. Á fundinum var meðal annars fjallað um nýtt áhrifamat fyrir sjóðinn en matið gildir fyrir árin 2014-2018.

Markmið Tækniþróunarsjóðs er að styðja við þróunarstarf og rannsóknir sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi og leiða til endurnýjunar og bættrar samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs.

Á tímabilinu voru alls 441 verkefni, af mismunandi umfangi, styrkt fyrir 9,6 milljarða króna sem er meira en tvöföld styrkupphæð sjóðsins fyrir árin 2009-2013.

Áhrifamatið byggði á stöðluðum spurningalistum og viðtölum til að meta áhrif styrkjanna og fá nánari innsýn í hvernig þeir styðja við starfsemi fyrirtækja og nánasta umhverfi þeirra.

Í niðurstöðum matsins kemur meðal annars fram að styrkur úr Tækniþróunarsjóði leiddi til nýrra frumgerða á vöru eða þjónustu hjá 91% styrkþega og 77% styrkþega tókst að auka veltu sína á meðan 56% styrkþega skiluðu auknum hagnaði. Þá juku styrkirnir aðgengi að nýjum mörkuðum hjá 64% styrkþega.

Þá kemur fram í áhrifamatinu að hjá 82% styrkþega urðu til ný tímabundin störf og ný framtíðarstörf urðu til hjá 73% styrkþega. Þá jókst hlutdeild kvenna í nýsköpun og tækniþróun hjá 55% styrkþega.

Að mati viðmælenda í áhrifamatinu töldu þeir að 95% nýsköpunarverkefna hefðu ekki orðið að veruleika ef ekki hefði fengist styrkur úr Tækniþróunarsjóði.

Niðurstöður áhrifamatsins benda sterklega til þess að markmiðum sjóðsins sé náð og það er ánægjulegt í ljósi þess að framlög hins opinbera í sjóðinn hafa aukist verulega undanfarin ár og því fleiri aðilar styrktir til góðra verka. Það má líka segja að styrkur frá sjóðnum sé nokkurs konar gæðastimpill á vöru eða þjónustu í þróun, því styrkþegar fá aðgang að öðru fjármagni og styrkjum í kjölfarið, bæði innan lands og utan“ segir Sigurður Óli Sigurðsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís en Rannís fer með alla umsýslu fyrir Tækniþróunarsjóð.

Heildarútgáfu áhrifamats Tækniþróunarsjóðs er hægt að nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan en einnig hefur verið gefin út stutt samantekt um áhrifamatið sem greinir frá niðurstöðum þess í hnotskurn. Samantektina má einnig nálgast með því að smella á viðeigandi hnapp hér fyrir neðan.

Heildarútgáfa: Áhrifamat Tækniþróunarsjóðs

Í hnotskurn: Áhrifamat Tækniþróunarsjóðs

Á haustfundinum fengu gestir einnig að heyra tvær örsögur, annars vegar frá tölvuleikjafyrirtækinu Solid Clouds og hins vegar frá framleiðlsufyrirtækinu Sæbýli. Fjölluðu sögur þeirra um hvaða áhrif styrkur frá Tækniþróunarsjóði hafði í för með sér fyrir starfsemi fyrirtækjanna og tækifæri þeirra til að þróa áfram sínar vörur og þjónustu.

Styrkþegum haustúthlutunar sjóðsins, sem tilkynnt var í síðustu viku, var sérstaklega boðið að taka þátt í fundinum og voru styrkþegar kynntir í lok fundar auk þess sem tækifærið var notað og hópmynd tekin með styrkþegum og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar.










Þetta vefsvæði byggir á Eplica